Þetta snýst ekki um hjólið Lance Armstrong
 
Hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong var farinn að vekja mikla athygli í íþróttaheiminum þegar hann greindist með eistnakrabbamein, 25 ára gamall. Meinið reyndist auk þess hafa sáð sér í lungu og heila og var honum vart hugað líf.

Hér segir Lance frá uppvaxtarárum sínum í Texas, föðurleysinu, fyrstu sigrunum á íþróttaferlinum, baráttunni við krabbameinið og hina erfiðu lyfjameðferð sem gerði hann svo máttfarinn að hann gat ekki einu sinni talað í síma.

En heimurinn veit að Lance Armstrong sigraðist á þessum erfiðu veikindum og tókst með einstökum viljastyrk að gera það sem fæstir höfðu trú á - að hefja keppni í hjólreiðum á nýjan leik. Ekki nóg með það, honum tókst að vinna sigur í erfiðustu keppni heims, sjálfum Frakklandshjólreiðunum, og það ekki aðeins einu sinni heldur sjö sinnum í röð. Það afrek hefur enginn leikið eftir.

Hér stígur Lance fram sem einlægur og hreinskilinn maður sem lært hefur dýrmæta lexíu og miðlar henni þannig að hún á erindi til okkar allra, hvort sem við höfum fengið krabbamein eða ekki, hvort sem við höfum áhuga á hjólreiðum eða ekki. Því þetta snýst ekki um hjólið, þetta snýst um lífið.

Helga Soffía Einarsdóttir þýddi.
  Umsagnir
 

„Lance Armstrong er einstök hetja. Baldinn unglingur beislaði hann orku sína og tókst að verða afreksmaður í íþrótt sinni, sem er meðal hinna erfiðustu. Reiðarslagi, sem um tíma ógnaði lífi hans sneri hann upp í aðra sigurgöngu og náði fullri heilsu eftir átök við banvænan sjúkdóm. Með óbilandi og raunar óskiljanlegum krafti og þrautseigju tókst honum að verða yfirburðamaður í hjólreiðum, ósigrandi ár eftir ár, hugsanlega fremsti hjólreiðamaður sögunnar. Stjörnustöðu sína hefur hann síðan nýtt til að telja kjark í þá, sem takast þurfa á við illvíga sjúkdóma og safna miklum fjármunum til til baráttunnar gegn þeim sjúkdómum. Saga Lance Armstrong er einstök og öllum holl lesning.“

Sigurður Björnsson, læknir, formaður Krabbameinsfélags Íslands

   
 

„Listavel skrifuð.“

Pétur Halldórsson, Rás 1

   
 

„Þessi bók hafði mikil áhrif á mig og gat ég ekki lagt hana frá mér. Las meðan ég hélt augunum opnum. Þetta er saga áhrifamikils íþróttmanns sem hefur snert marga með yfirburðastöðu sinni sem hjólreiðarmaður allra tíma. Saga hans er vel sögð og með ólíkindum skemmtileg frásögn sem snertir alla sem hafa áhuga á íþróttum, ég tala nú ekki um fólk sem hefur þurft að berjast við krabbamein. Algjör skyldulesning að mínu mati."

Valdís Gunnarsdóttir, Bylgjunni

   
 

„Annars féll ég alveg fyrir bókinni Þetta snýst ekki um hjólið. . . ótrúleg hetju- og baráttusaga sem margir gætu lært af og tekið sér til fyrirmyndar. “

Hemmi Gunn, Bylgjunni

   
 

„Heillandi."

The New York Times
 

  „Einstakur afreksmaður ... Menn eins og Lance Armstrong eru góðar fyrirmyndir. Þeir sýna hvernig einstaklingurinn getur með elju, þrautseigju og viljastyrk sigrast á miklum erfiðleikum og unnið einstæð afrek."

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins
 

„Þetta snýst ekki um hjólið, leið mín aftur til lífsins" er bók um Lance Armstrong og rataði hún í jólapakka til formanns og þrátt fyrir að vera lítill lestrarhundur hafðist það að lesa þessa 269 síðna einstaklega vel skrifuðu bók um þennan merka hjólreiðamann. Bókinn hreif mig svo mikið að eftir að hafa klárað bókina skellti ég henni á náttborðið kveikti á tölvunni og pantaði nokkur armbönd, vatnsbrúsa og húfu til styrktar Livestrong sjóði sem Armstrong stofnaði strax eftir að hafa læknast af krabbameini.“

Elvar Örn Reynisson, formaður Hjólamanna

 
Krabbameinsfélagið fékk fyrsta eintakið 12.11.05
Í gær afhentu eigendur Græna hússins Sigurði Björnssyni formanni Krabbameinsfélags Íslands fyrsta eintakið af bókinni Þetta snýst ekki um hjólið eftir Lance Armstrong. Sigurður er einn helsti sérfræðingur Íslendinga um eistnakrabbamein og þekkir m.a. læknana sem önnuðust Lance. Sigurður sagði við þetta tækifæri að Lance væri mörgum fyrirmynd í baráttunni við krabbamein, en Sigurður hefur einmitt fylgst með ferli hans og starfi að málefnum krabbameinssjúkra.

Viljastyrkur Lance Armstrong og fordæmi hans hefur orðið mörgum krabbameinssjúklingum fyrirmynd í baráttunni og gefið von um bata. Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu greinast innan við átta Íslendingar að meðaltali á ári með krabbamein í eistum og geta langflestir þeirra reiknað með að læknast, en fyrir aðeins aldarfjórðungi voru lífshorfurnar innan við sjötíu af hundraði.

 
Kafli úr bókinni
 
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538