Vignisson í amerískri bókmenntasögu 7.11.08
 

Það er mesta furða hvað Mr. Vignisson fær víða að fljóta með í seinni tíð. Hans er meira að segja að nokkru getið í amerískri bókmenntasögu, A History of Icelandic Literature, sem kom nýlega út í ritstjórn Daisy Neijmann. Þar birtist eftirfarandi færsla sem við tilfærum hér á frummálinu vegna þess að þýðandinn er önnum kafinn:

Sexuality and the archaeology of gender play an even larger role in Rúnar Helgi Vignisson's (b. 1959) fiction. His novel Nautnastuldur (1990; Indulgence Denied) probes daringly into a male complex of sex drive and personal insecurity. The protagonist, whose name, Egill Grímsson, is, ironically, almost but not quite identical to that of one of the Icelandic saga heroes, Egill Skallagrímsson, is baffled by a gay foreigner who befriends him and also deeply worried about not being man enough for the young woman he loves. In the novel Ástfóstur (1997; Love fetus) Vignisson continues his excavation of male identities that do not have a tight grip on patriarchal structures and are constantly looking for assurance and comfort in the female embrace. Here, however, female identity, too, is in turmoil. The opening sentence is: "I was never born." The narrator is an aborted fetus whose sex remains undisclosed and whose paternity is in considerable doubt. Like many of Vignisson's other texts, this novel is written in a self-conscious, ironic, yet ambivalent tone, one that readers often find grating and discomforting. Vignisson is also an accomplished author of short stories and has produced several translations, including novels by William Faulkner, Philip Roth, Amy Tan, and J. M. Coetzee.

     
  Feigðarflan kennt í Kiel 17.5.08
 

Skáldsagan Feigðarflan hefur verið býsna dugleg að afla sér lesenda. Hún hefur t.d. verið notuð við kennslu í samtímabókmenntum við Háskóla Íslands . Nú voru Græna húsinu að berast spurnir af því að Feigðarflan yrði lesið á sumarnámskeiði við háskólann í Kiel í Þýskalandi . Það verður örugglega skemmtilegt námskeið. Sendikennari í Kiel er nú Laufey Guðnadóttir.

Feigðarflan kom fyrst út hjá Græna húsinu haustið 2005 og var síðan endurútgefið í kilju árið eftir. Eins og sjá má hér hlaut Feigðarflan afbragðsviðtökur á sínum tíma.

     
  Textinn sem líkami – af flottri grein um Nautnastuld 15.10.07
  Nú er að segja frá því að ung kona, Helga Birgisdóttir Kaaber, hefur skrifað langa og lærða grein um skáldsöguna Nautnastuld í tímaritið Mími. Greinin ber yfirskriftina „Uppgefna og áttavillta andhetjan - um karla og karlmennskur í skáldsögunni Nautnastuldur eftir Rúnar Helga Vignisson." Er skemmst frá því að segja að Helga nær mjög vel utan um megininntak bókarinnar og setur það í viðeigandi og frjótt samhengi, annars vegar í samhengi við póstmódernisma og hins vegar við kenningar um karlmennsku og hinn nýja karlmann:

„Nautnastuldur byggir á rústum gamallar heimsmyndar og gamalla hugmynda um samfélagið í heild þegar ný og afstæð heimsmynd er að verða til. Ekkert er eins og það sýnist, ekki einu sinni mannskepnan sjálf sem ekki veit hvar öruggt er að drepa niður fæti. Þessar hugmyndir kristallast í Nautnastuldi Rúnars Helga þar sem hin póstmóderníska hugvera er sundurgreind í smæstu einingar og ekkert undanskilið, hvort sem það eru leyndustu hugsanir hennar, kynlíf eða salernisferðir."

Þetta eru athyglisverð orð og vel ígrunduð að okkar mati. Helga ræðir síðan ýmis einkenni póstmódernisma og rekur nokkrar nýlegar kenningar um hinn nýja karlmann og er þar margt fróðlegt á ferðinni. Athyglisverðast af öllu er hversu vel þessar kenningar virðast falla að aðalpersónu Nautnastuldar, Agli Grímssyni. Helga ræðir um kreppu karlmanna, allra karlmanna þótt birtingarmyndir hennar séu að einhverju leyti ólíkar eftir þjóðerni, kynhneigð, aldri og samfélagsstöðu. „Þetta er jarðvegurinn sem Egill Grímsson, hin póstmóderníska aðalsöguhetja Nautnastuldar, sprettur upp úr. Rústirnar eru ekki aðeins póstmódernískar heldur er feðraveldið einnig í rúst, karlmennskurnar fjölmargar og erfitt að velja úr," segir Helga.

Helga greinir síðan samskipti Egils við ástkonur sínar og ræðir þar talsvert um tengsl hugveru og líkama sem er allforvitnileg lesning: „Texti Nautnastuldar er gegnsýrður af líkamanum og markaður honum, textinn er í raun líkami eða öfugt," segir Helga og það þykir okkur flott kenning. Helga efast líka um að Agli sé borgið í lok bókarinnar þó að hann telji sig vera það með sálfræðingnum Jane. Sú niðurstaða hlýtur að teljast merkileg í ljósi afdrifa Egils í Feigðarflani.

Það er margt vel orðað í þessari vönduðu grein Helgu Birgisdóttur og ekki laust við að okkur í Græna húsinu þyki bókin nú hafa fengið greiningu við hæfi. Gaman væri að tilfæra meira úr greininni, t.d. skilning Helgu á hlutverki (silfur)skottnanna í bókinni, en við látum nægja að tilfæra lokaorð greinarinnar:

„Þetta er saga um árekstur gamalla gilda og nýrra og hvernig, og hvort, manninum tekst að púsla brotunum saman svo útkoman verði slétt og felld. Hafi Nautnastuldur einhvern boðskap er hann sá að sýna hvernig heimurinn er að breytast og hvernig fólk, bæði karlar og konur, taka á þessum breytingum."

     
  Sólvængur valinn besta þýdda barnabókin 2006 18.4.07
 

Í dag var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Höfða að Sólvængur hefði verið valinn besta þýdda barnabókin sem kom út í fyrra. Hlýtur bókin þar með hin virtu verðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar. Þetta er mikill heiður fyrir Græna húsið sem hefur nú sýnt að ekki þarf endilega mikil mannvirki og mikla sögu, hvað þá mikinn auð, til þess að koma góðum bókum á framfæri við íslenska þjóð.

Í þakkarávarpi sínu ræddi Rúnar Helgi m.a. um hversu erfitt getur verið að koma þýddum barnabókum á framfæri og gat þess að enginn ritdómur hefði enn birst í íslensku dagblaði um Sólvæng. Reyndar hefði birst krakkadómur í Morgunblaðinu í byrjun janúar en annars ekki stafkrókur í dagblöðunum og væri því á brattann að sækja þegar kæmi að kynningu á þýddum barnabókum. Þakkaði hann Reykjavíkurborg sérstaklega fyrir þá víðsýni að verðlauna þýðingar og þá ekki síst fyrir að verðlauna Ísfirðing búsettan í Garðabæ.

Í flokki frumsaminna barnabóka hlaut Áslaug Jónsdóttir verðlaunin ásamt meðhöfundum fyrir bókina Stór skrímsli gráta ekki. Formaður dómnefndar var Guðrún Pálína Ólafsdóttir og hér má sjá álit dómnefndarinnar á Sólvæng.

     
  Nautnastuldur notaður til að kynna nýja karlmennsku 2.2.07
  Bækur Rúnars Helga, þýddar og frumsamdar, fara nú víða um íslenska skólakerfið. Við höfum áður greint frá því að Feigðarflan, Silfurvængur, Leikur hlæjandi láns og Uppspuni hafi verið notaðar í grunnskólum, framhaldsskólum og í Háskóla Íslands í vetur. Nú hafa okkur borist spurnir af því að Nautnastuldur verði notaður á grunnnámskeiði um kenningar í kynjafræðum við félagsvísindadeild Háskóla Íslands í vor.

Nautnastuldur er lesinn í tengslum við kenningar um nýjan karlmann, nýjar karlmennskur, eins og það er orðað í kennsluáætlun námskeiðsins. Daginn sem Nautnastuldur verður tekinn fyrir verður lesin bók Johns Beynon, Masculinities and Culture, nánar tiltekið kaflinn „The Commercialization of Masculinities: From the 'new man' to the 'new lad'“. Enn fremur verður lesinn kafli úr bók R. W. Connell, Masculinities. Ekki kunnum við skil á þessum kenningum um nýja karlmanninn en eitthvað virðist Nautnastuldur tengjast þeim.

Matthías Viðar sá strax þegar Nautnastuldur kom út að í henni náði höfundur að fanga eitthvað sérstakt úr samtímanum. Undanfarið hafa fleiri tekið í sama streng eða eins og mætur maður sagði í bréfi til forlagsins: „Í Nautnastuldi nálgaðist höfundur það að segja eitthvað sem enginn annar hafði sagt, koma með eitthvað alveg nýtt, draga eitthvað fram úr samtímanum sem allir könnuðust við en enginn hafði almennilega teflt fram áður."

     
  World Literature Today skrifar um Feigðarflan 7.10.06
 

Græna húsinu hefur borist umsögn bandaríska tímaritsins World Literature Today, sem sérhæfir sig í bókmenntum hvaðanæva úr heiminum, um skáldsöguna Feigðarflan. Umsögnina ritar Kirsten Wolf, prófessor í norrænum fræðum við Wisconsinháskóla í Madison en áður hefur hún skrifað afar lofsamlega um Ástfóstur Rúnars Helga í sama rit.

Kirsten byrjar á því að útskýra titil bókarinnar fyrir lesendum. Hún segir síðan að Feigðarflan sé fjórða skáldsaga Rúnars og að hann hafi verið afkastamikill höfundur frá því fyrsta skáldsaga hans kom út árið 1984, einkum á sviði þýðinga. Kirsten gerir svo grein fyrir tengingu söguhetjunnar við Egils sögu og tilfærir sérstaklega þunglyndissenu Egils Skallagrímssonar eftir dauða Böðvars sem augljósan innblástur fyrir Feigðarflan. Hún útskýrir því næst ferðalag Egils um íslenska menningu og hvernig eitt og annað kemur í veg fyrir að honum takist það ætlunarverk sitt að stytta sér aldur.

Í lokin segir Kirsten Wolf í lauslegri þýðingu:

„Rúnari Helga hefur tekist að skrifa á gráglettinn hátt um grafalvarlegt viðfangsefni. Þó að lesandi kunni ýmist að finna til samúðar eða andúðar í garð aðalpersóna bókarinnar, finnur höfundur ævinlega heillandi fleti á mannlegri tilveru. Með Feigðarflani spyr Rúnar Vignisson ekki einungis heldur svarar líka mikilvægum spurningum um mannlegt þolgæði, um böndin á milli okkar og um ástina á lífinu sjálfu."

   
  Ferskur andblær, segir Ármann Jakobsson 14.10.06
 

Dr. Ármann Jakobsson sýnir margar af sínum bestu hliðum í vandaðri grein um fjórar barna- og unglingabækur í blaðinu Börn og menning sem er nýkomið út. Greinin hefur yfirskriftina Drekar, blökur, andar og óhugnaður" og þar fjallar hann um bækurnar Eragon, Silfurvæng, Ávítaratáknið og Börn lampans. Í inngangi bendir hann á að þó að þessar bækur séu ætlaðar ungum lesendum „eru þær líka forvitnilegar fyrir eldri lesendur sem geta fellt sig við fantasíuformið." Það rímar ágætlega við þau viðbrögð sem við í Græna húsinu höfum fengið við bókinni okkar á þessum lista, Silfurvæng.

Nálgun Ármanns á bækurnar fjórar er skemmtileg. Hann skoðar þær út frá stöðu unglinga í samfélaginu, út frá utangarðsstöðu eða annarleika sögupersónanna og ekki síst út frá því hvernig sögurnar kallast á við áhrifamikla eldri texta.

Ármann segir um söguhetju Silfurvængs, Skugga, að okkur þyki hún flestum væntanlega álíka óyndisleg og dreki, því strax á fyrstu síðunni fylgjum við Skugga litla á bjölluveiðum og neyðumst þannig til að samsama okkur kvikindi sem er okkur að öllu jöfnu framandi."

Um Marínu, vinkonu Skugga, segir Ármann að vegna þess að hún hefur verið hrakin frá eigin nýlendu, af því að hún hafði fengið hring frá mönnunum, sé hún dæmi um annarleika sem veki tortryggni, andúð og útskúfun. Ármann bendir líka réttilega á að lesendur eigi erfitt með að túlka söguna sem baráttu góðs og ills þar sem allar sögupersónurnar fylgja eigin náttúru og Goti [kjötætan sem eltir Skugga] er fórnarlamb líka þar sem honum hefur verið rænt úr eigin heimi."  

Í lok greinarinnar segist Ármann ekki vera frá því að Kenneth Oppel nái að rista einna dýpst af höfundunum fjórum í viðræðunni við fornan texta:

Textinn sem hann tekst á við er stutt dæmisaga Esóps, sem snerist um stríðið milli fugla og skepna. Samkvæmt Esóp fylgdu leðurblökurnar hentistefnu í því stríði og veittu þeim lið sem gekk best hverju sinni. Þegar friður var saminn skeyttu báðir aðilar skapi sínu á leðurblökunni og hún var dæmd til lífs í eilífu myrkri, hálfgerðrar útlegðar úr heimi ljóssins. Svona er sagan ekki í Silfurvæng. Samkvæmt eigin goðsögnum neituðu leðurblökurnar einfaldlega að berjast og vildu hvorugum stríðsaðilanum liðsinna. Þegar friður var saminn voru þær sakaðar um heiguslhátt og sviksemi. Ekki kannast blökurnar þó sjálfar við hentistefnuna sem lýst er í sögu Esóps. Í þeirra gerð fylgir sögunni enn fremur Loforðið mikla sem hin góða Noktúrna veitti leðurblökunum en samkvæmt því mun útlegð leðurblaknanna létta einn dag og þær fá að njóta sólarljóssins.

Hinn forni texti myndar hér ekki aðeins ramma fyrir andstæður verksins (eins og í Eragon) eða verður að stefi sem semja má gamansöm tilbrigði við (eins og í Börnum lampans) heldur teflir Kenneth Oppel fram nýrri goðsögu gegn hinni gömlu, svipað og Svava Jakobsdóttir gerði í Gunnlaðar sögu eða Timothy Findley í umtalaðri bók sinni um Nóaflóðið, Not Wanted on the Voyage. Óneitanlega er hér á ferð ferskur andblær í sögum um unglinga og það verður gaman að sjá hvernig bókaflokkurinn þróast."

     
  Rúnar Helgi bæjarlistamaður í Garðabæ 2006 17.6.2006
 

Rúnar Helgi Vignisson var í dag útnefndur bæjarlistamaður í Garðabæ árið 2006. Hann sést hér taka við blómum og skildi við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju í dag. Með honum á myndinni hér fyrir neðan eru Páll Hilmarsson, nýkjörinn forseti bæjarstjórnar, og Gunnar Einarsson, nýráðinn bæjarstjóri. Það vekur athygli á þessari mynd hve leggjalangur Rúnar Helgi virðist vera, sennilega út af hinni nýfengnu viðurkenningu.

Nýstúdentar úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ tóku þátt í athöfninni og settu ferskan blæ á hana. Ragnheiður Helga Sæmundsdóttir flutti þar prýðilega ræðu um gildi íslenskrar tungu fyrir menningarlif okkar. Henni mæltist svo vel að fulltrúar Græna hússins fengu endurnýjaða trú á framtíð íslenskrar bókmenningar.

Rúnari Helga þykir mikill sómi að bæjarlistamannstitlinum og hyggst reyna að standa sem best undir honum.

 
     
  Silfurvængur ein athyglisverðasta barnabók síðasta árs að mati Katrínar Jakobsdóttur 12.05.06
 

Í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar skrifar Katrín Jakobsdóttir yfirlitsgrein um barnabækur ársins 2005, bæði frumsamdar og þýddar. Eins og margir aðrir hefur Katrín greinilega hrifist af barnabókinni okkar, Silfurvæng, því hún segir hana líklega eina athyglisverðustu barnabókina sem kom út í fyrra. Katrín gerir grein fyrir bókinni og upplýsir m.a. að hún byggi að hluta til á einni af dæmisögum Esóps, þeirri sem segi frá stríði milli fugla og skepna. Katrín leggur út af þeirri afstöðu leðurblaknanna að taka ekki afstöðu í því stríði og þeim afleiðingum sem það hafði fyrir þær og kemur þar að þeim undirliggjandi viðfangsefnum sem finna má í sagnabálkinum. Síðan segir Katrín:

„Sagan er skrifuð af þekkingu á leðurblökum, dýrin ekki manngerð á einfaldan hátt með því að gera þau að mannlegum staðalmyndum heldur leggur höfundur sig fram um að skapa trúverðugar leðurblökur. Tengsl Skugga við foreldra sína eru sérstaklega vel uppbyggð. Faðir hans er horfinn en Skuggi er afar hændur að móður sinni þótt hann vilji líka vera henni óháður. Tengsl þeirra eru nánari en gengur og gerist sökum fjarveru föðurins sem hvílir mjög á Skugga og veldur því að hann hefur föðurinn upp á stall til að sætta sig við að hann yfirgaf þau.“

Rúnar Helgi Vignisson er nú langt kominn með að þýða næstu bók í þríleiknum um leðurblökurnar, Sólvæng, og er stefnt að því að hún komi út í október.

   
  Uppgjör Úlfhildar 16.1.06
 

Úlfhildur Dagsdóttir flutti á dögunum erindi um bækur síðasta árs og birtist útdráttur úr því í þættinum Seiður og hélog í gærkvöld. Úlfhildur kom víða við en þegar talið barst að barnabókunum taldi hún Silfurvæng fremstan í flokki. Bókin væri með alkrúsalegustu bókum sem hún hefði lesið á árinu. Þetta þykir okkur hjá Græna húsinu talsverð upphefð en þess má geta að Rúnar Helgi er nú að þýða næstu bók í þríleiknum um leðurblökurnar, Sólvæng.

Úlfhildur gat þess að henni fyndist sem gróska væri meiri í útgáfu en oft áður og mörg lítil forlög hefðu verið að gera góða hluti. Af þeim frumsömdu verkum sem litlu forlögin hefðu gefið út nefndi hún tvær sem stæðu upp úr. Önnur þeirra væri Feigðarflan Rúnars Helga sem hún sagði að hefði komið sér á óvart. Í henni væri einhver snerpa og húmor sem ekki hefði endilega verið í fyrri bókum Rúnars.

Við hjá Græna húsinu spyrjum hvort ekki sé kominn tími til að þjóðin uppgötvi þessa bók sem öllum ber saman um að sé bráðskemmtileg, bæði gagnrýnendum og öllum þeim lesendum sem við höfum heyrt í og þeir eru á ýmsum aldri, allt frá unglingum upp í roskið fólk.

     
  Lúmskur húmor og dásamlegur senuþjófur 20.12.05
 

Það er trúlega að bera í bakkafullan lækinn að segja frá fleiri lofsamlegum dómum um bækurnar okkar og höfum við þó ekki minnst á allt. Nokkur umræða hefur spunnist um það í fjölmiðlum að allar bækur fái góða dóma. Einkum er það ein manneskja, kennd við kúpu, sem hefur kallað eftir fleiri slátrunum, eins og það sé besta leiðin til þess að hvetja höfunda til til dáða. Í fyrsta lagi er ekki rétt að allar bækur hafi fengið góða dóma og í öðru lagi þykir okkur vænlegra að tileinka sér ákveðna virðingu fyrir viðfangsefninu og gagnrýna án þess að vera ruddalegur. Talsverð eftirspurn virðist hins vegar vera eftir ruddaskapnum á sumum fjölmiðlum og við höfum heyrt að gagnrýnendur séu sums staðar hvattir til þess að sýna ósæmilega hegðun.

Hvað um það, í morgun birti Þórarinn Þórarinsson vel unninn ritdóm um Feigðarflan í Fréttablaðinu. Okkur þótti mikill fengur að því að Þórarinn skyldi setja bókina í samhengi við forvera sinn, Nautnastuld, en rétt er þó að taka fram að Feigðarflan er sjálfstætt framhald af Nautnastuldi.

Þórarinn byrjar á því að gera nokkra grein fyrir Nautnastuldi. „Þar sagði frá lúsernum Agli Grímssyni sem stóð engan veginn undir nafni og var jafn ólíkur fornhetjunni og nafna sínum Skallagrímssyni og hugsast gat. Egill glímdi við silfurskottur, bæði raunverulegar og andlegar, og reyndi að koma undir sig fótunum sem rithöfundur þrátt fyrir að vera þjakaður af þunglyndi, minnimáttarkennd og almennum aumingjaskap." Svolítið harkaleg lýsing á Agli sem var að vissu leyti fórnarlamb tíðarandans og breyttra viðhorfa til karlmennsku.

„Ferðalag Egils er bráðskemmtilegt á köflum," segir Þórarinn, „og á vegi hans verða kynlegir kvistir sem varpa ljósi bæði á hann sjálfan og þjóðarsálina. Þarna á meðal eru stórundarleg bóndahjón, gamall félagi frá Ísafirði . . . og síðast en ekki síst unglingsstúlkan Ekki-Snæfríður Íslandssól. Hún er dásamlegur senuþjófur sem hristir hressilega upp í Agli."

Þórarinn segir að sjálfsmorð og þunglyndi séu auðvitað ekkert gamanmál „en lúmskur húmor Rúnars Helga nýtur sín vel í sögunni og þótt kaldhæðni Egils Grímssonar svífi alltaf yfir vötnunum getur lestur Feigðarflans ekki haft annað en jákvæð áhrif á viðhorf lesenda til sjálfra sín og lífsins," segir Þórarinn.

Að lokum segir Þórarinn:

„Feigðarflan er blátt áfram og þægileg vegasaga sem rennur ljúflega í gegn enda skrifar Rúnar Helgi skýran og læsilegan texta . . . Nautnastuldur er fyndnari og skemmtilegri en Feigðarflan sem er aftur á móti yfirvegaðri, samþjappaðri og beinskeyttari. Nautnastuldur höfðaði sterkt til mín á þunglyndum menntaskólaárunum og við Egill eigum enn margt sameiginlegt þannig að það er ekki hægt að segja að þetta hafi verið ánægjulegir endurfundir."

Kúnstugt niðurlag þetta hjá Þórarni og jafnframt svolítið vogað og persónulegt, kannski í stíl við Egil. Það kemur okkur hins vegar verulega á óvart að honum hafi þótt Nautnastuldur fyndnari og skemmtilegri en Feigðarflan. En svona er veruleikinn óstöðugur eins og Egill kemst að í Feigðarflani, það er ekkert fast í hendi. Við þökkum Þórarni fyrir ágætan pistil.
     
  „Silfurvængur er yndisleg!“  
 

Það er víða verið að fjalla um bókmenntir á netinu. Í gær rákumst við á umfjöllun um Silfurvæng á síðunni einarogagnes.blogdrive.com, síðunni sem Einar og Agnes hafa sett upp. Þar segir m.a.:

„Í seinni tíð sæki ég mikið í bækur sem segja mér sögur, sögur með hetjum og vondum fólki þar sem allt fer vel að lokum eftir miklar raunir og nornin brennur í ofninum á meðan góða fólkið vermir hendurnar . . . Tvær slíkar hef ég lesið alveg nýverið, góðar og vel skrifaðar sögur sem eru alls ekki léttvægar, Skugga-Baldur eftir Sjón og Silfurvæng eftir Kenneth Oppel í þýðingu Rúnars Helga. “

Bloggritari tekur sér síðan fyrir hendur að gera grein fyrir bókinni og segir þá:

„Silfurvængur er yndisleg! Skuggi fyrirburablaka er sjálfur að læra að vængja sig í heiminum og þroskasaga hans er þroskasaga lesandans sem er líka óviti í heimi leðurblökunnar. Heimsmynd leðurblökunnar eins og Oppel hefur ímyndað sér hana byggist á goðsögum um útlegð leðurblakanna úr sólinni, gyðjuna Noktúrnu og Loforðið sem hún gaf leðurblökunum. Útlegðin nær aftur til árdaga þegar mikið stríð var milli fugla og dýra en leðurblökurnar neituðu þá að taka afstöðu og berjast með annarri hvorri fylkingunni. Dante hefði getað sagt þeim að hlutleysi er sjaldan vel séð og gjarnar túlkað sem hugleysi enda fór svo að dýr og fuglar sameinuðust að stríði loknu um að banna blökunum að fljúga á daginn. Öfugt við aumingjana sem Dante hleypti ekki einu sinni inn í helvíti hafa leðurblökurnar þó von um að sjá sólina aftur þegar Noktúrna uppfyllir Loforð sitt við þær, hvenær sem það mun nú verða. En Skuggi getur ekki beðið og stelst til að kíkja á sólina. Þannig fer af stað atburðarás þar sem Skuggi lendir í hverri rauninni á fætur annari, hittir hræðilegar kjötætublökur (Vampyrus Spectrum) úr frumskógum suðursins, spáir í hlutverk Mannanna í blökuheiminum og uglurnar, erkióvinir blakanna, loka næturhimninum. Skuggi er svo mannlegur og heimurinn sem Oppel hefur skapað svo heildstæður og úthuxaður að mér virtist ýmislegt skýrara þegar ég var búinn að sjá það með hljóðsjón Skugga.

Þetta varð lengra en ég ætlaði en bókin er bara svona góð!“

     
  Feigðarflan: Ein af flottustu kápunum 17.12.05
 

Fréttablaðið efnir til árlegs samkvæmisleiks í dag: Hvaða kápa er flottust? Það gladdi okkur hjá Græna húsinu að einn af þeim sem fengnir voru til að segja álit sitt valdi kápuna á Feigðarflani sem eina af bestu kápunum. Það var hinn þekkti aðstoðarverslunarstjóri Bókabúðar Máls og menningar á Laugavegi, Kristján Freyr Halldórsson. Kristján Freyr hafði þetta um kápuna á Feigðarflani að segja:

„Fín hugmynd og smekkleg. Nýtt forlag með frumraun sína og allar kápurnar eru ansi vel heppnaðar. Svo er þessi bók tileinkuð öllum þeim sem ekki eiga jeppa.“

Eins og þegar hefur komið fram hér á síðunni þá er það hinn listfengi Finnur Malmquist sem hannaði allar kápurnar fyrir fyrir okkur og hefur fengið mikið lof fyrir. Kápunni á Silfurvæng var t.d. hælt í hástert í ritdómi í Morgunblaðinu sl. þriðjudag. Okkur þykir hann hafa náð að fanga á einfaldan hátt þann húmor sem einkennir Feigðarflan. Það er einmitt hann sem er á myndinni hérna til vinstri.

       
  Lof á lof ofan 13.12.05
 

Við hjá Græna húsinu getum sannarlega ekki kvartað undan dómum um bækurnar okkar. Þeir hafa verið afbragðsgóðir og sumir hreinlega framúrskarandi. Í gærkvöldi fjallaði Jón Yngi Jóhannsson um Feigðarflan Rúnars H. Vignissonar í Kastljósinu. Hann virtist hafa haft gaman af bókinni og þó að hann þættist sjá þarna leik að mörkum skáldskapar og sjálfsævisögu taldi hann bókina vera skáldskap fremur en ævisögu. Í hnotskurn sagði Jón Yngvi um bókina: „Feigðarflan er skemmtilega kaldhæðin saga um hlutskipti rithöfundar og erfitt samband hans við samtíma sinn. “ Umfjöllun Jóns Yngva má sjá hér.

Í morgun birtist svo enn einn lofdómurinn um Silfurvæng og er ljóst að sú bók er að slá í gegn. Það var Þórdís Gísladóttir sem skrifaði hann í bókakálf Morgunblaðsins. Þar lýsir Þórdís mikilli ánægju með bókina að öllu leyti, söguna sjálfa, þýðinguna og útlitið. Grípum niður í umsögn Þórdísar:

„Það er í raun afskaplega vel til fundið að láta leðurblökur leika aðalhlutverkið í svona sögu og búa til ævintýraheim í kringum þær, en leðurblökur eru dýr sem flestum eru tákn óhugnaðar og hryllings. Og leðurblökuveröldin sem lesandi kynnist er í meira lagi áhugaverð.“

Þórdís segist ekki eiga von á öðru en að íslensk börn taki bókunum um leðurblökuna Skugga fagnandi. Hún fer síðan út í vangaveltur um lestur og hvernig rétt sé að koma til móts við þarfir barna í þeim efnum. Þar virðist Þórdís m.a. vísa til kenninga um barnabókmenntir. Í lokin segir hún:

„Þýðing Rúnars H. Vignissonar á Silfurvæng virkar með eindæmum vel. Textinn er myndrænn og lýsingar svo iðandi af lífi að oftar en ekki sér lesandinn atburðina ljóslifandi fyrir sér líkt og um teiknimynd væri að ræða. Bókin er líka afskaplega falleg og vel unnin og fer vel í hendi.“

   
 
 
 
 
 
 
   
     
  „Nær verulegum hæðum 2.12.05
 

Úlfhildur Dagsdóttir, ein best lesna manneskja landsins og þótt víðar væri leitað, gerir það ekki endasleppt þegar kemur að bókum Græna hússins. Í dag birti hún afar vandaðan ritdóm um Feigðarflan á Bókmenntavefnum og segir þar m.a. að hér sé „á ferðinni dágóð skáldsaga, skemmtileg og umhugsunarverð og nær verulegum hæðum í geggjuðustu köflunum í upphafi og undir lokin. Nei, það er ekkert feigðarflan að leggja út í þennan lestur.“

Úlfhildi finnst margt „skrítið og skemmtilegt “ í Feigðarflani. Henni þykir grunnhugmyndin, sjálft feigðarflanið, sniðug og blandast vel við upprifjanir og síðan bókstaflegt baklit „ þegar hinn feigi ekki aðeins rifjar upp eigið liðna líf, heldur beinlínis hverfur á vit þess aftur, fer á æskuslóðirnar. “

Í ljósi umræðunnar um Feigðarflan er vert að íhuga eftirfarandi orð Úlfhildar:

Feigðarflan er sjötta frumsamda skáldverk Rúnars Helga en þessutan hefur hann þýtt fjöldann allan af bókum, nú síðast Silfurvæng, hina dásamlegu barnabók um litlu leðurblökuna. Þrátt fyrir þetta er óhætt að segja að Rúnar Helgi sé ekki sérstaklega vel þekktur höfundur, á bókmenntafræðimáli mætti segja að hann sé ekki miðlægur í umræðunni. Ekki ætla ég mér þá firru að halda því fram að Egill Grímsson, sögumaður Feigðarflans, sé Rúnar sjálfur, nei, ég veit nefnilega betur: hann er söguhetja skáldsögunnar Nautnastuldur sem er oftlega nefnd í Feigðarflani sem skáldsaga eftir Egil Grímsson, sögumann Feigðarflans. “

Spurningin er hvers vegna Rúnar H. Vignisson er jafn mikill jaðarhöfundur og raun ber vitni. Ekki er það út af slæmum dómum í gegnum tíðina eins og sjá má annars staðar á þessari heimasíðu.

 
 
   

 

    Silfurvængur: „Gersamlega dásamleg bók“ 28.11.05
   

Lestrarhesturinn Úlfhildur Dagsdóttir hefur birt vægast sagt lofsamlegan dóm um barnabókina okkar, Silfurvæng, á Bókmenntavefnum. Þar segir hún m.a. að ekki komi á óvart að Kenneth Oppel skuli hafa hlotið fjölda viðurkenninga „því Silfurvængur er í stuttu máli sagt gersamlega dásamleg bók.“ Úlfhildur fer líka fögrum orðum um þýðinguna, segir Rúnar Helga sýna hér „glæsilega takta við það að koma þessum heillandi leðurblökuheimi til skila.“

Úlfhildur segir ennfremur að „krúsalegur dýrahúmor “ einkenni alla liðlanga bók Kenneths Oppel um leðurblökuna Skugga. Síðan segir Úlfhildur m.a.:

Oppel dregur upp heilan heim byggðan leðurblökum og fuglum og tekst einstaklega vel að skapa þessum flugverum sínum persónuleika í bland við fróðlegar upplýsingar um lífshætti blaka. Eins og hann bendir á sjálfur er það nokkuð áhlaupsverk að gera dýr sem flestum stendur ógn af að sannfærandi og sympatískum persónum. Samúðin birtist strax í kápumyndinni sem sýnir litla stóreyga leðurblöku umvafða eigin vængjum. Lýsingarnar á samvinnu og samstöðu leðurblakanna eru sérlega fallegar, en rannsóknir hafa sýnt að leðurblökur eru mikil félagsdýr og halda þétt saman og hjálpast að. Skuggi og Marína halda til dæmis hita hvort á öðru með því að hjúfra sig saman og vefja vængjunum hvort um annað. Bókin er sömuleiðis full af húmor og kómískum sitúasjónum, ekki síst í tengslum við Skugga litla sem er afar ævintýragjarn en ætlar sér gjarna um of.“

Það gleður okkur mjög að fá þessa frábæru umsögn frá Úlfhildi og hún er í takti við það sem við höfum heyrt annars staðar frá, t.d. frá starfsfólki bókabúða og safnkennurum. Við erum líka þakklát hinum þrettán ára ráðgjafa okkar sem las bókina á ensku og mælti eindregið með henni.

 

   

 

  Mogginn í stuði 22.11.05

Egill Grímsson hefði sjálfsagt hoppað hæð sína ef hann hefði séð forsíðuna á bókablaði Moggans í morgun. Þar var vinurinn mættur í eldlínuna ásamt skapara sínum.

Í viðtali Hávars Sigurjónssonar, blaðamanns og leikritaskálds, við Rúnar H. Vignisson kennir ýmissa grasa. Svo er að sjá sem Hávar hafi skyggnst vel undir yfirborð textans því hann spyr höfundinn út í öll meginviðfangsefni bókarinnar. En það fer ekki heldur á milli mála að Hávar hefur skemmt sér vel yfir lestrinum því hann talar um óborganlega fyndni og segir að Feigðarflan sé saga sem blekkir og trekkir. Grípum aðeins niður í lýsingar Hávars á bókinni:

„Feigðarflan er önnur skáldsaga Rúnars Helga Vignissonar þar sem aðalpersónan er Egill Grímsson, sem í einhverjum skilningi er alteregó Rúnars Helga sjálfs, en um leið sjálfstæð persóna þó ekki sé alltaf ljóst hvar mörkin á milli skáldskapar og veruleikans liggja. Og það er greinilegt að Rúnar Helgi gerir þetta glottandi, snýr upp á hefðir og venjur, hefur endaskipti á klisjum og notar tákn og líkingar þegar honum sýnist eða beitir sjónhverfingum. Þetta er saga sem blekkir og trekkir.“

Hávar spyr síðan Rúnar út í senu framarlega í bókinni og hefur þessi aðfararorð:

„Heimsókn Egils til hjónanna á bænum minnir að sumu leyti á aðstæður Umba í Kristnihaldinu og ekki bætir úr skák þegar húsbóndinn lógar hundinum Kiljan og húsfreyjan matreiðir hann fyrir gestinn. Síðan situr hann langt fram á nótt við að árita upplagið af Nautnastuldi því hjónin telja að með því verði bókaeignin verðmætari í framtíðinni. Þetta er fullkomlega súrrealísk sena, óborganlega fyndin en um leið óhugnanleg svo hér fær lesandinn nóg fyrir sinn snúð.“

Margt fleira ber á góma í viðtali þeirra Hávars og Rúnars, m.a. um það stefnumót einstaklings og landshluta sem Feigðarflan býður upp á. Um það segir Rúnar:

„Í þessari sögu er teflt saman örlögum einstaklings og landshluta. Saga Egils Grímssonar er saga um misheppnaðan mann í þeim skilningi að honum hefur ekki tekist að láta drauma sína rætast. Hvernig bregst maður við því? Er hægt að verða hamingjusamur við slíkar aðstæður? Þessari persónusögu er stillt upp andspænis heilum landshluta sem má muna sinn fífil fegurri.“

 

 

„Saga Rúnars er bráðskemmtileg.“ 16.11.05

Hinn gustmikli menningarritstjóri DV tók sig til á dögunum og las Feigðarflan Rúnars H. Vignissonar og birti í gær umsögn um bókina. Eftir að hafa gert nokkra grein fyrir söguþræði bókarinnar segir Páll Baldvin:

„Saga Rúnars er bráðskemmtileg. Hann er hugkvæmur víða í uppátækjum sínum fyrir þetta annað sjálf sitt. Einkum þykir mér fengur í gróteskum lýsingum hans í næturlífi og samkvæmissiðum þar vestra sem þó geyma marga aðra hljóma."

Páli Baldvin finnst frásögnin líka lífleg: „Rúnar skrifar líflegan og útúrdúralausan stíl, hann er laus við alla stæla, rekur stóran hluta sögunnar fram með samtölum sem eru trúverðug og prýðilega samsett.“

Rétt er að leiðrétta eina rangfærslu hjá Páli. Hann segir að bækur Egils Grímssonar, söguhetju Feigðarflans, beri nöfn fyrri skáldsagna Rúnars . Hið rétta er að Egill eignar sér einungis Nautnastuld og helgast það af uppbyggingu þeirrar bókar. Í eftirmála hennar kemur fram að Egill hafi gefið út bók með sama nafni. Aðrar bækur Egils Grímssonar bera önnur nöfn í Feigðarflani.

Þó að margt sé vel athugað hjá Páli Baldvin og hann hafi sannarlega rétt fyrir sér hvað skemmtanagildi Feigðarflans varðar, söknum við hjá Græna húsinu meiri greiningar á bókinni og skorum á aðra gagnrýnendur að leggja á djúpið.

 
   
  Mikil frásagnargleði í Feigðarflani 14.11.05

Hin margreynda og víðlesna útvarpskona Jórunn Sigurðardóttir helgaði þáttinn Seið og hélog Rúnari H. Vignissyni og verkum hans á Rás 1 í gær. Þetta var afar vandaður þáttur þar sem hún ræddi við Rúnar um margþætt störf hans í þágu bókmenntanna á liðnum árum. Einkum var rætt um tvær bækur, þýðingu hans á Vansæmd eftir suður-afríska Nóbelsverðlaunahafann J. M. Coetzee og um nýútkomna skáldsögu hans Feigðarflan. Jórunn sagði m.a. að það sæist á Feigðarflani að Rúnar hefði haft gaman af að skrifa bókina.

Jórunn lagði m.a. út af því að Rúnari hefði verið líkt við Carver og Coetzee í ritdómi í World Literature Today og dró upp ákveðna hliðstæðu milli ferðalags Davids Lurie í Vansæmd og ferðalags Egils Grímssonar í Feigðarflani. Báðir lenda þeir í sálarkreppu og leggja af stað úr borg og út á land þar sem ýmislegt hendir þá.

Jórunn lét þess getið í þættinum að það væri greinilegt að Rúnar hefði haft gaman af að semja Feigðarflan, honum dytti stöðugt eitthvað nýtt í hug og það væri mikið „sprúðl" í bókinni. Þetta er í samræmi við þau viðbrögð sem við á forlaginu höfum fengið við Feigðarflani. Fólk hefur hringt og kvartað undan því að hafa bæði misst svefn og leikfimi út af bókinni, svo spennandi væri hún.

   
       

 

 
 
Silfurvængur
Skuggi er ung leðurblaka, stubburinn í nýlendunni. Hann er ákveðinn í að sanna sig á hinu langa og hættulega ferðalagi suður í Vetrarhíði, milljónir vængjaslátta í burtu. Í óveðri hrekst hann út yfir sjóinn, burt frá fjölskyldu og vinum og því lífi sem hann þekkir. Hræddur og einmana tekst hann á hendur makalausa ferð til að hafa uppi á nýlendunni . . .
Kenneth Oppel
 
     
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538