Ást í meinum hlýtur Menningarverðlaun DV 13.3.2013
   

Rúnar Helgi Vignisson hlaut í gær Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir sagnasveiginn Ást í meinum, sem Uppheimar gáfu út. Í umsögn dómnefndar segir:

„Ást í meinum geymir fimmtán sögur eftir Rúnar Helga Vignisson, sem er einn snjallasti sagnahöfundur landsins. Mannleg samskipti (eða skortur á þeim) eru hinn rauði þráður í sögum Rúnars Helga, og hann á ótrúlega létt með að draga upp í örfáum orðum persónur sem spretta ljóslifandi upp af síðunum. Þær persónur eru iðulega staddar í einhvers konar öngstræti eða ógöngum, þurfa að takast á við ást og angist, fantasíur og fóbíur, efasemdir og eftirsjá. Rúnar Helgi skrifar einstaklega fallegan stíl, sem iðulega brestur í svellandi húmor, en stílgaldurinn liggur ekki síður í hinu ósagða – því sem lesandinn bætir við þessar eftirminnilegu sögur.“

   
Friðrika sparar ekki stóru orðin 13.7.2012

Fréttablaðið birtir í dag ritdóm Friðriku Benónýsdóttur um Ást í meinum. Skemmst er frá því að segja að Friðrika sparar ekki stóru orðin um bókina. Í lokaorðum sínum segir hún að sagnasveigurinn sé „meðal best heppnuðu smásagnasafna sem hér hafa komið út lengi og hrein nautn að lesa svo vel skrifaðar, vel byggðar og vel hugsaðar sögur um jafn vandmeðfarið efni og ástina.“

Ritdóminn í heild sinni má lesa hér.

   
 
Ást í meinum – „afbragðs bókmenntaverk“
24.6.2012

Út er komin ný bók eftir Rúnar Helga Vignisson, Ást í meinum, og kemur hún út hjá bókaforlaginu metnaðarfulla, Uppheimum. Hér birtast á bók fimmtán nýjar smásögur sem tengjast allar efnislega – raða sér í svokallaðan sagnasveig – en þær eiga það sammerkt að fjalla um náin samskipti. Höfundur spyr áleitinna spurninga um ást og kynlíf, hjónaband og barneignir, lífsstíl og heilbrigði og ekki síst um það að eldast saman. Hér er tekist á við lífið í öllum sínum fjölbreytileika, allt frá getnaði til dauða. Stíllinn leiftrar af kímni en þó er undirtónninn alvarlegur, enda gerist margt á langri lífsleið. Fólk getur verið býsna harðskeytt þegar það leitast við að eiga saman farsæla ævi.

Páll Baldvin Baldvinsson hefur fjallað um bókina í Fréttatímanum og segir þá m.a.: „Hér er allt vel gert, höfundurinn talar ekki hástöfum heldur leiðir okkur af öryggi sögumeistara um þaulunninn sagnaheim af mikilli smekkvísi.“ Síðan klykkir hann út með því að kalla bókina „afbragðs bókmenntaverk. Ritdóminn í heild sinni má sjá hér.

   
Stríð í stuttbuxum 6.2.2011

Nýverið birti Rúnar Helgi Vignisson grein um íþróttahreyfinguna í Tímariti Máls og menningar (3 2010). Þar horfir hann á hreyfinguna með augum föður og byggir á reynslu sinni af því að fylgja tveimur efnilegum íþróttastrákum í gegnum unglingastarf hjá fleiri en einu félagi. Ýmislegt kemur Rúnari spánskt fyrir sjónir, bæði hjá íþróttahreyfingunni og honum sjálfum.

Ég var mættur á úrslitaleik á Rey-Cup, alþjóðlegu móti sem Þróttarar halda í Laugardal á hverju sumri. Ég hafði óvenju hægt um mig, þó að ég væri hálfstressaður fyrir hönd minna manna enda mótherjarnir flestir árinu eldri og talsvert hærri. Fyrir framan mig stóð faðir sem fylgdi hinu liðinu og hafði sig þó nokkuð í frammi. Um miðjan fyrri hálfleikinn, þegar allt er í járnum, heyri ég hann kalla villimannslega: Já, étt’ann! Drengurinn sem maðurinn vildi láta éta var sonur minn 13 ára og sá sem átti að éta hann var næstum höfðinu hærri.

Sjá meira undir Pistlar.

   
Gunnar Hersveinn leggur út af Veginum og Hvað er þetta Hvað? í Þjóðgildunum 8.1.2011

Í bók sinni Þjóðgildin, sem kom út sl. haust, vinnur Gunnar Hersveinn heimspekingur á skapandi hátt með sagnir og sögur héðan og þaðan úr heiminum, fléttar þær saman við umfjöllun sína um gildi. Hann leggur m.a. út af tveimur bókum sem Grænhýsingur hefur þýtt, Veginum eftir Cormac McCarthy og Hvað er þetta Hvað? eftir Dave Eggers en báðar komu þær út hjá Bjarti. Um þá síðarnefndu birtir hann hliðarkafla þar sem hann sýður niður þjóðargoðsagnir Súdana og tengir íslenskri umræðu um lýðræði:

„Sköpunarsaga framandi þjóðar hljómar eitthvað á þessa leið: Guð skapaði ljós og myrkur, himin og jörð og höfin, gróðurinn, dýrin og mennina og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá kom að því að Guð bauð fólkinu upp á tvo kosti til lífsviðurværis: nautgripi eða þetta hvað. Fólkið þekkti frjósamt landið og nautgripina, það vissi hvað það átti – en spurði svo: „Hvað er þetta hvað?“ og Guð svarði: „Þið komist að því ef þið veljið það.“ Hvað er þetta Ísland? Þjóð er hugtak og ef það merkir almenning, þá rúmar það ekki valdstjórn sem vill gefa almenningi eitthvert eðli sem hentar tímabundnum hagsmunum hans. Þjóðin þarf að ráða sér sjálf.“

Veginn tekur Gunnar inn í umfjöllun um kærleikann og segir m.a.:

„Í skáldsögunni Vegurinn eftir Cormac McCarthy er veröld lýst þar sem kærleikurinn er öllum horfinn nema einni smáveru. Höfundurinn hefur sennilega gert sér í hugarlund hvernig heimurinn án lærleika liti út. Drengurinn í sögunni er sá eini sem finnur til með öðrum og er ekki sama um örlög annarra. Hann þjáist með öðrum og vill rétta þeim hjálparhönd. Jafnvel faðir hans hefur glatað kærleikanum þótt hann skynji og ræki ábyrgð sína gagnvart drengnum. Bera má kennsl á kærleikann í brjósti drengsins þótt flestallt sé horfið sem fólk unni og veröldin sé án fugla, jurta, dýra og vonar og ekki sjáist lengur til sólar sökum ösku.“

   
Nautnastuldar minnst á 20 ára afmæli 10.11.10

Um þessar mundir eru liðin 20 ár frá því skáldsagan Nautnastuldur kom út. Ekki mun Græna húsið efna til neinna viðburða af því tilefni. Bókin lifir hins vegar enn, hún var t.d. töluvert lesin eftir að hún var gefin út í endurskoðaðri útgáfu árið 2006.

Eins og til að halda upp á 20 ára afmælið birtist færsla um bókina í nýrri bókmenntasögu Dagnýjar Kristjánsdóttur, Öldin öfgafulla. Umfjöllun um bókina kemur næst á eftir kafla um Þórunni Valdimarsdóttur sem lýkur á þeirri fullyrðingu að ástin og erótíkin leiki stórt hlutverk í bókum hennar. Síðan segir:

„Hið sama má segja um Nautnastuld (1990) eftir Rúnar Helga Vignisson (1959–) en þar segir frá ungum manni sem ver tíma sínum að mestu leyti í að liggja á dívan í kjallaraíbúð í Reykjavík. Hann hugsar um brotna sjálfsmynd sína, líkama sinn og skort á löngun til nokkurs skapaðs hlutar. Hann er graður en þorir ekki að nálgast konur eftir að eitt samband hefur siglt í strand og hann er ofboðslega einmana. Hann vill ekki vera slappur en hann er það, haldinn ótta við allt og alla. Sjálfshatur hans minnir mjög á söguhetju norska rithöfundarins Knuts Hamsun í Sulti, þar sem söguhetjan, ungur maður, er við það að svelta sig í hel frekar en að fá sér verkamannavinnu. Nautnastuldur er einkar póstmódernísk bók sem leikur sér að tungumálinu með kalhæðni og leikgleði. Rúnar Helgi er líka listfengur þýðandi.“

Svo mörg voru þau orð. Þau segja reyndar ekki nálægt því alla söguna, lýsa í rauninni bara fyrsta hluta bókarinnar. Egill fór meira fram úr í seinni hlutum bókarinnar.

Þess má geta að Græna húsið hefur eftir áreiðanlegum heimildum að aldrei hafi hvarflað að höfundinum að hann væri að skrifa póstmóderníska sögu. Ennfremur vill forlagið koma á framfæri kveðjum og þökkum frá Agli Grímssyni. Hann er ekki enn búinn að frétta að nú er verið að þýða Nautnastuld á þýsku.

     
  „Erótík á Jónsmessunótt“ væntanleg á þýsku 7.8.10

Í tilefni af því að Ísland verður heiðursgestur á bókastefnunni í Frankfurt haustið 2011 hyggst hið virta þýska bókaforlag Suhrkamp gefa út safn íslenskra smásagna. Safninu er ritstýrt af Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntafræðingi ásamt þeim Gert Kreutzer og Halldóri Guðmundssyni.

Skemmst er frá því að segja að Græna húsinu barst á dögunum beiðni um að fá að birta smásögu Rúnars Helga Vignissonar „Erótík á Jónsmessunótt“ í safninu. Sagan birtist upphaflega í bókinni Í allri sinni nekt árið 2000 og er þriðja sagan úr bókinni sem þýdd er á þýsku. „Erótík á Jónsmessunótt“ fjallar um par sem er að koma úr miðnæturgöngu á Snæfellsjökul. Þau stelast ásamt öðru pari í heitan pott þar sem tíkin Eró stelur fötunum þeirra. Í framhaldinu halda þau heim á gistiheimili þar sem eiginmaðurinn þröngvar konu sinni til samræðis, svo ekki sé meira sagt.

   
  Feðgar á ferð í nýrri þýðingu 24.3.10

Út er komin ný þýðing frá hendi Rúnars Helga Vignissonar. Það er skáldsagan Vegurinn eftir hinn virta bandaríska höfund Cormac McCarthy. Bókin lýsir göngu feðga í átt til strandar eftir að óskilgreindar hamfarir hafa orðið með þeim afleiðingum að siðmenningin hefur farið veg allrar veraldar. Feðgarnir lenda í ýmsu á leiðinni, hríðarbyl, jarðskjálfta og mannætum.

Grunnhugmynd bókarinnar virðist spretta úr áhyggjum manna af framtíð lífs á jörðinni, bæði vegna mengunar og kjarnorkuvár. McCarthy nær að lýsa ferðalagi feðganna af næmi og sameinar þar sérstæðar lýsingar í anda Faulkners og harðsoðinn stíl í anda Hemingways. Úr verður afar áhrifamikil bók um stöðu mannsins í hverfulum heimi.

Bókin hlaut Pulitzer-verðlaunin og var valin besta bók fyrsta áratugar 21. aldar af stórblaðinu The Times. Þá hefur verið gerð kvikmynd eftir bókinni með Viggo Mortensen í aðalhlutverki.

Bókin kemur út í Neon-klúbbi Bjarts.

     
  Tuttugu og fimm ár 2.2.10

Í desember síðastliðnum voru liðin 25 ár frá því að fyrsta bók mín (Rúnars Helga Vignissonar) kom út. Hún hét og heitir Ekkert slor og fjallar um líf í frystihúsi. Bókin hafði verið í smíðum frá því um 1980, fyrsta uppkastið var skrifað aftan á gamalt og gult bréfsefni frá Olíusamlagi útvegsmanna.

Ég hafði skrifað þetta fram og aftur í nokkur ár en fannst bókin ekki ganga upp. Svo var það í fjallaloftinu í Grenoble sem þeirri hugmynd laust niður að skipta aðalpersónunum upp í þrjár persónur á misjöfnum aldri. Þannig vildi ég losna við að skrifa línulega frásögn sem spannaði mörg sumur. Með því að skipta persónunum upp gat ég látið bókina gerast á einu sumri. Til að gefa lesandanum undir fótinn með þetta hétu kvenpersónurnar nöfnum sem enduðu á borg og karlpersónurnar nöfnum sem enduðu á jón.

Bókinni var ágætlega tekið, ekki síst vestur á Ísafirði þar sem hún náði í 5. sæti á metsölulista, ef ég man rétt.

     
  Hvorugur heimurinn er fyrirmyndarsamfélag 11.12.09

Helga Ferdinandsdóttir skrifar grein um Göngin í nýjasta hefti tímaritsins Börn og menning. Þar gerir hún ágæta grein fyrir bókinni og sögusviði sem er að stórum hluta neðanjarðar. Hún upplýsir að kveikjan að bókinni hafi verið „magnaðir neðanjarðarrangalar sem fáir vita að leynast í Liverpool og ganga undir nafninu Williamson-göngin“.

Helga segir bókina vera ágætlega spennandi hryllings- og ævintýrasögu. Hún setur bókina síðan í samhengi við staðleysubókmenntir og segir þá m.a.:

„Ferðir söguhetjanna á milli „efra“ og „neðra“ undirstrika tilfinninguna fyrir því að hvorugur heimurinn er nokkur útópía eða fyrirmyndarsamfélag. Nýlendudrengur sem ferðast með Will frá neðri byggð upp á yfirborðið upplifir efri byggð á sama hátt og Will þá neðri, illa lyktandi og ógnvekjandi.“

Um þýðinguna eru höfð svo fögur orð að við kinokum okkur við því að hafa þau eftir hér á forsíðunni.

     
  Mál-verk á sýningunni Fokhelt 24.10.09

Græna húsið á sinn fulltrúa á myndlistarsýningunni Fokhelt sem nú stendur yfir í tveimur fokheldum raðhúsum við Breiðakur í Garðabæ. Þar sýna allmargir þekktir myndlistarmenn undir sýningarstjórn Þórodds Bjarnasonar ýmiss konar verk.

Vegna sérþekkingar sinnar á Garðabæ, og fyrri skrifa um það ágæta bæjarfélag, var Grænhýsingur upphaflega beðinn að skrifa inngang að sýningunni en hann þróaðist í óvænta átt. Niðurstaðan varð sú að skrifa tvær fasteignaauglýsingar og hengja þær upp í anddyri húsanna. Verkin voru kölluð mál-verk enda eru þau úr máli.

Í dag birtist afar lofsamleg umsögn um sýninguna í Morgunblaðinu. Hana skrifar myndlistargagnrýnandinn og rithöfundurinn Ragna Sigurðardóttir. Hún segir um verk Grænhýsings:

„Rúnar Helgi Vignisson rithöfundur vinnur í anda hugmyndalistar þegar hann notar staðlað form fasteignaauglýsinga til að setja fram texta með ljóðrænni samfélagsádeilu.“

Sýningin var opnuð 17. október og stendur í fjórar helgar. Opið er milli 12 og 16 á laugardögum og sunnudögum.

   
Heiðurstilnefning frá IBBY 4.9.09

Eftirfarandi tilkynning barst Rúnari Helga Vignissyni í dag: „Tilkynni hér með að stjórn IBBY á Íslandi hefur ákveðið að tilnefna þýðingu þína á Göngunum á Heiðurslista Ibby 2010.

Bækurnar verða kynntar á heimsþingi Ibby sem haldið verður í Santiago de Compostela á Spáni í byrjun september 2010. Í kjölfarið er ekki ólíklegt að hún fari á farandsýningu um víða veröld.“

Undir þetta ritar Guðlaug Richter, formaður Ibby á Íslandi. Rúnar Helgi vill deila þessum heiðri með sínum ágæta yfirlesara, Þorvaldi Kristinssyni.

Þetta er í annað sinn sem Rúnar Helgi hlýtur slíka tilnefningu frá IBBY sem eru alþjóðleg samtök um bækur fyrir ungt fólk. Í fyrra skiptið var það fyrir Silfurvæng sem Græna húsið gaf út. Það er Bjartur sem gaf út Göngin.

   
  „Önnur saga“ þýdd á þýsku líka 2.7.09

Aðstandendur nýs íslensks smásagnasafns á þýsku, sem væntanlegt er hjá bókaútgáfunni Steidl, hafa ákveðið að þýða söguna „Önnur saga" úr bókinni Í allri sinni nekt eftir Rúnar Helga Vignisson fyrir safnið. Áður hafði verið ákveðið að Dropinn á glerinu" yrði í bókinni.

Önnur saga" fjallar um þrjá gifta menn sem fara saman í Hornvík. Þar ganga þeir fram á par í ástarleikjum og lýsir sagan þeim áhrifum sem það hefur á mennina. Í ljós kemur að hver sér atvikið með sínum augum og um leið afhjúpast hjónabönd þeirra sjálfra. Það nýstárlegasta við söguna er trúlega form hennar en um það verður ekki rætt hér.

Í allri sinni nekt hlaut á sínum tíma afbragðsgóðar viðtökur. Þannig skrifaði Kristjana Gunnars um hana í tímaritinu World Literature Today:

The manner of writing, the style, the technical flair are reminiscent of some of the best and most imaginative English-language writing, such as that by Raymond Carver or J. M. Coetzee.“

   

„Dropinn á glerinu" gerir víðreist

22.5.09

Smásagnasafnið Uppspuni, sem Grænhýsingur tók saman fyrir fimm árum, hefur slegið í gegn í skólakerfinu og verið prentað fjórum sinnum. Bókin er mikið notuð í framhaldsskólum og einnig við íslenskukennslu í háskólum erlendis.

Segja má að Uppspuni hafi verið eins konar ferðaskrifstofa því bókin hefur opnað sumum sögunum leið yfir á önnur tungumál. Fyrir stuttu fengum við hjá Græna húsinu t.d. beiðni frá Erlangen í Þýskalandi um að veita vilyrði fyrir því að sagan Dropinn á glerinu", sem er einmitt í Uppspuna (en upphaflega prentuð í Í allri sinni nekt), yrði þýdd og gefin út í safni nýrra íslenskra smásagna hjá hinu virta bókaforlagi Steidl. Jafnframt lýstu aðstandendur útgáfunnar áhuga á að nefna safnið eftir þessari sögu, auk þess sem þeir vildu fá aðra nýlega sögu eftir Rúnar Helga í safnið.

Dropinn á glerinu" fjallar í stuttu máli um miðaldra mann sem hefur verið kynsveltur í hjónabandi sínu. Þegar konan hans deyr hyggur hann gott til glóðarinnar en kemst svo að óvæntum sannindum um ást og kynlíf.

Áður hafði sagan „Systralag" úr Strandhöggi Rúnars Helga komið út í safni norrænna sagna á Spáni, El vikingo afeitado : Relatos de escritores nórdicos, í þýðingu Kristins R. Ólafssonar. Þá hafa greinar eftir Rúnar komið út í Eyjaálfu og Kanada.

   
Alvörumynd eftir Hinni feigu skepnu 14.3.09

Það er alltaf sérstakt tilhlökkunarefni að fara á bíómynd sem byggð er á bók sem maður hefur þýtt. Maður verður sérlega nákominn verki við að þýða það, fer inn í innstu kviku þess ef vel tekst til og er því býsna nákominn því. Nú eru nýhafnar sýningar á myndinni Elegy (Harmljóð) sem byggð er á skáldsögunni Hin feiga skepna eftir Philip Roth. Við Guðrún brugðum okkur á hana og urðum hvorugt fyrir vonbrigðum.

Myndin skartar engum aukvisum í aðalhlutverkum, þeim Ben Kingsley, sem leikur menningarrýninn roskna, David Kepesh, og Penélope Cruz, sem leikur hina undurfögru Consuelu. Þau kynnast þegar Consuela skráir sig á námskeið í Hagnýtri gagnrýni hjá Kepesh og að námskeiði loknu hefjast náin kynni þeirra á milli. Ég var spenntur að sjá hvernig þeim yrðu gerð skil í myndinni því lýsingarnar á þeim eru afar áleitnar í bókinni. Kepesh, sem er 30 árum eldri en Consuela, hrífst mjög af ungum og ferskum líkama stúlkunnar, ekki síst brjóstunum sem hann bókstaflega tilbiður. Það er farið býsna smekklega með þetta í myndinni, kannski of smekklega sé tekið mið af bókinni sem fer lengra ofan í hugarkirnurnar en leikstjóri myndarinnar treystir sér til. Kynlíf þeirra, sem er allt að því ógnvænlegt og frummannlegt í bókinni, verður fallegt og meinlaust í myndinni.

Ég vil nú ekki ljóstra of miklu upp en fléttan í bókinni er meistaraleg og snýst að miklu leyti um brjóst Consuelu. Sem ég horfði á myndina áttaði ég mig á því að myndin er í rauninni túlkun á bókinni; bókin er nóturnar og leikstjórinn er tónlistarmaðurinn. Mér til undrunar tókst myndinni sumpart að fara með mig aðeins lengra en bókin því allt í einu áttaði ég mig á því að ást Kepesh á líkama Consuelu, og þá ekki síst á brjóstunum, er ekkert annað en ást hans á lífinu. Hin lífgefandi brjóst, hinn ungi og ólgandi líkami Consuelu, minnir Kepesh á þá átakanlegu staðreynd að hann er orðinn gamall og dauðinn á næsta leiti.

Aðalleikararnir komast báðir firnavel frá hlutverkum sínum. Cruz er eins og sköpuð til að leika hina kúbversku Consuelu og Kingsley tekst ótrúlega vel að túlka hugarangist Kepesh, hvernig þessi gamli kvennabósi sem hefur neitað að tengjast ástkonum sínum tilfinningalega missir smátt og smátt fótanna og sogast inn í ástríðufullt samband við ungu konuna. Í lokin prjónar handritshöfundurinn aðeins við söguþráðinn en einnig sú viðbót er í samræmi við túlkun mína á niðurlagi bókarinnar. Alveg eins og í myndinni eftir Friðþægingu krefst kvikmyndaformið meira afgerandi niðurlags en skáldsögurnar buðu upp á. Ef marka má þessar tvær kvikmyndaaðlaganir hefur skáldverk meira svigrúm fyrir túlkun neytandans, ef svo má segja, en kvikmyndin.
   
Óður til Afríku 21.12.08

Í hádegisfréttum í dag kom fram að íslenskar bækur seldust sem aldrei fyrr nú um stundir en þýðingar sætu á hakanum. Þetta er skiljanlegt í ljósi þeirrar miklu þarfar sem landinn virðist hafa fyrir að líta í eigin barm eftir hrunið. Það breytir samt ekki því að margar þýðingar liggja nú óbættar hjá garði, sumar þykkar og metnaðarfullar, og ljóst að milljónatap verður á þeim.

Fjölmiðlar hafa skynjað straumana í samfélaginu og því hefur verið enn minni umfjöllun um þýddar bækur en vanalega þegar á heildina er litið. Í gær voru samt nokkrar þýðingar til umfjöllunar í Lesbók Morgunblaðsins, þ.á m. Hvað er þetta hvað? Fríða Björk Ingvarsdóttir fjallaði þar um bókina af alkunnu innsæi og sagði hana vera mikinn óð til Afríku. Hér má grípa niður í ritdóm Fríðu Bjarkar.

   
Dagný Kristjánsdóttir skýrir málin 14.12.08

Ekki alls fyrir löngu gaf Græna húsið út bækurnar Nautnastuld og Feigðarflan í kilju og gerði í framhaldinu nokkurn skurk í að kynna bækurnar fyrir íslenskukennurum í menntaskólum. Þótti okkur sem bækurnar væru tilvaldar til kennslu, Nautnastuldur af því hann fjallar um ungan mann sem glímir við sjálfan sig og holdið, Feigðarflan af því það er uppgjör við gróðærið auk þess að hafa talsvert skemmtanagildi.

Þessar tilraunir báru takmarkaðan árangur þó að vissulega hafi bækurnar verið nokkuð notaðar í skólakerfinu, einkum reyndar í háskólum. Við veltum fyrir okkur hverju þetta sætti en fundum svo sem ekki önnur svör en þau sem erfitt er að bera á torg. Á dögunum komumst við svo yfir rit eftir Dagnýju Kristjánsdóttur prófessor þar sem hún skýrir málið. Í ritgerð sem heitir „Fræðin og framhaldsskólarnir" reifar hún m.a. textaval í framhaldsskólum og segir það takmarkast af hefðbundnari skáldsögum. Róttækustu eldri og yngri textarnir séu ekki valdir sem námsefni. Og hvers vegna? Dagný svarar því:

Maður getur nefnilega ekki lesið marga af nýrri, póstmódernísku textunum með þeim samsömunarlestri sem stundaður er í skólunum. Hver vill til dæmis samsama sig þeirri andpersónu sem Rúnar Helgi Vignisson vinnur með í Nautnastuldi? - það er einfaldlega ekki hægt að halda þá bók út ef lesið er útfrá samúðar/andúðarlestri. Marga af póstmódernísku textunum verður að lesa með póstmóderníska umræðu í bakgrunni og nýja aðferðafræði sem vinnutæki. (Undirstraumar, bls. 225).

Í sömu grein er að finna áhugaverða úttekt á Nautnastuldi og hana má finna hér.

   
Hvað vilja konur ekki? 6.12.08

Á dögunum kom mæt kona að máli við þýðanda bókarinnar Hvað er þetta Hvað eftir Dave Eggers. Sagðist hún hafa verið að skoða bókina og fundist kápan mjög karlleg. Af þeim ástæðum fannst henni bókin fráhrindandi fyrir sig og gæti hún ekki hugsað sér að gefa hana frænku sinni í jólagjöf.

Eins og sjá má hér til hliðar er mynd af súdönskum karlmanni framan á bókinni.

Á sama tíma birtist í Bókatíðindum stór auglýsing frá aðstandendum Fjöruverðlaunanna en til þeirra var sérstaklega stofnað til að vekja athygli á bókum eftir konur. Konum virðist finnast sem verk þeirra njóti ekki nægilega mikillar athygli. Samt heyrir maður landsins virtustu útgefendur staðhæfa að konur séu miklu mikilvirkari lesendur en karlar og að þær vilji helst lesa verk eftir konur.

Ef það er rétt hlýtur kynningarátak fjörukvenna að beinast að körlum.  

Áðurnefndri konu fannst hins vegar mikill ljóður á bók að framan á henni væri mynd af karlmanni, jafnvel þó að bókin fjallaði mestanpart um hrakninga ungs drengs í borgarastríði. Hvað ætli henni fyndist um að stofnuð yrðu sérstök verðlaun til að vekja athygli á bókum eftir karla?

   
Göngin: Ný þýðing frá Rúnari Helga 9.11.08

Samstarf Bjarts og Græna hússins hefur verið með ágætum undanfarin misseri og nú fyrir jólin koma út hjá Bjarti tvær bækur sem Grænhýsingur hefur þýtt. Við höfum áður getið bókarinnar Hvað er þetta Hvað, en nú er einnig komin út unglingabókin Göngin eftir þá Roderick Gordon og Brian Williams.

Það er svolítið öskubuskuævintýri á bak við Göngin því árið 2005 gáfu höfundarnir bókina út sjálfir undir heitinu The Highfield Mole. Þökk sé ritdómi í The Book and Magazine Collector seldist bókin upp á hálfum degi. Þá keypti útgáfufyrirtækið Chicken House réttinn á bókinni og þegar hún var endurútgefin þótti Tunnels eða Göngin betri titill.

Bókin fjallar um Will Burrows sem er fjórtán ára strákur í Lundúnum. Hann á sér óvenjulegt áhugamál - honum þykir gaman að grafa göng ofan í jörðina. Þegar faðir hans hverfur skyndilega ofan í dularfull göng ákveður Will að rannsaka málið ásamt Chester vini sínum. Brátt eru þeir komnir langt niður í jörðina þar sem þeir fletta ofan af skelfilegu leyndarmáli - leyndarmáli sem kann að kosta þá lífið.

Sumsé æsispennandi fjölskyldusaga sem gerist á óvenjulegum slóðum.

   
Ferðaskrifstofan Feigðarflan 2.11.08

Til stendur að Feigðarflan fari í ferðalag yfir á þýsku. Græna húsið hefur ráðið Claudiu Overesch til þess að þýða kafla úr bókinni til að sýna þýskum útgefendum. Claudia tók þessu verkefni fagnandi, sagðist hafa lesið bókina í skógarferð sl. sumar og það hefði verið mikill skemmtilestur. Kvaðst hún gjarnan vilja taka þátt í að dreifa henni eitthvað um hnöttinn.

Þess má geta að Feigðarflan var kennt við háskólann í Kiel fyrr á árinu. Hvað þýðverksir telja sig geta lært af bókinni vitum við þó ekki.

   
Ný þýðing eftir íbúa Græna hússins 30.10.08

Nú í vikunni sendi bókaútgáfan Bjartur frá sér nýja þýðingu eftir Rúnar Helga Vignisson. Um er að ræða skáldsöguna Hvað er þetta Hvað, sjálfsævisögu Valentinos Achaks Deng eftir bandaríska rithöfundinn Dave Eggers sem gerði fyrst garðinn frægan með bókinni A Heartbreaking Work of Staggering Genius . Hvað er þetta Hvað er sannarlega óvenjulegur og skrýtinn titill en hann á rætur sínar að rekja til goðsagna Súdana.

Valentino Achak Deng er smástrákur þegar ráðist er á þorpið hans í Suður-Súdan og það lagt í rúst. Hann verður viðskila við fjölskyldu sína og þarf að ganga yfir eyðimörkina ásamt hundruðum annarra drengja, alla leið til Eþíópíu og síðar Kenía þar sem hann dvelur í flóttamannabúðum í heilan áratug. Á leiðinni glíma drengirnir við sult og sjúkdóma, auk þess sem þeir verða vitni að hroðalegum óhæfuverkum. Og sumir enda í ljónsgini.

Valentino er einn hinna Týndu drengja Suður-Súdans sem eru um síðir fluttir með loftbrú til Bandaríkjanna þar sem þeir hefja nýtt líf. Það er þó enginn dans á rósum og fyrr en varir mæta þeir erfiðleikum og ofbeldi sem er engu minna en á eyðimerkurgöngunni þegar verst lætur.

Valentino Achak Deng sagði bandaríska rithöfundinum Dave Eggers sögu sína og á henni er þessi áhrifamikla skáldsaga byggð. Hún lýsir heimi mannvonsku og átaka en mitt í allri eymdinni lifir þó ætíð von um betra líf og betri heim.

The New York Times Book Review segir bókina einstakan vitnisburð, einstakt listaverk, og víst er að hún veitir magnaða innsýn í heim sem er okkur Íslendingum framandi. Bók sem ætti að gista á metsölulista Eymundsson vikum ef ekki mánuðum saman.

   
Feigðarflan: Uppgjör við gróðahyggjuna 18.10.08

Þegar allt er um garð gengið kemur enn betur í ljós að skáldsagan Feigðarflan var fyrst og fremst uppgjör við gróðahyggjuna sem hér hefur riðið húsum undanfarin ár. Meginviðfangsefni bókarinnar er sigur og tap í heimi þar sem manngildið fer öðru fremur eftir gróðanum. Eða eins og Agnes Vogler lýsir því í stórgóðri ritgerð á Bókmenntavefnum:

Egill er búinn að fá nóg, bæði af sjálfum sér og samfélaginu. Síðustu árin hefur hann fengist við að vera rithöfundur en ekki hlotið þá viðurkenningu sem honum finnst hann eiga skilið. Hann er mjög bitur út í nútímasamfélagið og gróðahyggjuna sem ekki virðist kunna að meta skáldskap nema sem söluvarning. Egill ákveður því að frelsa konu, börn, heiminn allan og sjálfan sig undan eigin nærveru og keyrir burt úr borginni með sjálfsmorð í huga.

Þess má geta að Feigðarflan er tileinkað þeim sem ekki eiga jeppa.

   
Viðurkenning frá IBBY 10.10.08

Á þingi sínu í Kaupmannahöfn nú nýverið veittu IBBY-samtökin ( The International Board on Books for Young People) Græna húsinu og Rúnari Helga Vignissyni heiðursviðurkenningu fyrir útgáfu og þýðingu á bókinni Silfurvængur. Í bréfi frá samtökunum, sem eru alþjóðleg samtök um barnabækur, segir að viðurkenningin sé veitt fyrir framúrskarandi gæði.

Annað hvert ár dreifir IBBY heiðurlistaskrá sinni en í henni eru á annað hundrað nýlegar bækur frá löndunum sem eiga aðild að samtökunum.   Horft er til gæða sagnanna, myndskreytinga og þýðinga. Miðað er við að bækurnar sem hljóta viðurkenninguna séu fulltrúar þess besta í barnabókmenntum í hverju landi og að þær standist samanburð við það besta sem gert er annars staðar í heiminum.

Þar með hafa báðar bækurnar um leðurblökurnar Skugga og Marínu hlotið viðurkenningu, en Sólvængur hlaut sem kunnugt er barnabókaverðlun Menntaráðs Reykjavíkur í fyrra.

 

 

 

 

 
 
       
 
 
Ómissandi handbók fyrir alla sem sinna börnum með einhverfu

Græna húsið kynnir með stolti handbók um einhverfu sem gefin er út í samvinnu við Umsjónarfélag einhverfra. Þetta er ómissandi bók fyrir alla sem sinna börnum með einhverfu. Í henni er stuðst við nýjustu rannsóknir í fræðunum og eru allar upplýsingar settar fram á aðgengilegan hátt. Þá eru í bókinni kaflar sem lúta sérstaklega að íslenskum aðstæðum. Bókin um einhverfu er þýdd og staðfærð af Eiríki Þorlákssyni og Sigríði Lóu Jónsdóttur sálfræðingi hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

 

 

 

 
 

 

   
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóum 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is· Sími: 895 7538