Listin og hefðin 14.1.06

Ég var að koma af aðalfundi Bandalags íslenskra listamanna. Þar á bæ tíðkast að hvert aðildarfélaganna flytji stutta skýrslu um störf sín undanfarið ár. Hver formaðurinn af öðrum steig á stokk og sagði farir sínar ekki sléttar. Eilíft basl við að verja hagsmuni félagsmanna og eilíft þjark við ráðamenn sem sýna listamönnum lítinn skilning og virðast helst reyna að þreyta þá með því að draga allt á langinn, kannski í von um að þeir gefist upp og snúi sér að öðru.

Ég velti fyrir mér hvernig standi á því að ráðamenn hafa jafn lítinn skilning á aðstöðu listamanna og hlutverki og raun ber vitni. Hvers vegna eru þeir tilbúnir að láta leggja vegi um afdali og bora jarðgöng fyrir örfáa bíla en ekki til að stuðla að betra mannlífi í landinu, já og að varðveislu íslenskrar tungu, sem Aðalsteinn Davíðsson, málfarsráðunautur RÚV, lýsir nú yfir að sé í stórhættu og þar með bókmenntaarfurinn, nokkuð sem ég hef reyndar oft bent á. Þessi tregða stjórnmálamanna er furðuleg í ljósi þess að á Íslandi ku drjúpa smjör af hverju strái samkvæmt þessum sömu mönnum. Engu virðist skipta þó að prófessorar eins og Ágúst Einarsson hafi sýnt fram á að menningin skilar miklu til þjóðarbúsins - líka í peningum talið.

Stjórnmálamenn eru auðvitað fulltrúar fólksins í landinu og þess vegna endurspeglun á áherslum þess. Því má ætla að þeir telji að fólkið í landinu vilji ekki að settur verði meiri peningur í listalífið. Og af hverju vill þá fólkið í landinu ekki að settur verði meiri peningur í listina?

Því er vandsvarað. Varla af því það telji líf sitt verða litlausara fyrir vikið. Þegar fram kemur góður listamaður - og hann sprettur vitanlega ekki upp úr eyðimörkinni - er það fólkið í landinu sem fyrst nýtur góðs af, hvort sem það er í formi góðra bóka, myndverka, tónlistar eða kvikmynda.

Mér er næst að halda að hér ráði hefðin mestu. Það er ekki hefð fyrir því að leggja rausnarlegan pening í þennan málaflokk. Það er hefð fyrir því að leggja 5 milljarða í jarðgöng en ekki fyrir því að hækka framlög í Bókmenntakynningarsjóð um 50 milljónir. Sá stjórnmálamaður sem reynir að brjótast út úr þessu fari hlýtur að mæta, eða búast við að mæta, mikilli mótspyrnu í sínum röðum og óttast upphlaup meðal þjóðarinnar.

rhv

   
Af málsvörn mannorðsmorðingja 13.1.06

Fyrir nokkrum árum fékk ég það verkefni að skrifa umsögn um bókina Málsvörn mannorðsmorðingja eftir Gunnar Smára Egilsson, núverandi hæstráðanda hjá 365 miðlum, en hún var rituð í framhaldi af því að höfundurinn var dæmdur í fjársektir fyrir skrif sín. Þetta er ansi fróðleg bók í ljósi umræðunnar um siðareglur og ritstjórnarstefnu DV síðustu daga en í bókinni segir Gunnar Smári að blaðamanni leyfist að hafa 10% rangt fyrir sér. Um bókina sagði ég m.a.:

Gunnar Smári er í einskonar krossferð fyrir málfrelsið, enda álitu þeir félagarnir á Pressunni sig vera frelsaða frá villu valdhafanna. Þeir voru heilagir". Heilagleikinn er sóttur til sjálfs Jesú Krists, sem höfundur þykist sjá að hafi verið óvæginn með afbrigðum: Trúir því nokkur að þessi maður hafi talið að ekki mætti benda á ágalla samfélagsins eða meinbugi í framferði annarra manna?" Af þankagangi Gunnars Smára og undirtitli bókarinnar að dæma er blaðamennska eins konar fagnaðarerindi, Jesúsar samtímans þar með þarfir mannorðsmorðingjar. Eins og til áréttingar því sakar höfundur Jesú um að hafa barið sér á brjóst og verið með ólíkindalæti við góðverk sín.

Þegar Gunnar Smári er ekki að útbreiða fagnaðarerindi blaðamennskunnar rekur hann hornin í hitt og þetta, ekki síst valdastofnanir: Morgunblaðið, Laxness, feminista, geðlækna, ´68 kynslóðina og auðvitað dómara. Hann lætur hins vegar hjá líða að fást við helminginn af titlinum, sjálft mannorðsmorðið, eðli þess og afleiðingar fyrir samfélagið. Blaðamaður sem telur eðlilegt að stéttinni líðist að hafa 10 prósent rangt fyrir sér" hlýtur að hafa leitt hugann að fórnarkostnaðinum. Maður skyldi ætla að hann velti fyrir sér spurningum eins og hvor verði lengur að bíta úr nálinni, hann með sína sekt eða saklausa fórnarlambið. En slíkur vandi lýtur hér í gras fyrir heilagri vegsemdinni."

rhv

   
Sælustundir 9.1.06
 

Bestu stundir fjölskyldunnar eru þegar við erum öll fjögur samankomin inni í svefnherbergi, jafnvel öll uppi í sama rúminu, og lesum. Slík kvöld eru reyndar regla og nær undantekningarlaust þarf að rífa bækurnar af sonunum og skipa þeim að fara að sofa.

Í gær var eitt þessara kvölda. Reyndar vorum við lengstum þrír í rúminu feðgarnir því frú Guðrún var í leshring. Eldri sonurinn, sem er nýbúinn með nýjustu bókina eftir Kenneth Oppel (höfund Silfurvængs), var að lesa Krosstré eftir Jón Hall Stefánsson, sá yngri lauk við aðra af teiknimyndabókum Hugleiks Dagssonar og tók svo til við Ævintýrafjallið. Við feðgarnir höfum reyndar allir lesið þessa bók Hugleiks og allir haft ómælt gaman af. Hugleikur er einn ferskasti og lúmskasti húmoristi sem komið hefur fram á Íslandi í seinni tíð. Teikningar hans eru frumstæðar en samspil þeirra og textans er með ólíkindum vel heppnað og má eiginlega segja að hann nái að fanga kenjar tíðarandans miklu betur en mig hefði nokkurn tíma grunað. Þegar frú Guðrún kom heim úr leshringnum tók hún til við Skugga vindsins, þá miklu bók.

Sjálfur hef ég undanfarið tekið þátt í stórkostlegri bókaveislu. Hún hófst skömmu fyrir jól á því að ég lauk við nýjustu skáldsögu J. M. Coetzee, Slow Man. Það er frábærlega vel stíluð bók um mann sem lendir í því að missa neðan af fæti þegar keyrt er á hann á hjólinu sínu. Í framhaldinu tekur við tilvistarkreppa sem finnur sér sérkennilegan farveg eins og Coetzee er von og vísa. Byrjunin á þessari bók er með eindæmum sterk og snjöll og minnti mig satt að segja á byrjunina á Vansæmd hvað það varðar.

Þegar ég hafði nýlokið við þessa bók bárust mér í hendur tvær bækur frá forlaginu Uppheimum á Akranesi. Þar er mikill metnaður í gangi eins og nafn forlagsins gefur tilefni til, metnaður sem minnir mig satt að segja svolítið á fyrstu ár Bjarts. Brjálsemiskækir á fjöllum heitir bók eftir kínverska skáldið Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar. Þó að Po hafi verið uppi á 8. öld eiga ljóð hans enn fullt erindi til nútímamanna og satt að segja hefði vel verið hægt að telja mér trú um að hann hefði ort þessi ljóð á síðustu öld. Í látlausum ljóðum, sem virðast afar vel þýdd, miðlar hann lífsbaráttunni, gleði og sorgum, á svo aðlaðandi hátt að ég gat ekki annað en hrifist. Hin bókin frá Uppheimum er ekki síðri þó að hún sé í allt öðru formi. Það er saga Natalie Babbitt, Fólkið sem gat ekki dáið, í yndislegri þýðingu Gyrðis Elíassonar. Þar ræðst Natalie til atlögu við dauðleikann á mjög heillandi hátt og eftir lesturinn er maður satt að segja feginn að vera dauðlegur frekar en hitt. Í bókinni ríkir svo seiðandi andrúmsloft að maður vill helst ekki skilja við hana og horfast í augu við raunheiminn aftur. Þetta er bók sem hentar fólki á öllum aldri.

Þegar þessum upplifunum lauk tók við ekki síður heillandi bók.; já, í rauninni er með ólíkindum hvað ég hef ratað á góðar bækur undanfarið eftir fremur slakt lestrarár í fyrra; Kertin brenna niður eftir Sándor Márai í þýðingu Hjalta Kristgeirssonar. Þetta er alveg stórgóð uppgjörsbók sem höfðaði vel til höfundar Feigðarflans því þar má segja að Egill Grímsson, söguhetja Feigðarflans, sé sálgreindur. Mestum tíðindum þótti mér þó þýðing Hjalta sæta. Það verður hreinlega að segjast eins og er að ég hef varla séð flottari texta síðustu ár. Hver setning er veisla. Þess vegna fannst mér stórundarlegt að lesa nýverið ritdóm um þessa bók í Morgunblaðinu þar sem ekki er vikið einu orði að þýðingunni. Það er með hreinum ólíkindum. Ef til vill stafar það af þekkingarleysi gagnrýnandans á frummálinu, ungversku, en fyrr má nú aldeilis vera. Ég vona að Hjalti verði aftur tilnefndur til Íslensu þýðingaverðlaunanna en í fyrra var hann tilnefndur fyrir aðra stórgóða bók, Örlögleysi eftir Nóbelsverðlaunahafann Imre Kertész. Megi Hjalti þýða sem mest á komandi árum. Höfund Feigðarflans langar til að tilfæra hérna stuttan kafla úr bókinni:

Þú varst ættingi Chopins, þú varst stoltur og einn út af fyrir þig. En djúpt í sál þinni þrengdi að þér krampakennd tilfinning, þrá eftir því að vera annar en þú ert. Þetta er mesta bölvun sem örlögin geta búið nokkrum manni. Þráin eftir að vera öðruvísi en við erum; sársaukafyllri þrá brennur ekki í brjósti nokkurs manns." (106)

Næst lá leiðin um Jón á Bægisá, nýútkomið tímarit þýðenda, að ljóðabók Gylfa Gröndal, Eitt vor enn? Eins og spurningarmerkið gefur til kynna er Gylfi ekki viss um að fá eitt vor enn enda glímir hann við erfitt krabbamein. Látlaus og hreinskilin ljóð Gylfa snertu mig og í rauninni hlýtur það að vera mikill sigur fyrir mann í hans stöðu að koma frá sér vitrænni setningu, hvað þá býsna vel ortum ljóðum.

Veislan hélt áfram og nú fór hún fram á Grænlandi. Ég var kominn í Hrafninn eftir Þingeyringinn Vilborgu Davíðsdóttur sem hefur sérhæft sig í ritun sögulegra skáldsagna frá miðöldum. Hér nemur hún ný lönd hvað efniviðinn varðar en kannski síður hvað formgerðina snertir. Sagan af inúítastúlkunni sem verður fórnarlamb hastarlegrar menningar hreif mig og hélt mér vel. En þegar ég var hálfnaður barst mér í hendur glæný bók frá Háskólaútgáfunni, Listin að lesa eftir Árna Bergmann. Ég fór að glugga í hana og viti menn, ég gat ekki hætt fyrr en ég var búinn. Þetta er í rauninni sjálfsævisaga á óvenjulegu plani. Í afar læsilegum texta rekur Árni líf sitt sem bókaormur allt frá ungum aldri til þessa dags. Og fyrir annan bókaorm var þetta afar áhugaverð lesning því Árni er gríðarlega vel lesinn og stálminnugur, næstum of minnugur, og því getur hann tínt til alls kyns upplýsingar til þess að ylja lesandanum. Yfirsýn hans og vitsmunir gera honum líka kleift að hefja sig yfir stund og stað, strauma og stefnur.

Árni fjallar m.a. um breytta tíma á bókamarkaði, nú sé mest um vert að græða á útgáfu bóka. Markaðskrafan gerir snjalla bók sem ekki selst vonda og lélega bók góða ef hún fer í metsölu. Með meiri arðsemiskröfum eykst þrýstingur á höfunda í þá veru, að þeir leggi sig sem mest eftir því sem selst á hverjum tíma - hverfi til dæmis frá bókmenntalegri tilraunastarfsemi en bæti inn í verk sín meiri grimmd, meira ofbeldi, hatrammara kynlífi - hvort sem nú höfundarnir sjálfir hafa áhuga á slíkum hlutum eða ekki" (60). Þarna hittir Árni naglann á höfuðið. Íslenskur höfundur nú á dögum þarf að teygja sig ansi langt í áttina að miðstreyminu til þess að eiga möguleika á sölu.

Árni fjallar líka um þá tilhneigingu íslenskra lesenda að lesa skáldskap sem sjálfsævisögu, nokkuð sem er höfundi Feigðarflans hugleikið enda hefur honum iðulega verið ruglað saman við söguhetjur sínar. Um þá lestraraðferð segir Árni m.a.: Hún dregur skáldskapinn niður með því að hlaupa yfir sjálfan galdur sköpunarferlisins, láta sér sjást yfir það, með hve róttækum hætti efniviðurinn ummyndast á leið sinni inn í bókmenntirnar" (111).

 
Bónusvæðing 5.1.2006
   

Sigurður Gylfi Magnússon, sagnfræðingur, skrifar afar þarfa ádrepu í Lesbók Morgunblaðsins sl. laugardag og viljum við í Græna húsinu endilega vekja frekari athygli á henni enda kemur þar ýmislegt fram sem bókabransinn þyrfti að íhuga. Í kafla sem heitið Bónusvæðing bókamarkaðar" segir Sigurður Gylfi m.a. að þróun fjölmiðlanna hin síðari ár hafi skapað vaxandi gjá milli fólks og fræða. Því má reyndar bæta við að gjá hefur líka myndast milli fólks og svokallaðra fagurbókmennta.

Sigurður Gylfi heldur því fram að Bónusvæðingin hafi haft margar slæmar afleiðingar. Hún hafi bæði leitt til þess að bókabúðum fækkaði og að bókaverð hækkaði svo hægt væri að gefa þann mikla afslátt sem Bónus fer fram á. Þá hafi þetta leitt til þess að salan færðist á færri titla en áður, forleggjarar hafi farið að keyra á" ákveðna titla og höfunda sem örugglega mundu seljast. Þannig hafi glæpabókaæðið" orðið til.

Um þátt fjölmiðla í þessu segir Sigurður Gylfi: „Fjölmiðlarnir láta undan kröfu bókaforlaganna og fjalla nánast eingöngu um verk sem eru bæði auglýst og á metsölulistunum. Einyrkjar og smærri bókaforlög eða fjárhagslega veikburða fyrirtæki verða undir í þessari baráttu og eiga sér nánast engrar uppreisnar von. Lesendur frétta ekki af verkum þeirra sem eiga sér fáa formælendur í fjölmiðlum. Og menningarrýnar bregðast skyldu sinni við að fjalla um þetta ástand. Fræði og vísindi missa þar með tengslin við fólkið í landinu," segir Sigurður Gylfi í Lesbókinni.

Við hjá Græna húsinu erum hugsi yfir mörgu af því sem Sigurður Gylfi hefur fram að færa og óttumst að margt eigi við rök að styðjast. Víst er að flestir ?alvarlega þenkjandi" höfundar eiga á brattann að sækja á bókamarkaði og gildir þar einu hvort um er að ræða ljóðskáld, prósahöfunda eða fræðihöfunda, svo ekki sé nú talað um þýdda höfunda. Kannski er Bónusvæðingunni að einhverju leyti um að kenna. Hjá Bónus er a.m.k. fyrst spurt að því hvort titlarnir verði auglýstir almennilega og ef svo er ekki er lítil von til að þeir hreyfist þar, jafnvel þótt þeir hafi fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Í bókabúðum Pennans virðist kúnnahópurinn hins vegar hugsa svolítið öðruvísi og taka eitthvert mið af bókmenntalegu gildi. Af þessu getur hver sem vill dregið sínar ályktanir.
 
Tveir herrar 28.12.05
   

Í Mattheusarguðspjalli segir að enginn geti þjónað tveimur herrum, annaðhvort hati hann annan og elski hinn eða þýðist annan og afræki hinn. „Þér getið ekki þjónað Guði og mammón."

Einhvern veginn talar þessi texti sérstaklega til bókaútgefandans sem á svo mikið undir því að bækur hans seljist í tilefni af fæðingu Guðssonarins. Hlutskipti útgefandans er að þjóna listagyðjunni en jafnframt verður hann að þjóna mammón ef hann ætlar að lifa af sem fyrirtæki. Stundum virðist sem hér gildi það sem guðspjallamaðurinn segir: Þetta tvennt sé ósamrýmanlegt, mammon og fagrar listir fari ekki saman enda keppast allir útgefendur við að gefa líka út bækur sem ekki tilheyra þeim flokki. Svo er auðvitað spurning hvort eitthvert raunverulegt pláss er fyrir Guð í jöfnunni en því verður hins vegar ekki neitað að hér er hann markaðsstjóri par excellence. Segja má að þessi markaðsstjóri hafi gert orðið að holdi.

Við hjá Græna húsinu þurfum ekki að kvarta, bókunum okkar hefur verið afar vel tekið eins og sjá má hér á þessari heimasíðu. Að okkar mati hefur tekist að þjóna tveimur herrum án þess að afrækja annan eða knékrjúpa fyrir hinum og því siglum við seglum þöndum inn í nýtt ár.

 

       
       
       
   

 

   

 

   
       

 

 
 
 
   
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538