Nautnastuldur Rúnar Helgi Vignisson
 

Egill Grímsson er ungur maður sem er haldinn svokölluðum nautnastuldi, sálarkvilla sem orsakast af glímu við mótsagnakennd skilaboð. Einkennin lýsa sér í vanhæfni til að njóta lífsins gæða og sjúklegri feimni.

Vandi Egils stafar m.a. af því að gömul og ný viðhorf togast stöðugt á í honum með þeim afleiðingum að honum fallast iðulega hendur frammi fyrir kröfum samfélagsins. Draugar fortíðar ásækja hann í líki silfurskottnanna Móra og Skottu og nútíminn mætir honum í faðmi föngulegra kvenna á framabraut.

Nautnastuldur vakti mikla athygli þegar hann kom fyrst út og reyndist mörgum sannkallaður nautnafundur. Bókin var jafnframt tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

 
  „Tímanna tákn“ – pistlar Matthíasar Viðars Sæmundssonar um Nautnastuld
   
 

Haustið 1990 flutti Matthías Viðar Sæmundsson bókmenntafræðingur nokkra magnaða pistla um samtímabókmenntir á Rás 1. Þessir pistlar vöktu mikla athygli á sínum tíma enda var Matthías Viðar einn af andríkustu og gleggstu bókmenntafræðingum sem Ísland hefur alið. Bók Rúnars Helga Vignissonar, Nautnastuldur, kom út þetta haust og svo mjög snerti hún við Matthíasi Viðari að hann flutti tvo heila pistla um hana, þann fyrri 14. nóvember og þann síðari viku seinna. Græna húsið hefur látið skrifa þessa pistla upp og koma þeir hér á eftir í tilefni af endurútgáfu Nautnastuldar í kilju.

Ég ætla að rýna í fáein ný bókmenntaverk næstu vikurnar. Þetta verður ekki hefðbundin gagnrýni heldur safn hugleiðinga er snúast mun um nokkur lykilorð sem lýsa bókmenntaglímu samtímans. Meðal þeirra eru veikleikinn, fantasían, fortíðin og valdið.

Skáldsaga Rúnars Helga Vignissonar, Nautnastuldur, hefur fengið misjafnar viðtökur hjá gagnrýnendum að undanförnu. Þannig birtist á dögunum mjög neikvæður ritdómur í Dagblaðinu þar sem sagt er að hún sé ekki bókmenntaverk heldur boðskaparrit. Ennfremur segir: Það er auðvitað gamalkunnugt að nota skáldsögur til að útbreiða sannindi" eða boðskap. En spurningin er hvort skáldsögur séu heppilegasta formið til þess. Það vita aðrir betur en ég, t.d. útgefendur, en ég held að alþýðlegt fræðirit sem segði í þessu tilfelli ýmsar skyldar sjúkdóma- og lækningasöur kæmi þessum fróðleik miklu betur til skila og seldist betur en svona skáldsaga með boðskap". Það er einhver óþarfi í þessum málflutningi. Má ekki fylla skáldsöguna með alls konar formum ef svo ber undir? Er nokkuð við það að athuga þótt hún dragi sjúdkóma- og lækningasögur" inn í orðræðu sína ef þörf krefur? Er boðskaparrit ekki bókmenntaverk? Getum við greint á ótvíræðan hátt á milli sögu, ljóðs, skýrslu og ritgerðar? Og að lokum: Er réttmætt að draga jafnaðarlínu á milli orða sögumanns og boðskapar höfundar?"

Matthías Viðar segist síðan skynja skáldsögu Rúnars Helga með allt öðrum hætti en gagnrýnandi Dagblaðsins. Þar sé fengist af einlægni og alvöru við vanda sem ef til vill er lykill að samtímareynslu okkar, vanda sem ekki verður lýst til hlítar nema í skáldskap. Sagan er að auki þétt í sér og merkingarrík, full af tilvísunum, beinum og óbeinum. Þannig skynjar sögumaðurinn Egill Grímsson sjálfan sig í þekktum persónum eins og Raskolnikof Dostójevskís, Werther Goethes og K. Kafkas að ógleymdum Agli Skallagrímssyni; stríðið er hið sama þótt nöfnin séu ólík. Þessar skírskotanir eru misvel unnar af hálfu höfundar; stundum er eins og þær hangi utan á söguþræðinum í stað þess að sameinast honum. Söguhetja Rúnars Helga er hugsuð sem nútímaleg útgáfa af söguhetju Egilssögu enda koma líkindin fram bæði í byggingu og efnivið. Höfundinum hefur sjálfum þótt ástæða til að undirstrika þessa hliðstæðu í blaðaviðtölum: Þetta er hinn dæmigerði Íslendingur sem á í erfiðleikum með sjálfstraust sitt og sjálfsímynd framan af en leysir um síðir höfuð sitt handan hafs - án þess þó að um endanlega lausn sé að ræða. Það er fróðlegt að bera þessa söguhetju saman við söguhetju fyrstu íslensku skáldsögunnar, Ólaf í Ólafs sögu Þórhallasonar, sem skrifuð var á seinustu árum 18. aldar, þótt ekki kæmi hún út fyrr en 1987. Þegar þeim er líkt saman verður ljóst að eitthvað mikið hefur gerst innra með manninum á réttum tveimur öldum.. Þessar söguhetjur eiga að vísu margt sameiginlegt. Í báðum tilvikum er dregin upp mynd af ungum mönnum í leit að sjálfsmynd og valdi yfir eigin lífi. Um leið eru þær gjörólíkar. Söguhetja Rúnars Helga upplifir sjálfa sig sem skiptingu og valdaleysi; hún getur hvorki framkvæmt né samlagast öðru fólki. Höfuðeinkenni hennar er óvirkni, hefting, þrengsli - ástand sem flestir kannast við frá einhverju skeiði ævi sinnar. Hver er sá sem ekki hefur einhvern tíma búið í kjallara? Söguhetja Ólafs sögu hefur allt annað yfirbragð. Höfuðeinkenni hennar er óhaminn kraftur sem flæðir. Hún ferðast líkt og Don Kíkóte um veröld sem er víð og takmarkalaus, veröld sem er losti og leikur, ævintýri. Í heimi hennar eru mök við álfkonur og ferðir um hulduheima jafn raunveruleg og hvað annað - það er nánast allt mögulegt einum manni. Aðgerðir þessarar söguhetju mótast af kynferðislegri þrá sem brýst hvað eftir annað undan boðum og bönnum; sjálf hennar er óhamið, margbreytilegt og án stöðugleika, fullt af orku, kynferðislegu afli sem fær útrás í athöfnum. Með öðrum orðum: reynsla hennar er stanslaus nautnafundur. Hið sama má segja um Stein Elliða, rúmri öld síðar, söguhetju Vefarans mikla frá Kasmír. Bæði Ólafur og Steinn eru ölvaðir af möguleikum heimsins; veröldin er leikvöllur kynlífs, þekkingar og valds þar sem athafnir hafa merkingu. Leið Steins er að vísu öllu andlegri; reynslu hans lýkur með líkamlegri höfnun, afnámi, innilokun. Niðurstaða hans felur eigi að síður í sér ákvörðun og framkvæmd, nautnaslag, stríð nautna, meðvitað og ástríðukennt val.

Söguhetja Rúnars Helga er bókmenntalegt skyldmenni Ólafs og Steins Elliða - samt er eins og hún geti varla fjarskyldari verið. Einhvern veginn er hún þó tímanna tákn, svona náungar kúldrast í öðrum hverjum kjallara í Norðurmýrinni. Og maður spyr sjálfan sig: Hvenær og hvers vegna gerðist það? Hvenær hættum við að geta valið og hafnað? Hvenær stálum við nautninni? Hvenær urðum við svona fjári máttlaus?"

Seinni pistill Matthíasar Viðars var fluttur viku síðar og hann hefst svona:

Ég var að tala um söguhetju Rúnars Helga Vignissonar í nýútkominni skáldsögu, Nautnastuldi; mér finnst hún einhvern veginn tímanna tákn. Og ég spurði sjálfan mig og ykkur: Hvenær og hvers vegna gerðist það? Hvenær urðum við svona fjári máttlaus? Það sem einkennir söguhetju Rúnars Helga er öðru fremur veikleiki sem virðist í engu samræmi við andlega hæfileika hennar; hún getur hvorki notið né framkvæmt, hún minnir einna helst á hamfletta appelsínu. Það er nauðsynlegt að vitna í textann til að skýra þetta:

Hann hörfaði undan þessu andliti, skildi það eftir í skellóttum speglinum, fannst það torkennilegt, framandi. Hver var þessi náungi? Hvaðan bar hann að? Hvers vegna var hann svona veimiltítulegur? Hvað var hann eiginlega að vilja þarna, þessi vesalings, vesalings _

En þá féll hann saman við sjálfan sig aftur, stóð þarna frammi á klósetti og var þessi veimiltíta sem hann hafði séð í speglinum. Verst hann gat ekki skilið hana þar eftir, afsalað sér henni, afmáð hana, þessa bjálfalegu skopstælingu. Hann hnybbaði spegilinn svo hann sprakk eftir endilöngu. En það breytti engu, hefði þess vegna mátt molast mélinu smærra. Mélinu smærra.

Aftur fann hann þreytuna, þessa lamandi örmögnun sem lak út í hvern einasta taugaþráð. Orkaði varla að gera þarfir sínar, of uppgefinn til að skíta, hvað þá til að bursta tennurnar. Svo lamandi þreyttur að hvert einasta heilaboð var þjáning, hver hugsun þrekraun.

Hann hnerraði þrisvar. Var loftið að yfirgefa hann? Seig það úr honum með hvissi?

Þessi söguhetja er eins og hneppt í fjötra; henni er öldungis um megin að láta tilfinningar sínar í ljósi og sameinast öðrum né heldur getur hún kafað í eigin sálardjúp. Hún er bandingi eigin vesaldóms og kraftleysis - samrunnin veikleika sem tjáir sig í hrollkenndum svita. Svitinn er merkilegt fyrirbæri eins og mönnum er kunnugt. Ýmist ber hann vitni um holla útrás, heita þreytu og atorku; við sameinumst líkama okkar, skynjum lífsþrótt hans og vaxtamagn, okkur líður vel - ellegar hann er kaldur, óþægilegur og stamur; við upplifum fullkomið þróttleysi og vanlíðan; lyktarmikið hold verður að daunillum kjötmassa sem kemur okkur einhvern veginn ekki við. Slíkt svitakóf er með öllu andstætt svitalöðri góðra stunda. Svitinn hefur fylgt mannsandanum frá aldaöðli; það er ég viss um að Lúsifer hefur svitnað þegar hann reis gegn Drottni á sínum tíma og Eva er hún beit í eplið, a.m.k. Adam. Allar götur síðan hefur hið svitastokkna mannkyn stefnt vessum sínum gegn köldum kerfum sem borið hafa ýmis nöfn: Kirkja, Ríki, Siðferði - kerfum sem reynt hafa að leggja svitann í læðing, þétta allar svitaholur. Menn hafa haldið áfram að svitna af nautn - í áraun og sköpun, leik og baráttu; þeir hafa hlaupið gegn þyngdaraflinu á öllum sviðum.

Mér dvelst við skáldsögu Rúnars Helga af því að hún vísar í samtímareynslu okkar með ýmsum hætti. Ætli aumingjaskapur söguhetjunnar lýsi ekki sjálfsmyndarkreppu okkar tíma einkar vel. Hún er frumorsök þess kaldsveitta veikleika sem lamað getur manninn ef hann gleymir sér á varðbergi. Og þannig er það: Flestir hræðast djúpið og reyna að samlagast yfirborði hlutanna - leitað er lífsfyllingar í félagslegum gildum eða hlutverkum; afleiðingin er óhugnanlegur tómleiki sem einungis getur leitt til sjúklegs máttleysis eða þá taugatryllings þar sem fólk skemmtir sér til óbóta eins og sagt er. Og minnir hvort tveggja á svefngöngu. Það er rétt sem segir í sögunni: Samfélagið tekur flest okkar á taugum; poppið flæðir yfir okkur eins og hland. Fólki er sagt hvernig það eigi að klæðast og elskast, hvað sé eftir sóknarvert, hvernig það eigi að lifa. Í þessu auglýsingaþjóðfélagi er gínan í glugganum hin fullkomna fyrirmynd. Sáuð þið unga manninn sem kom fram í sjónvarpinu um daginn og talaði alveg eins og Arthúr Björgvin? Þetta var ein voðalegasta stund sem ég hef upplifað fyrir framan sjónvarp eftir að ég hætti að horfa á íslenskar kvikmyndir. Það er ósköp skiljanlegt að menn séu yfirborðskenndir í framkomu; hitt er verra þegar þeir sækja yfirborð sitt til annarra - þá flækjast málin svo um munar. Og við upplifum eitthvað sem er yfirborðskennt yfirborð annars yfirborðs. Söguhetja Rúnars Helga er einhvers staðar á milli yfirborða framan af sögu; þá fer hún í sálgreiningu, giftist sálgreinandanum og sest að í bandarískum bæ sem nefndur er Normal. Samkvæmt gagnrýnanda Dagblaðsins er boðskapur sögunnar í því fólginn - sjúkur einstaklingur verður heilbrigður - en svo er auðvitað ekki; þetta er gervilausn, hlé milli stríða. En ég spyr enn og aftur: Hvenær og hvers vegna gerðist það? Hvenær hættum við að geta skitið af nautn? Var það á dögum Þórbergs?"

Verst að Matthías Viðar var látinn þegar Feigðaflan kom út, annars hefði hann séð að hann hafði rétt fyrir sér í niðurlagi þessa pistils.

   
  Hnífskörp sundurgreining – skrif Dagnýjar Kristjánsdóttur um Nautnastuld
 

Skáldsagan Nautnastuldur (1990) eftir Rúnar Helga Vignisson er sögð af ungum manni sem á erfitt með að taka stöðu hugveru og verða gerandi í eigin lífi. Tvo fyrstu hluta skáldsögunnar gerir hann fátt annað en að liggja og hugsa í kjallaraíbúð í Reykjavík. Þetta aðgerðaleysi er rofið af nokkrum tilraunum til að fara út og umgangast jafnaldra og fjölskylduna en það gengur ekki sérlega vel.

Aðalpersónan er mjög upptekin af líkama sínum, svengd, klóssettferðum, vanlíðan og vellíðan og þörf fyrir kynlíf sem hann fullnægir sjálfur. Og svo veltir hann fyrir sér skorti sínum á vilja til að gera eitthvað, ömurlegum skorti sínum á löngun eftir einhverju, áleitnum ótta sínum við pöddur í kjallaranum og ótta sínum yfirleitt:

Hann hörfaði undan þessu andliti, skildi það eftir í skellóttum speglinum, fannst það torkennilegt, framandi. Hver var þessi náungi? Hvaðan bar hann að? Hvers vegna var hann svona veimiltítulegur? Hvað var hann eiginlega að vilja þarna, þessi vesalings, vesalings - En þá féll hann saman við sjálfan sig aftur, stóð þarna frammi á klósetti og var þessi veimiltíta sem hann hafði séð í speglinum. Verst hann gat ekki skilið hana þar eftir, afsalað sér henni, afmáð hana, þessa bjálfalelgu skopstælingu. Hann hnybbaði spegilinn svo hann sprakk eftir endilöngu. En það breytti engu, hefði þess vegna mátt molast mélinu smærra. Mélinu smærra.

Aftur fann hann þreytuna, þessa lamandi örmögnun sem lak út í hvern einasta taugaþráð. Orkaði varla að gera þarfir sínar, of uppgefinn til að skíta, hvað þá til að bursta tennurnar. Svo lamandi þreyttur að hvert einasta heilaboð var þjáning, hver hugsun þrekraun. (7-8)

Hvað í ósköpunum getur haldið athygli lesandans við svo óspennandi ungan mann? Það sem heldur lesanda föstum er hnífskörp sundurgreining höfundarins á hinni narkissísku kreppu aðalpersónunnar. Aðalpersónan hefur engar hugsjónir, enga trú, fortíð hans hefur verið erfið og hann á enga framtíð - það eina sem hann hefur er augnablikið og líkaminn og ástarþráin. Þegar líkaminn verður eina viðmiðið sem til er, það eina sem afmarkar og ákvarðar hugveruna þá verður textinn haldinn af líkamanum. Textinn er kynósa og þrunginn af sjúkdómsótta, ótta við hrörnun og dauða og óendanlegu sjálfshatri sem er bæði orsök og afleiðing þess að vera læstur inni í þessu fangelsi líkamans. Út úr því sleppur aðalpersónan þegar hann kynnist stúlku og byrjar að búa með henni í síðasta hluta skáldsögunnar. Um stund gengur allt vel á meðan allt hverfist um líkamann og kynferðislega virkni og nautn hans en smám saman byrjar kærastan að gera alls konar kröfur til hans um að taka þátt í lífi þeirra og einu sinni segir hún:

Ó, píslarvotturinn minn! Ég get ekki endalaust verið að hafa áhyggjur að hvort þú sért með skitu eða ekki. Ég er líka til, manstu. (147)

Stundum freistast lesandinn til að hugsa eitthvað svipað. En það sem heldur manni föngnum yfir þessari sundurgreiningu á hinni póstmódernísku hugveru er stíllinn, málið, myndmálið í textanum sem er ástríðufullt og fjarlægt í senn, íronískt og fyndið.

Dagný Kristjánsdóttir í bókinni Undirstraumar (bls. 217-18)

   
 

Bókin sem mátti ekki koma út í kilju – þankar höfundar í tilefni af endurútgáfu Nautnastuldar

 

Þegar Garðbæingar höfðu gert mig að bæjarlistamanni ákváðu Grænhýsingar að gefa út báðar bækurnar um Egil Grímsson í kilju af þessu tilefni, þ.e. Nautnastuld og Feigðarflan.

Í fyrsta skipti í sextán ár las ég Nautnastuld yfir í heild sinni. Þó að ég gerði nokkrar breytingar á leiðinni undraðist ég satt að segja hvað hinn ungi Rúnar hafði þrátt fyrir allt náð að skrifa margslungna bók.   Mér fannst hún líka hafa staðist tímans tönn ótrúlega vel, hún hefði eins getað verið skrifuð í gær, svei mér þá. Eins og Matthías Viðar sagði, hún er einhvern veginn tímanna tákn og tímarnir hafa ekki breyst í grundvallaratriðum undanfarinn einn og hálfan áratug, ekki heldur ýmis grundvallaratriði í mannskepnunni sem eru ofarlega á baugi í þessari bók.

Sköpunarsagan

Ég hóf að semja Nautnastuld í Kaupmannahöfn haustið 1985, meðfram því sem ég las undir MA-próf í bókmenntafræði við Iowa-háskóla. Mig minnir að ég hafi samið fyrsta hlutann þar og kannski byrjað eitthvað á öðrum hluta. Jafnframt æfði ég mig að þýða og svo skrifaði ég slatta af greinum í Morgunblaðið og Vestfirska fréttablaðið.

Haustið 1986 fluttum við hjónin yfir til Iowa City þar sem ég hélt áfram afar krefjandi námi í bókmenntum. Næstu tvo vetur komst ég lítið í handritið og þegar kom fram á veturinn 1988-'89 fór að gæta verulegrar óþreyju hjá mér gagnvart náminu, ég átti orðið æ erfiðara með að vera undir aðra settur enda hafði mér aldrei liðið sérlega vel sem námsmanni. Rithöfundurinn kallaði og þar kom að hann náði yfirhöndinni og námið lét í minni pokann. Haustið 1989 fluttum við hjónin svo til Chicago og þar sat ég yfir handritinu um veturinn og las auk þess bandarískar samtímabókmenntir af miklu kappi. Bókin kom svo út haustið 1990.

Matthías Viðar setur ofan í við Örn Ólafsson

Útkoma Nautnastuldar reyndist mér og mínum, já og trúlega mörgum Ísfirðingum, mikið ævintýri. Fyrsti dómurinn lofaði reyndar ekki góðu. Hann var eftir Örn Ólafsson sem taldi bókina sálfræðihandbók. Ég verð að viðurkenna að mín fyrstu viðbrögð við þeim orðum voru: Djöfulsins fífl er maðurinn! Þegar upp var staðið reyndist þessi umsögn Arnar hins vegar mikill happafengur. Fram á sjónarsviðið stormaði nefnilega hinn kynngimagnaði bókmenntafræðingur Matthías Viðar Sæmundsson og flutti tvo mergjaða pistla um Nautnastuld. Matthías byrjaði á því að vísa áðurnefndum ummælum Arnar Ólafssonar til föðurhúsanna. Hann taldi söguna túlka tíðarandann einstaklega vel og eftirminnileg er spurning hans úr öðrum pistlinum: Hvenær hættum við að geta skitið af nautn? og vísar þar til nautnastols Egils Grímssonar sem var um tíma svo máttvana að hann hafði vart orku til að hægja sér.

Tilnefning

Fjölmiðlar sýndu mér og bókinni talsverðan áhuga. Allt haustið voru ýmist að birtast ritdómar eða viðtöl. Svo er það dag einn í desember að ég er að koma af Ísafjarðarflugvelli eftir að hafa verið í upplestrarferð syðra þegar síminn hringir. Það er Jóhann Páll Valdimarsson stórútgefandi. Hann tilkynnir mér að bókin hafi verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og vill fá mig suður til að vera við tilnefningarathöfnina seinnipart þessa sama dags. Þetta kom mér gjörsamlega á óvart, ég hafði alls ekki leitt hugann að þessu og vissi ekki einu sinni að hann hefði sent bókina inn. En með þessari tilnefningu var Nautnastuldi borgið, fyrsta prentun seldist upp og önnur var prentuð og er nokkuð síðan hún gekk til þurrðar. Ritlaunin urðu umtalsverð og nýttust mér vel suður í Ástralíu en þangað hélt ég eftir áramótin. Velgengnin skilaði sér svo í næstu bók sem ég skrifaði með miklum látum á skömmum tíma í Perth og kom út undir heitinu Strandhögg árið 1993. Fáir þekkja þá bók en sumir hafa sagt hana mína bestu og sjálfum finnst mér hún krauma af sköpunarkrafti.

Egill og kynhvötin

Margir karlmenn hafa komið að máli við mig í gegnum tíðina og sagst hafa samsamað sig Agli Grímssyni. Það virðist vera eitthvað sammannlegt í honum, magnleysinu og óframfærninni og kannski ekki síst lönguninni til kvenna. Mæður hafa sagt mér að þær hafi gefið ungum sonum sínum bókina vegna þess að hún sýni svo vel glímu karla við kynhvötina. Svo merkilega vill til að þrátt fyrir alla okkar skólun eru karlar lítt búnir undir þær hrikalegu náttúruhamfarir sem bíða þeirra þegar kynhormónin spýtast út í blóðið (sama held ég að eigi reyndar við um konur, þær vita ekki hvaðan á þær stendur veðrið þegar þær mæta taumlausri girnd karlmannsins). Það er í raun merkilegt að karlmenn skuli ekki ærast á viðskiptum sínum við kynhvötina sem er yfirleitt svo margfalt brýnni en hjá konum, einkum framan af ævinni. Þarna fer fram hrikalegur nautnastuldur sem vart er hægt að ætlast til að konur beri skynbragð á.

Þetta þekkingarleysi kvenna birtist m.a. í því að konur sem fjallað hafa um Nautnastuld hafa sumar haldið því fram að Egill Grímsson sé kynlífsfíkill. Ég segi nú bara fyrir mig prítvat og persónulega: Ég vildi að svo væri. En viðbrögð karlmanna við bókinni benda því miður ekki til þess að hann sé afbrigðilegur að þessu leyti. Hitt er svo annað að flestir karlar reyna að bæla kynhvöt sína til að ofbjóða ekki konum því þeir vita að ef þeir koma ærlega fram verða þeir stimplaðir kynlífsfíklar af mörgum þeirra. Rétt eins og Egill Grímsson.

En Nautnastuldur er ekki bara um samskipti karls og konu. Ein aðalpersónan er homminn Jens Christiansen sem reynist Agli nokkurs konar frelsari þegar upp er staðið, eins og gagnrýnendur hafa bent á. Hann varð til við samræður okkar Guðrúnar við eldhúsborðið í Kaupmannahöfn. Það var mjög gefandi og lærdómsríkt að skapa þessa persónu en við það naut ég m.a. aðstoðar manns sem orðinn er einn ötulasti og flinkasti talsmaður samkynhneigðra á Íslandi, Þorvaldar Kristinssonar. Í Jens var ég kominn með persónu sem var sumpart andstæða Egils, sumpart hliðstæða.

Endurskoðun

Ég segist hafa endurskoðað Nautnastuld. Jú, víst gerði ég það og gat ekki annað. En ég gerði engar róttækar breytingar á byggingu bókarinnar. Ég fansaði stílinn svolítið, einkum á frásagnarköflunum, og stytti þar sem mér þótti þörf á. Ég held að textinn flæði aðeins betur á eftir. Eitt reyndi ég þó að hafa hugfast: að fága ekki um of svo að æskufjörið í stílnum nyti sín eftir sem áður.

Eina breytingu gerði ég á frágangi neðanmálsgreina, sem eru eitt af sérkennum þessarar bókar, enda er þar fleiri en ein frásagnarrödd. Aftarlega í bókinni er löng neðanmálsgrein sem hafði verið sett á heila síðu í frumútgáfunni. Ég lét hana flæða neðanmáls á nokkrum blaðsíðum sem óneitanlega getur breytt svolítið upplifun lesandans.

Loksins í kilju

Það hefur verið reynt áður að koma Nautnastuldi í kilju. Það gerðu þeir Forlagsmenn eftir að Mál og menning keypti Forlagið. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, þar sem menn hækkuðu víst stundum róminn, strönduðu þær alltaf á einhverjum ónafngreindum lykilmönnum hjá Máli og menningu og eina skýringin sem ég hef heyrt er að bók þar sem fjallað sé um sjálfsfróun á annarri hverri síðu ætti ekkert erindi í kilju. Fullyrðingin er auðvitað hlægileg, en sýnir hvað fólk kýs stundum að kalla hlutina skrýtnum nöfnum. Kannski sýnir þetta líka margt fleira, t.d. valdabaráttuna í bókmenntaheiminum.

Þú svindlar"

„Þú svindlar," sagði einn vinur minn í bókmenntafræðingastétt þegar hann heyrði að ég hefði breytt bókinni aðeins. Sumum finnst ekki rétt að höfundar krukki í eldri verk sín. En til eru höfundar sem eru alla ævi að endurbæta verk sín og gefa þau út í nýjum og nýjum gerðum. Raymond Carver tók t.d. upp söguna „The Bath" og gerði úr henni fimm sinnum lengri sögu sem heitir „A Small, Good Thing". Skiptar skoðanir eru um hvor sagan sé betri en ég er á því að sú seinni sé miklu betri. Gamla gerðin heldur hins vegar áfram að vera til handa þeim sem hana kjósa. Í tilfelli Carvers verður til alveg ný saga, hann bætir heilmiklu við og breytir auk þess andrúmsloftinu. Ég verð seint sakaður um að ganga svo langt. Hitt er annað að það er mjög góð tilfinning að fá tækifæri til þess að yfirfara eldri verk, þó ekki sé til annars en að laga augljósar handvammir sem leynast jú í verkum bestu manna og tíminn einn leiðir í ljós. En úr þessu verður Egill Grímsson að spjara sig sjálfur innan um alla reyfarana, karlkvölin.

rhv

   
  Kallið mig Egil  
 

Yfirleitt göngum við út frá því að höfundar skapi söguhetjur. Í mínu tilfelli hefur söguhetjan Egill Grímsson, sem leikur lausum hala í skáldsögunum Nautnastuldi og Feigðarflani, þó ekki síður skapað mig. Svo rammt kveður að þessu í seinni tíð að við munum fara saman á sögunnar vit, hvor sem höfundur hins, þökk sé m.a. nýju íslensku bókmenntasögunni.

Það eru auðvitað gömul sannindi að höfundurinn missi allt vald yfir verkum sínum um leið og þau ganga á þrykk. Þá æðir textinn út um víðan völl, hamast eins og naut í flagi og tekur allt eins stefnuna á höfundinn sjálfan. Hann á það jafnvel til að stanga höfundinn svo hann liggur óvígur eftir.

Ég ligg að vísu ekki óvígur eftir en vissulega hef ég oft orðið hugsi yfir því hvaða stefnu textanautið hefur tekið. Iðulega hef ég nefnilega orðið var við að fólk ruglar mér saman við sögupersónur mínar, einkum Egil Grímsson. Menntaskólanemi hringdi til dæmis í mig fyrr á árinu og spurði hreint út hvort ég væri Egill. Margir hafa í gegnum tíðina talið að ég hefði háskólagráðu í ritlist eins og Egill, gott ef mér hafa ekki boðist störf út á það. Gagnrýnendur hafa líka tekið sér það bessaleyfi að kalla Egil Grímsson hliðarsjálf mitt eða alter ego og fyrir síðustu jól, þegar Feigðarflan kom út, héldu tveir þeirra því fram að í sögunni væri Egill skrifaður fyrir öllum bókunum mínum (hið rétta er að hann er einungis skrifaður fyrir Nautnastuldi ). Blaðamenn hringdu og spurðu hvers vegna þunglyndi og sjálfsvígshugleiðingar væru mér yrkisefni núna, rétt eins og þeir væru að vonast eftir játningu. Einn gagnrýnandi sagði að Egill væri leiðinlegur, þá sérstaklega forhúðarraunir hans, og lýsti því svo yfir að Egill væri ég. Þá var hlegið dátt í Græna húsinu.

Í nýju bókmenntasögunni erum við Egill svo nokkuð endanlega spyrtir saman, enda ekki líklegt að annað eins rit komi út í bráð. Þar er fullyrt að Nautnastuldur hafi verið lokaverkefni mitt við háskóla í Bandaríkjunum. Ég lauk að vísu við bókina í Bandaríkjunum en hún tengdist ekkert háskólanámi mínu, a.m.k. ekki beint. Aftur á móti segist Egill hafa skrifað bók með þessu heiti sem hafi auk þess verið lokaverkefni hans í ritlistarnámi við bandarískan háskóla (auðvitað þann sama og ég stundaði nám við) og hafi bókin jafnframt komið út á ensku undir heitinu Indulgence Denied . Menn hafa rukkað mig um þá útgáfu - en án árangurs enn sem komið er.

Allt er þetta krydd í tilveru rithöfundar sem mörgum hefur þótt allt öðruvísi í viðkynningu en þeir áttu von á. Ofangreind dæmi sýna að fólk les ekki endilega skáldskap sem skáldskap. Þau sýna líka að lítið fer fyrir endanlegum sannleika þegar skáldverk eru túlkuð. Það les hver með sínum augum og menn fylla í eyður eftir einhverju dularfullu kerfi sem mótast af lífsreynslu þeirra. Og svo bögglast eitt og annað fyrir brjóstinu á fólki eða það dregur allt aðrar ályktanir af því sem það les en höfundurinn ætlaðist til. Þannig verður hver saga margsaga.

Að vissu leyti er lesendum vorkunn því skilgreining á skáldskap er jú afstæð. Útlendingur sem les bækurnar um Egil Grímsson er í allt annarri stöðu gagnvart skáldskapnum en t.d. Ísfirðingur sem les þær. Útlendingurinn getur ekki tengt persónur og umhverfi, hvað þá vísanir í Egils sögu, við raunveruleikann á sama hátt og Ísfirðingurinn, sem fer létt með að benda á nokkrar raunverulegar aukapersónur, fyrir utan ýmis kennileiti. Þar sem ég nýti stundum eitt og annað úr eigin lífi og sagnaheimi Vestfjarða kann að vera nærtækt fyrir Ísfirðinginn að líta svo á að Egill sé ég.

Ekki bætir úr skák að í bókinni sjálfri gef ég í skyn að ekki sé allt sem sýnist með okkur Egil. Ég læt Egil skrifa eftirmála þar sem hann segist ekki heita Egill í raun og veru og gæti allt eins heitið Vigdís Finnbogadóttir eða Helgi Rúnarsson. Í þokkabót kvittar hann undir þakkalista í lok bókarinnar með fangamarkinu EG sem er forn ritháttur fyrstu persónu fornafnsins. Þarna var ég beinlínis að leika mér að þeirri tilhneigingu lesandans að líta á skáldskap sem meira og minna sjálfsævisögulegan og benda á hið margslungna samband lífs og listar sem er jú ein af ástæðunum fyrir dálæti okkar á skáldskap. Texti hlýtur alltaf að daðra við raunveruleikann því orðin eru sprottin úr honum. En með því að taka allt bókstaflega neitum við okkur um sjálfan galdur skáldskaparins eins og Árni Bergmann bendir á í bókinni Listin að lesa.

Hitt er svo annað að viðtökur Nautnastuldar benda til þess að við séum kannski öll að einhverju leyti Egill Grímsson. Þannig sagði Matthías Viðar Sæmundsson í útvarpspistli um Nautnastuld að bókin væri einhvern veginn tímanna tákn og að flestir könnuðust við höfuðeinkenni Egils frá einhverju skeiði ævi sinnar. En hann sagði líka að í bókinni væri fengist við vanda sem ekki yrði „lýst til hlítar nema í skáldskap."

Grein Rúnars Helga Vignissonar birtist í Lesbók Morgunblaðsins 28.okt. 2006

   
 
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538