Göngin – Roderick Gordon og Brian Williams þýð. Rúnar Helgi Vignisson
 

Will Burrows er fjórtán ára strákur sem býr hjá foreldrum sínum í Lundúnum. Hann á sér óvenjulegt áhugamál – honum þykir gaman að grafa göng ofan í jörðina.

Þegar faðir hans hverfur skyndilega ofan í dularfull göng ákveður Will að rannsaka málið ásamt Chester vini sínum. Brátt eru þeir komnir langt niður í jörðina þar sem þeir fletta ofan af skelfilegu leyndarmáli – leyndarmáli sem kann að kosta þá lífið.

Útgefandi: Bjartur.

 
  Ritdómar
 

„Það vantar heldur ekki ævintýrin í Göngum Rodericks Gordon og Brians Williams, né hrollvekjuna. Af þessum fjórum sögum sem hér eru til umfjöllunar stendur Göngin næst hrollvekjunni og er sérlega vel heppnað dæmi um vel út færða ævintýra-hrollvekju fyrir yngri lesendur. Göngin segir frá heilu neðanjarðarsamfélagi sem Burrows-feðgarnir uppgötva óvænt. Aðalsöguhetjan er þó sonurinn, Will, sem í félagi við vin sinn Chester eltir föður sinn niður löng göng sem leiðir þá inn í neðanjarðarsamfélag sem liggur undir allri Lundúnaborg.

Íbúar þess samfélags eru ekkert átakanlega hrifnir af heimsókninni og í ljós kemur að þetta samfélag hefur viðhaldið gömlum hefðum og siðum og er stjórnað af fólki sem nefnist Styx. Neðanjarðarbyggðinni er haldið gangandi af allsérstæðri tækni, auk þess sem leyndarmál þess er vel geymt af fáeinum ‘efri-byggðar-búum’.

Þeir sem ferðast með jarðlestum hafa sjálfsagt flestir einhverntíma velt fyrir sér möguleikanum á neðanjarðarheimum, og hér er sú hugmynd tekin alla leið. Einnig var mér hugsað til hinnar sokknu borgar Atlantis og sögu Verne um ferðina niður um Snæfellsjökul, en Göngin fangar fullkomlega þá hríslandi samþáttun ævintýra og ógnar sem finna má í þessum sögum.

Að vanda er hlutverk þýðenda mikilvægt en þar á Rúnar Helgi Vignisson sérstakt hrós skilið, en Göngin var gersamlega laus við . . . þýðingarbragð.“

Úlfhildur Dagsdóttir, Bókmenntavefnum

„„Ferðir söguhetjanna á milli „efra“ og „neðra“ undirstrika tilfinninguna fyrir því að hvorugur heimurinn er nokkur útópía eða fyrirmyndarsamfélag. Nýlendudrengur sem ferðast með Will frá neðri byggð upp á yfirborðið upplifir efri byggð á sama hátt og Will þá neðri, illa lyktandi og ógnvekjandi...

...Skyldleiki þýðinga við upprunalega textann getur stundum orðið svo mikill að það getur t.d. orðið þessum lesanda að sérstakri þráhyggju að ráða í frummálið. Því miður á það oftar við þegar um barna- og unglingabækur er að ræða. Það er því nokkur lúxus að lesa þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. Hér vottar ekki fyrir þýðingarbrag eða leifum af upprunalega tungumálinu. Jafnvel er ekki laust við að liprara mál sé á íslensku þýðingunni en enska frumtextanum sem er á köflum stirðbusalegur. Orðfærni Rúnars og vald á litbrigðum íslenskunnar ljá frásögninni kraft og hnykkja á spennunni.“

Helga Ferdinandsdóttir, Börn og menning 2 2009.

„Það er ólíklegt að heimurinn eigi eftir að kynnast öðru Harry Potter-æði; en Göngin gætu svo sannarlega verið upphafið að miklu ævintýri."

PA, The Guardian

 

 
 
 
 
 
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538