Hvað er þetta Hvað – Dave Eggers þýð. Rúnar Helgi Vignisson
 

Valentino Achak Deng er smástrákur þegar ráðist er á þorpið hans í Suður-Súdan og það lagt í rúst. Hann verður viðskila við fjölskyldu sína og þarf að ganga yfir eyðimörkina ásamt hundruðum annarra drengja, alla leið til Eþíópíu og síðar Kenía þar sem hann dvelur í flóttamannabúðum í heilan áratug. Á leiðinni glíma drengirnir við sult og sjúkdóma, auk þess sem þeir verða vitni að hroðalegum óhæfuverkum. Og sumir enda í ljónsgini.

Valentino er einn hinna Týndu drengja Suður-Súdans sem eru um síðir fluttir með loftbrú til Bandaríkjanna þar sem þeir hefja nýtt líf. Það er þó enginn dans á rósum og fyrr en varir mæta þeir erfiðleikum og ofbeldi sem er engu minna en á eyðimerkurgöngunni þegar verst lætur.

Valentino Achak Deng sagði bandaríska rithöfundinum Dave Eggers sögu sína og á henni er þessi áhrifamikla skáldsaga byggð. Hún lýsir heimi mannvonsku og átaka en mitt í allri eymdinni lifir þó ætíð von um betra líf og betri heim.

Útgefandi: Bjartur.

 
  Ritdómar
 

Það eru ekki margir sem verða málsmetandi höfundar á alþjóðavettvangi með einni bók. Dave Eggers tókst það sem svo fáum tekst; að vekja athygli heimsins með frumsköpun sinni, A Heartbreaking Work of Staggering Genius. Stórvirkið What is the What?; eða Hvað er þetta Hvað? sem var að koma út í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar, varð síðan til að staðfesta það sem margir höfðu gert sér í hugarlund, að með Eggers væri kominn fram þungavigtarhöfundur í heimsklassa. Þátt Rúnars Helga við íslensku útgáfuna skyldi ekki vanmeta; þýðingin er afar vandað og fallegt íslenskt sköpunarverk . . .

Bókin er mikill óður til menningar Afríku og stendur fyllilega fyrir sínu sem slík. En hún býr einnig yfir miklum boðskap. Valentino sættir sig ekki við að tilheyra þöglum og lítt sýnilegum (en gríðarstórum) hluta jarðarbúa sem búa við slæman kost og sæta jafnvel hrikalegum örlögum. Hann vill vera manneskja en ekki tölfræðilegur liður um þjáningar í „framandi" löndum. Fyrir hönd bræðra sinna og annarra undirokaðra stígur hann fram úr skugganum inn í sviðsljósið og kveður sér hljóðs: Ég ætla að tala við þá sem vilja hlusta og þá sem vilja ekki hlusta, þá sem leita til mín og þá sem hlaupa burt. Allan tímann mun ég vita að þú ert þarna. Hvernig get ég látið sem þú sért ekki til? Það yrði álíka langsótt og að þú létir sem ég væri ekki til."

Spurningunni sem bókin varpar fram í titlinum, Hvað er þetta hvað?" er ef til vill svarað með þessum gjörningi Valentino. Leitin að hvað-inu" sem ekki er hægt að festa hönd á, öfugt við búfénaðinn í þorpinu hans, leiðir okkur hugsanlega að sameiginlegum gildum. Að brúanlega bilinu, eða sannleikanum sem fólginn er í tilveru okkar hvoru við annars hlið á jafnréttisgrundvelli, hvar svo sem við erum stödd á jörðinni.

Niðurstaðan er sú að við getum ekki látið eins og þeir sem eru til, séu ekki til.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, Lesbók Morgunblaðsins 20.12. 2008.

 
 
 
 
 
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538