Friðþæging – Ian McEwan þýð. Rúnar Helgi Vignisson
 

Á heitum sumardegi árið 1935 verður hin þrettán ára Briony vitni að tiltölulega saklausum atburðum á heimili sínu. Vegna áhuga síns á leikritun - Briony hefur nýlega skrifað leikritið Raunir Arabellu - túlkar hún atburðina með skáldlegum hætti og fyrir vikið fer afdrifarík atburðarás af stað. Nokkrum árum síðar skellur seinni heimsstyrjöldin á og þá kemur í ljós að Briony hefur ?skrifað" raunverulegan harmleik.

Ian McEwan hefur lengi verið í röð virtustu höfunda Bretlands. Þetta er fyrsta skáldsagan frá hans hendi síðan hann hlaut Booker-verðlaunin fyrir bókina Amsterdam. Hér er á ferðinni enn metnaðarfyllra og margslungnara verk þar sem hann skoðar mannleg örlög og þátt skáldskaparins í mótun þeirra.

Útgefandi: Bjartur.

 
  Ritdómar
 

„Stór skáldsaga sem er svo auðveld aflestrar þrátt fyrir flókinn stíl og margbrotið viðfangsefni hlýtur að vera vel þýdd."

Hrund Ólafsdóttir Morgunblaðinu

„Orðspor McEwan utan heimalands hans Bretlands, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem verk hans hafa ávallt verið lofuð í hástert, bendir til þess að hann hafi í upphafi ekki notið sömu virðingar heima fyrir í Bretlandi og hann gerði á alþjóðavettvangi. Sú afstaða hins almenna breska lesanda breyttist þó með útkomu síðustu bókar hans Atonement, eða Friðþæging, eins og hún heitir á íslensku í einstaklega vandaðri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar.“

Fríða Björk Ingvarsdóttir Morgunblaðinu

Rúnar var tilnefndur til Menningarverðlauna DV fyrir þýðingu sína á Frðþægingu. Í umsögn dómnefndar um þýðingu Rúnars Helga segir að Friðþæging sé "dramatísk fjölskyldusaga sem spannar langan tíma, frá árinu 1935 til okkar daga. Í upphafi sögunnar verður hin 13 ára Briony sjónarvottur að hversdagslegu atviki sem hún rangtúlkar í sínum skáldlega huga. Í kjölfarið fer af stað atburðarás sem hefur skelfilegar afleiðingar í för með sér; aðskilnað, ótta, kvöl og dauða. En þrátt fyrir sáran undirtón er ástin einn helsti drifkraftur sögunnar. Þessu miklu skáldverki hefur Rúnari Helga Vignissyni lánast að þýða þannig að stílbrögð höfundar, svo og stórbrotin persónusköpun og harmþungin innsýn í stríðshrjáða Evrópu í seinni heimsstyrjöld, hreyfa ærlega við lesandanum. Þýðandinn hefur örugg tök á galdri frásagnarinnar og miðlar honum til íslenskra lesenda af næmleik og mikilli íþrótt."

 

 
 
 
 
 
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538