Kápþing Bank – leikrit í fimm þáttum með happy ending 21.2.2007

Það er ekki sama hvaðan horft er á heiminn. Því fékk ég að kynnast þegar ég sem örhluthafi dreif mig á aðalfund Kaupþings í síðustu viku. Í lok 20. aldar hafði ég gengið stystu leið út í næsta banka, sem reyndist vera Búnaðarbankinn, og keypt á yfirdrætti í einhverjum sjóði, sem mér var sagt að væri með neikvæða ávöxtun, til að fá skattaafslátt eins og þá tíðkaðist. Með einhverjum tilfæringum urðu þau bréf að hlutabréfum í Kaupþingi og hagnaðurinn sýnilegur í úrvalsvísitölunni daglega. Það má segja að ég hafi fengið fyrir yfirdráttarvöxtunum í það skipti en þeir voru reyndar ekki jafn háir og núna.

Aðalfundurinn var haldinn í Borgarleikhúsinu. Þegar ég kom í anddyrið blöstu við mér ungir og miðaldra karlmenn sem minntu mig á mormóna. Þeir voru nefnilega allir snyrtilega klipptir og klæddir eins konar einkennisbúningum, dökkgráum jakkafötum og oft ljósbláum skyrtum og svo auðvitað snara um hálsinn. Þeir lögðu sig allir í líma við að koma séntilmannlega fyrir, já og umfram allt eins og sigurvegarar. Stöku dama slæddist inn, óaðfinnanlega klædd og snyrt, og var heilsað afar kurteislega. Allir voru með vel skilgreinda jaðra, ekki óljósa og óreiðukennda eins og algengt er um listafólk.

Leikritið sjálft var sýnt í stóra salnum og fór fram á ensku. Það voru á fjórða hundrað áhorfenda í salnum og fóru með um 64% atkvæða ef ég man rétt. Ég veit ekki hvað ég fór með mörg milliprósent af þeirri tölu en nóg samt til að mega rétta upp hönd ef svo bar undir. Meðan á fundinum stóð var aldrei neinn á móti rétt eins og við værum stödd í Sovétríkjunum sálugu. Sjálfur sat ég hjá þegar svimandi há launakjörin voru afgreidd, hafði ekki kjark til þess að vera á móti.

Sviðsmyndin var einföld og stílhrein. Leikendurnir sátu við tvö borð og á milli þeirra var púlt. Við borðin sátu stjórnendur bankans og minntu mig á lærisveinana. Sá sem lék frelsarann hét Sigurður Einarsson og steig hann fljótlega í pontu og hélt sína fjallræðu.

Það var kyndugt að heyra frelsarann flytja ræðuna á ísl-ensku, rúlla errunum og hlaupa yfir atkvæði í erfiðum orðum eins og adversity. Ég velti fyrir mér af hverju hluthöfunum þótti þetta trúverðugra en að tala á lýtalausri íslensku (og birta þýðingu á skjá) og voru til í að treysta manni sem talaði bjagaða ensku fyrir milljörðum (hann talaði um billions í annarri hverri málsgrein). Sjálfur sagði hann að ekki þyrfti að útskýra hvers vegna fundurinn færi fram á ensku. Hann fór yfir það sem hann kallaði krísuna þegar erlendir bankar eins og Den Danske Bank birtu heimsendaspá um íslensku bankana. Var honum greinilega mikið niðri fyrir hvað Danina varðar og lét þess getið að ekki hefðu allir tekið samkeppninni fagnandi þar í landi. En út úr   þessari krísu kom bankinn sumsé með meiri hagnað en nokkru sinni fyrr og kallaði Sigurður það stunning success.

Harðastur varð tónninn í Sigurði þegar hann svaraði gagnrýni um að bankinn hlunnfæri íslenskan almenning með háum yfirdráttarvöxtum. Til að svara svo ósvífinni gagnrýni upplýsti hann okkur hluthafana um að einungis 3% af hagnaði bankans kæmu úr viðskiptum við 75 þúsund einstaklinga og 15 þúsund örfyrirtæki. Bankinn græddi sumsé bara skitna 3 milljarða á þessu auma liði. En munaði bankann þá nokkuð um að sleppa þessum hagnaði hérlendis fyrst hann var svona lítill í heildarmyndinni? Hví ekki að leyfa fólkinu sem gerði bankanum kleift að hefja útrás að njóta ávaxtanna? Ekki hef ég sem hluthafi gert kröfu um 20% yfirdráttarvexti og að bankinn græði að lágmarki 3 milljarða á svo fáum og smáum viðskiptavinum.

Þegar farið var yfir ársreikninginn komu ævinlega fram tölur sem voru miklu hærri en árið áður, hvergi var samdráttur eða bakslag heldur ný met slegin í hverjum lið, og yfir þessu öllu var botnlaus sigurtilfinning. Ég velti hins vegar fyrir mér hvers vegna allur þessi auður virðist ekki skila sér í aukinni andlegri auðlegð íslensku þjóðarinnar, t.d. í stórauknum bóklestri. Það var hins vegar húsfyllir í stóra sal Borgarleikhússins á þessari síðdegissýningu á Kápþing Bank, leikriti í fimm þáttum með happy ending.

rhv

   
Gengið í Barndóm, vikið að Vansæmd 9.3.07

Það vill kannski gleymast að þýðendur eru ekki bara flutningabílstjórar sem flytja texta á milli mála, heldur eru margir þeirra líka bókmenntalegar leitarvélar sem svipast stöðugt um eftir verkum til að koma á framfæri við íslenska lesendur. Það gleymist líka stundum að þýðingar bókmenntaverka eru ekki bara vinna til að hafa fyrir salti í grautinn, það þekkjum við á mínu heimili, heldur fela þær í sér ástríðu gagnvart tungumálinu og bókmenntunum; fyrir marga þýðendur felst helsta kikkið í því að koma á framfæri bókmenntaverkum sem þeir hafa hrifist af og hafa jafnvel breytt lífi þeirra. Eins og alltaf þegar eitthvað stórbrotið gerist í lífi manns vaknar þörf fyrir að deila því með öðrum; enginn atburður hefur gerst að fullu fyrr en maður hefur sagt mömmu frá honum. En um leið og búið er að segja mömmu frá er hún ekki söm, hún hefur orðið fyrir áhrifum.

Ágætur íslenskur rithöfundur sagði við mig fyrir nokkrum árum: Þetta er það sem maður hefur verið að lesa, og átti þá við þýðingar (reyndar þýðingarnar mínar, en það skiptir ekki máli!). Á bak við hvern íslenskan höfund er því slatti af þýddum bókum sem hver og ein hefur sín áhrif og sumar meiri en aðrar. Og þó að Íslenska bókmenntasagan sem MM gaf út hafi sniðgengið þýðingar er næsta víst að lesa má íslenska þýðingasögu í gegnum hana að einhverju leyti, þ.e.a.s. í gegnum áhrifin sem þýðingar höfðu á íslenska rithöfunda; ekki var módernisminn íslensk uppfinning, hvað þá póstmódernisminn eða aðrir þeir ismar sem einkenndu 20. öldina. Þann beina skort á umfjöllun um þýdd skáldverk sem svo mjög hefur verið til umræðu frá því í haust má m.a. rekja til þess að íslenskir bókmenntafræðingar hafa til skamms tíma ekki fengið neina þjálfun í að fjalla um þýðingar. Þá vantar áhöld og orðaforða til þess að gera þeim skil. Umsagnir gagnrýnenda um þýðingar, oft í framhjáhlaupi í formi innskotssetningar eða lýsingarorðs, bera vott um þetta: Þýðingin virðist vel heppnuð, þýðingin virkar vel, þýðingin er vönduð, og stundum er þá bætt við að þetta sé sagt án þess að samanburður hafi verið gerður á þýðingu og frumtexta, þýðingin er smekkleg og á góðu máli, er sagt, það er eins og bókin hafi verið samin á íslensku. Allt eru þetta yfirborðslegar athugasemdir þó að vel meintar séu og út úr þeim skín nánast hrópandi skortur á meðvitund um þýðingafræði, um aðferðafræði þýðandans og þýðingaferlið. Með tilkomu sérstakrar námsbrautar í þýðingafræði við Háskóla Íslands ætti þetta að breytast smátt og smátt og í rauninni ætti grunnnámskeið í þýðingafræðum að vera sjálfgefið námsefni fyrir alla bókmenntafræðinema.

Eins og Walter Benjamin benti á í frægri ritgerð, Die Aufgabe des Übersetzers", Verkefni þýðandans", þá er tvíbent að lofa þýðingu fyrir að hún sé eins og frumtexti. Sumar af þeim athugasemdum sem ég tíundaði áðan fela í sér beina kröfu um að þýðingin sé eins og frumtexti, að þýddi textinn sé nánast eins og hann hafi verið saminn á íslensku, ekki síst það að þýðingin sé auðveld aflestrar og á góðu máli. Og satt að segja virðist mér sem þýddur texti sé oftastnær metinn af sjálfum sér, hann sé sjaldnast borinn saman við frumtextann og sé fyrir bragðið lesinn eins og íslenskur frumtexti. Þar með fylgir þýðingunni sama krafa og gerð er til texta sem er frumsaminn á íslensku, að hún fylgi viðteknum venjum um gott mál, jafnvel betur en texti sem er frumsaminn á íslensku því annars er hætta á að hún þyki hafa svokallaðan þýðingarbrag (sé á þýðlensku) eða að lesandanum finnist sem þýðandanum hafi brugðist bogalistin. Þá eru stundum tínd til dæmi um kauðalegt orðfæri og stirðbusalegt, einkum ef þýðandinn hefur ekki getið sér orð eða þykir umdeildur.

Krafan um að þýddur texti sé á góðu íslensku máli og hljómi eins og hann sé frumsaminn á íslensku, sem hann er náttúrlega í vissum skilningi því þýðingin er frumsamin - þessi krafa er auðvitað skiljanleg og jafnvel í hæsta máta réttlætanleg. En ef hún gengur of langt fær þýðandi helsti lítið svigrúm til þess að athafna sig og koma á framfæri stíleinkennum frumtextans. Þetta getur t.d. átt við um málsnið; maður finnur að í heimi þýðinga er veitt mikið viðnám gegn talmálslegu orðfæri eða slangri sem í seinni tíð felur í sér slettur eða hálfslettur. Maður er ekki pirraður í þýðingu, maður er gramur, maður er ekki sjokkeraður heldur miður sín, maður meinar ekki neitt heldur á við eitthvað. Þarna er pressan meiri á þýðandann en þann sem frumsemur, það þekki ég af eigin raun, og hjá okkur á þessu litla málsvæði spila inn í hugmyndir um málverndun, þ.e.a.s afstaðan til málsins. Þrýstingur af þessu tagi getur leitt ístöðulausan þýðanda út í vissa tegund fölsunar, því eins og mætur maður sagði einu sinni við mig þá er þýðing sem er betri" en frumtextinn vond þýðing. Walter Benjamin fannst að maður þyrfti að geta séð frumtextann í gegnum þýðinguna, þýðingin mætti ekki vera eins og hula yfir frumtextanum eða varpa skugga á hann. Það er ekki þar með sagt að þýðingin þurfi að fylgja frumtextanum frá orði til orðs, málið er margslungnara en það því orðrétt þýðing eða bókstafsþýðing þarf ekki að vera og er kannski sjaldnast besta leiðin til að spegla frumtextann. Bæði eru takmörk fyrir því hverju hægt er að bjóða íslenskum texta, auk þess sem orðrétt þýðing mundi í flestum tilfellum leiða til skringilegs texta og væri þar af leiðandi langt frá því að vera eitthvert jafngildi frumtextans. Hér þarf innsæi og mat að koma til í hverri einustu setningu: Hvað er eðlilegur annarleiki og réttlætanlegur og hversu mikið umburðarlyndi hefur íslenskur lesandi gagnvart slíku? Oftast er frumtextinn ekki settur saman úr annarlegum setningum eingöngu, ja nema hann sé eftir Derrida kannski. Hér koma skírskotanir orðanna mikið við sögu, svo og samhengi, en einnig hrynur íslenskunnar og hefðir. Walter Benjamin bendir á það að ?Brot" á þýsku er ekki það sama og ?pain" á frönsku þó að bæði vísi orðin til brauðs; þau hafa sitthvora skírskotunina. Og það er skírskotunin sem er sérstaklega mikilvæg hér og gerir manni mjög erfitt fyrir að þýða yfir á annað mál en móðurmálið. Orðaleikir eru annað dæmi um vandann að þýða orðrétt: til að þýða orðaleiki þarf iðulega að víkja frá upprunalegri merkingu. Þá getur samhengi líka sett strik í reikninginn og eins og Sigurður A. Magnússon benti á fyrir mörgum árum (Lastari lítur í bók") er ekki alltaf hægt að nota sömu þýðinguna á sama orðinu í mismunandi samhengi. Merking orðanna er ekki stöðug heldur getur sama orðið vísað í margar áttir eins og ég kem betur að síðar.

Málið snýst kannski um það af hverju skuli taka mið þegar þýtt er. Ég hef reynt að sýna fram á hvernig íslenski bókmenntaheimurinn kallar á að þýddi textinn sé hafður í hávegum, þ.e. að þýðingin sé íslenskuð ef svo má að orði komast, sem felur í sér að íslenski bókmenntaheimurinn beri miklu meiri virðingu fyrir hegðunarmynstrum íslenskunnar en anda hins erlenda verks. Ef of langt er gengið í þeim efnum getur það leitt af sér staðfærslu fremur en þýðingu, lygi fremur en sannleika. Sumir mundu segja að þetta væri spurning um vald þýðingarmenningarinnar, sem þýðandinn er jú hluti af og framleiddur af. #Bakgrunnur þýðandans hlýtur því að skipta máli, af hvaða sauðahúsi hann er. Þess vegna undrast ég hversu lítið hefur verið rætt um atriði eins og kyn þýðandans hérlendis í allri kynjaumræðunni. Einu sinni lenti ég í viðtali við blaðakonu á DV í tilefni af útkomu þýðingarinnar Túlkur tregans eftir indversk-bandarísku skáldkonuna Jhumpu Lahiri. Blaðakonan spurði: „Er það tilviljun að þú þýðir svo margar bækur eftir konur?" Ég svaraði að ég þýddi bækurnar af því ég heillaðist af þeim og konur næðu gjarnan einhverri mýkt í frásögn sína og stíl sem sé sjaldséðari hjá okkur körlunum. Þá kom þessi gullvæga spurning frá blaðakonunni: Ræður þú þá nokkuð við þýðingar á verkum kvenna?"

Síðan hef ég ekki þýtt skáldverk eftir konu.

Ég verð að játa að spurningin kom mér í opna skjöldu. Ég hafði ekki leitt hugann mikið að samspili kyns og þýðingar og datt ekki í hug að það gæti verið vandkvæðum háð. Ég man að ég sagðist ekki vilja trúa því að maður yrði að einskorða sig við sitt eigið kyn sem þýðandi, þýðandinn væri eins konar umskiptingur. Síðan hef ég velt þessu nokkuð fyrir mér og rifjað upp orð Guðbergs Bergssonar þess efnis að í hverjum karlmanni búi lítil kona. Ég rifjaði líka upp að sumum rithöfundum tekst betur en öðrum að búa til persónur af gagnstæðu kyni. Nú á tímum mótunarhyggju er líka nærtækt að líta svo á að kyngervið og kynhlutverkið sé að miklu leyti tillært; um leið og maður læri að vera karlmaður læri maður líka að vera ekki karlmaður og öfugt, rétt eins og merking orða er háð andstæðu sinni, sbr. heitt og kalt, mjúkt og hart. Ég get alveg viðurkennt að ég er ekkert alltof vel inni í orðaforða um fatnað eða matargerð en á hinn bóginn er ég ekki heldur vel að mér um bíla eða viðskipti. Það eru til margs konar karlmenn og ég er ákaflega fjarri hugarheimi sumra þeirra. En ég hika ekkert við að leita ráða, hvort sem það er um saumaskap eða bílaviðgerðir. Og svo velur maður sér auðvitað verkefni við hæfi, eða reynir það.

Hitt er svo annað að stöðu þýðanda gagnvart frumtextanum hefur iðulega verið líkt við stöðu konunnar gagnvart feðraveldinu. Þýðandinn sé óæðri og verði að lúta frumtextanum. Einnig er hægt að líta svo á að textinn sé í stöðu innflytjanda; við viljum að innflytjandi lúti íslenskum lögum og reglum en höfum minni áhuga á fortíð hans. Eins og ég sagði áðan virðist staða þýðandans á Íslandi, þó að hann falli vissulega í skuggann af frumhöfundinum, vera að sumu leyti æðri, svo mikið vald vill íslensk menning hafa yfir áferð hins þýdda texta. Íslensk   menning hegðar sér hér eins og karlpungur eða eins og herraþjóð.

Sjálfur hef ég lagt mesta áherslu á að reyna að ná andblæ hvers verks eins vel og ég get, vera trúr því andrúmslofti sem ríkir í hverri bók fyrir sig. Hvernig andrúmsloft í texta verður til er flókið mál sem varðar setningagerð, hrynjandi, stíl, tón og blæbrigði orðanna sem notuð eru. Til þess að ná þessu öllu þarf þýðandinn að finna leynidyr að textanum hjá sjálfum sér, eins og Guðbergur Bergsson orðaði það í síðasta fyrirlestri í þessari röð. Þýðandi er þá háður því hver hann er. Og hver er hann? Maður er það sem maður étur er stundum sagt, maður er summan af þeirri næringu sem hann hefur innbyrt. Viðtökufræðin, sem fást við það sem gerist í lesandanum, segja okkur að þessi summa móti að verulegu leyti viðbrögð manns við texta og þar sem þýðing er eins konar túlkun má ætla að þýðingin litist af því hver þýðir, auk þess sem ríkjandi hugmyndafræði tali í gegnum hann. Enda er það svo að tveir menn þýða aldrei sama textann eins. Þar sem kynið býr til ákveðnar forsendur líka hlýtur að skipta einhverju máli af hvoru kyninu þýðandinn er og þá einkanlega hvort hann er af sama kyni og höfundur frumtextans. Eða hvað? Dostojevskí hefur aðallega verið þýddur af konu á íslensku, sama er að segja um Kazuo Ishiguro, en kannski er minna um að karlþýðendur hafi tekið kvenhöfunda upp á sína arma, ég veit það ekki. Þó þýddi karl Hús andanna eftir Isabel Allende svo stakt dæmi sé nefnt.

Ef kynið skiptir máli, er nærtækt að spyrja næst hvort þjóðerni skipti máli, því hvort tveggja markar jú sýn okkar á heiminn; útlendingur er öðruvísi rétt eins og karl og kona eru frábrugðin hvort öðru. Hvernig finnur maður leynidyr að texta suður-afrísks höfundar sem er hálfur Búi, kynslóðinni eldri og alinn upp við aðskilnaðarstefnu? Hvernig finnur maður leynidyr hjá sjálfum sér að texta eftir kínversk-ameríska konu, indversk-ameríska konu, svo ég vísi til fyrri þýðinga minna? Býr lítill Indverji í mér? Jón Indíafari er að vestan eins og ég, hjálpar það? Þetta er spurning um að þýða það sem er öðruvísi, sem er annað, þetta er spurning um samspil miðju og jaðars. Hvor menningin er þá annarleg, menning frumtextans eða menning þýðandans? Það er náttúrlega háð sjónarhorninu; sú útlenda er annarleg, en þó misannarleg.

Fræg er sagan af mannfræðingnum sem fór inn í Afríku og reyndi að segja höfðingjunum í þorpinu söguna af Hamlet. Þegar hún var búin að segja söguna, og þeir að túlka, var orðinn til allt annar Hamlet en sá sem Shakespeare lagði drög að. Hvað gerist þegar maður eins og ég reynir að fara hina leiðina og þýða suður-afrískar sögur yfir á mál norræns lands? Verða uppsveitir Suður-Afríku þá að uppsveitum Árnessýslu, þeldökkir bændurnir að veðruðum íslenskum kúarektorum?

Þetta eru fjandi erfiðar spurningar og ef satt skal segja er ég skíthræddur við svörin. Ég hef aldrei komið til Kína, aldrei til Indlands, en ég hef aftur á móti dvalið langdvölum í Bandaríkjunum. Og þegar ég var að leggja lokahönd á fyrri þýðinguna eftir Coetzee sendi Guðrún konan mín mig óvænt til Höfðaborgar eins og ég hef sagt frá á öðrum vettvangi. Það hjálpaði en gerði mig ekki að Búa. Ég hitti ekki einu sinni Coetzee; hann forðaði sér viku áður en mig bar að garði. En ferðin tók kannski úr mér mesta framandleikann og léði mér nokkrar tengingar við efnið sem ég var að þýða. Ég vissi t.d. hvernig borgin lá undir Borðfjallinu, sá kofabyggðirnar sem fjallað er um í Vansæmd og sá skrifstofuna og háskólann þar sem Coetzee kenndi og skrifaði a.m.k. hluta af bókunum, fékk tilfinningu fyrir gjaldmiðlinum, kynþáttunum og menningunni, að svo miklur leyti sem bjagað augnaráð túrhestsins leyfir. Nú er þetta orðið svolítið margslungið allt, ég veit ekki hvort ég þýði neitt meira . . . Byrjum upp á nýtt.

Haustið 1999 var ég staddur í Lundúnum í bókmenntalegri pílagrímsför. Ég man að ég stóð lengi yfir rekka í einni af hinum frábæru bókabúðum borgarinnar þar sem gat að líta bækurnar sem tilnefndar höfðu verið til Bookerverðlaunanna það árið. Ég þreifaði á þeim, las aftan á þær og velti fyrir mér hvort ég ætti að kaupa einhverja þeirra. Sérstaka athygli vakti kápa með mynd af hundi í auðnarlegu umhverfi. Það var eitthvað nöturlegt við þá kápumynd: horaður hundur sem horfir niður eftir móbrúnum malarvegi, mannlausum. Ég hafði aldrei heyrt minnst á höfundinn og hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að bera nafnið hans fram. Á endanum fór það svo að ég keypti enga hinna tilnefndu bóka heldur ákvað að bíða þangað til verðlaunin yrðu afhent.

Bókin með hundinn bar að lokum sigur út býtum og varð höfundurinn með skrýtna eftirnafnið þar með fyrstur til þess að hljóta þessi eftirsóttu verðlaun í tvígang. Ég pantaði bókina undireins. Þegar hún barst mér í hendur nokkrum dögum seinna var ég á leið í kennslu en gat þó ekki stillt mig um að kíkja aðeins í hana. Ég var svo gagntekinn að ég stoppaði ekki fyrr en ég var búinn með þriðjung bókarinnar og kennsluundirbúningi stefnt í voða. Þegar ég hafði lokið við að lesa bókina hringdi ég svo ég Snæbjörn hjá Bjarti og hann var fljótur að ákveða sig. Þá var neon-bókaklúbburinn nýstofnaður og þetta varð fyrsta bókin af fjórum sem ég hef þýtt fyrir þann klúbb.

Eins og ég hef áður sagt: Framandleikinn leyndi sér ekki frá fyrstu stundu: Ég kunni ekki einu sinni að bera nafn höfundarins fram. En það verður að viðurkennast að ég er framandleikans fíkill, en það er eðli framandleikans að um leið og maður kynnist honum hættir hann að vera framandlegur og því þarf fíkill stöðugt að leita nýs framandleika.

Hér má kannski skjóta inn í að ég lenti í útvarpsviðtali um þetta leyti þar sem ég lýsti eftir fólki sem gæti leiðbeint mér um framburð á nafni höfundarins. Nokkru síðar hringdi frændi minn Arnór Hannibalsson í mig og sagði mér að þetta nafn kæmi úr búamáli og væri borið fram Kútsíe. Ég fékk svo staðfestingu á þessum framburði frá höfundinum sjálfum síðar. [My surname is pronounced kut-see, with stress on second syllable. The first syllable is short and rhymes with "put" (British pronunciation)."]

Þegar þarna kom sögu hafði ég nýlokið við að þýða hið mikla verk Williams Faulkner, Light in August , sem ég leyfði mér af vissum ástæðum að kalla einfaldlega Ljós í ágúst . Það hafði tekið mig um tvö ár, með öðru að vísu, enda texti hans margslunginn og víða tyrfinn. Ég miklaði því ekki fyrir mér að fást við texta Coetzees. Hann skrifar jú stuttar og hnitmiðaðar málsgreinar. Samt var þetta ekki eins auðvelt og virtist í fyrstu því þýðandinn hefur þeim mun minna svigrúm sem málsgreinar eru styttri og hnitmiðaðri. Einkum gat félagslíf málsgreinanna orðið erfitt við þessar aðstæður, þ.e. að passa upp á að þeim félli hverri við aðra. Þetta var hins vegar einkum spurning um vinnu, ekki um óþýðanleika. Aftur á móti mætti ég óþýðanleikanum í öðru formi nokkru síðar. Þá tóku ýmsar menningarlegar skírskotanir að koma fyrir í textanum og einnig var talsvert um slettur úr afríkönsku enda er Coetzee tvítyngdur. Slettur af þessu tagi eru oft notaðar í bókmenntum gamalla nýlendna, þá til þess að gefa til kynna vissan annarleika. Stundum er álitamál hvort á að halda þeim eða þýða þær.

Ég fékk uppgefin netföng hjá Coetzee og barst nánast samstundis svar eins og alltaf þegar ég skrifaði honum. Þó að hann sé þekktur fyrir að vera durtur, sem hann ber raunar af sér, hefur hann greinilega gaman af að vinna með þýðendum og í fyrra birti hann einmitt grein í áströlsku dagblaði þar sem hann ræðir sambandið við þýðendur sína, já m.a.s. við þann íslenska.

Í greininni, Speaking in Tongues", segist hann hafa komist að raun um að meira að segja í gróðasamfélagi samtímans séu hroðvirknislegar þýðingar sjaldgæfar. Við þýðingar bókmenntaverka sérstaklega," segir hann, ?virðist hvötin til þess að gera sitt besta, jafnvel þó að ekki verði tekið eftir því, enn ríkja." Coetzee spyr sjálfan sig í greininni hvort það sé auðvelt eða erfitt að þýða bækurnar hans og svarar því til að setningu fyrir setningu sé textinn yfirleitt skýr. Hins vegar noti hann stundum orð sem séu hlaðin sögulegum þunga og þá frakt sé ekki auðvelt að flytja yfir í annað tungumál. Auk þess hafi hann tilhneigingu til að nota vísanir án þess að það liggi í augum uppi. Hann gerir síðan nokkra grein fyrir vandamálum einstakra þýðenda og eru þau ærið misjöfn sem bendir til þess að bakgrunnur þýðandans skipti verulegu máli.

Þegar ég renni yfir spurningarnar sem ég sendi honum - og þær skiptu tugum - sýnist mér að þær séu flestar menningarbundnar, þær vísi til atriða í textanum sem mér gekk erfiðlega að fá botn í sökum þess að ég var ekki innvígður í samfélagið sem textinn er sprottinn úr. Þar er um að ræða atriði eins og afríska goðafræði, afrískar plöntur, afrískar bókmenntir (en líka vestrænar), en jafnframt þurrar lýsingar á staðháttum, byggingum og framandlegum íþróttagreinum. Þá var töluvert um vísanir hingað og þangað sem ég þurfti að fá skýringar á, auk atriða sem varða kynþættina og sögu Suður-Afríku. Oftast lét ég fylgja með tilgátu og spurði hvort hún væri nærri lagi svo að hann vissi betur hvernig hann ætti að nálgast svarið. Ótrúlega oft reyndist ég vera á réttri leið. Í því felst kannski eitthvað um aðlögunarhæfni þýðandans sem og hæfileikann til að lesa á milli línanna og kannski segir það líka eitthvað um frumtextann: hann felur í sér ótrúlega margt af því sem lesandinn þarf á að halda. Það var samt gott að fá staðfestingu ef maður var á réttri leið og enn betra þegar spurningin leiddi til betri þýðingar, sem kom nokkrum sinnum fyrir þrátt fyrir allt og sýnir að alltaf verða til eyður í framandi texta eða kannski öllu heldur í framandi lesanda.

Til að veita ofurlitla innsýn í glímuna við þau atriði sem ég hef nú fjallað almennt um langar mig til að ræða aðeins um titlana á þeim tveimur verkum eftir Coetzee sem ég hef þýtt. Sú fyrri heitir Disgrace á frummálinu og getur titillinn vísað til margra hluta í bókinni, bæði fyrir og eftir aðskilnaðarstefnu, og jafnt til hvítu og svörtu mannanna. Ég ákvað eftir nokkrar vangaveltur að kalla hana Vansæmd fremur en t.d. Skömm eða Hneisa. Ástæðan er sú að ég vildi nota samsett orð sem fæli í sér afneitun á dyggðugu ástandi, þ.e.a.s. á grace eða sæmd. Titillinn felur í sér fall, hugsanlega með trúarlegri vísun þó að lítið sé gert úr því í bókinni, og sama er að segja um Vansæmd þó að þar leynist svolítil tilvísun í heiðnar bókmenntir. Það var að mér fannst mikilvægt að gefa til kynna að sæmd hefði áður verið fyrir að fara, enda hafði maðurinn verið prófessor við virtan háskóla.

Ekki voru gerðar athugasemdir á forlaginu þegar ég skilaði þýðingunni inn með þessum titli. Þegar kom að Boyhood nokkrum árum seinna var þó annað uppi á teningnum. Ég vildi kalla bókina Sveindóm en það féll ekki nógu vel í kramið hjá öllum á ritstjórninni. Þótti sumum sem í orðinu fælist fullmikil kynferðisleg skírskotun auk þess sem til væri íslensk skáldsaga með þessu heiti, en það setti ég raunar ekki fyrir mig enda langt síðan hún kom út. Mér var bent á að ef bókin héti Girlhood þá væri Meydómur ekki góð þýðing og gat ég svo sem ekki andmælt því. Öðrum fannst reyndar ekkert verra þótt í orðinu fælist þessi kynferðislega skírskotun auk þess sem hún væri afar væg. Því er þó ekki að neita að margir tengja orðið sveindóm við orðasambandið að missa sveindóminn. En er það nauðsynlegt? Sjálfur var ég ekki með þá skírskotun í huga þegar ég stakk upp á þessum titli. Ég vildi einfaldlega ná vísuninni til karlkynsins enda er talsvert komið inn á kyn söguhetjunnar í bókinni, þótt þær skírskotanir séu kannski ekki þess eðlis að titillinn eigi beinlínis að kalla fram hugrenningatengsl við kynlíf. Mér datt í hug að kalla bókina Svein og þá með hliðsjón af lausn þýska þýðandans sem kallar hana Der Junge . Eftir að mörg tölvuskeyti höfðu gengið á milli varð niðurstaðan sú að kalla bókina Barndóm og þá fyrst og fremst til þess að forðast sterka kynferðislega skírskotun; John missir jú ekki sveindóminn í bókinni. Ég gat því ekki annað en kímt þegar ég las ritdóm Björns Þórs Vilhjálmssonar um bókina í Morgunblaðinu: ?Kynbinding frásagnarraddarinnar er þó augljós í upprunalega titlinum, Boyhood, en tapast, og þar með tapast ákveðin gagnrýnin vídd, í kynlausri þýðingunni Barndómur." Það er aldrei hægt að gera öllum til hæfis. Þetta er líka gott dæmi um alla þá vinnu með skírskotanir sem fram fer þegar bók er þýdd og hversu mikil málamiðlun niðurstaðan getur orðið. Hér tók þýðingarmenningin eiginlega völdin en það góða við þetta er kannski að titillinn byrjar þá á sama bókstaf og upphaflegi titillinn. Auk þess er seinnihluti orðsins, dómur, nokkuð vel viðeigandi vegna þess að hér er Coetzee að fella eins konar dóm yfir bernsku sinni.

Eftir stendur spurningin sem skildi eftir hér áðan, um það að hve miklu leyti framandi menning verður flutt á milli málsvæða, sem er reyndar grundvallarspurning um eðli þýðinga. Að hve miklu leyti getum við sett okkur inn í framandi menningarheima? Hversu mikið er sammannlegt og hversu mikið er háð staðbundinni menningu? Hvernig fyllir maður upp í þær eyður sem eru í textanum og skapast af því að maður er ekki partur af nærsamfélagi höfundarins? Í mínu tilfelli reyndi ég að brúa bilið með ýmsu móti. Ég las fleiri verk eftir Coetzee til þess að kynnast betur viðfangsefnum hans og sagnaheimi, ég las gagnrýni um þau, bæði suður-afríska og erlenda, ég kynnti mér svolítið suður-afríska bókmenntasögu, ég gluggaði í verk annarra höfunda frá Suður-Afríku, ég las Mandela, ég las mér til um sögu landsins, ég hafði þýska þýðingu til hliðsjónar í seinna skiptið, ég fór til Höfðaborgar og síðast en ekki síst skrifaðist ég á við Coetzee. Afrakstursins gætir vissulega víða í þýðingunum, beint og óbeint, en til þess að hjálpa lesandanum enn frekar ákvað ég jafnframt að skrifa um báðar bækurnar, grein um Vansæmd en eftirmála að Barndómi . Margir höfðu á orði að skrifin hefðu lokið upp nýjum merkingarsviðum og þá kannski ekki síst í Barndómi þar sem lesa má stóran hluta af sögu landsins á milli línanna. Hér er gengið út frá því að hægt sé að skilja og þýða, a.m.k. að einhverju leyti, fyrirbæri sem maður hefur aldrei komist í kynni við, en um það hafa þýðingafræðingar svo sem deilt.

Eitt ráðum við þýðendur þó seint við. Það er breytingin sem verður á upplifun lesandans við það að fara yfir á móðurmál sitt. Textinn færist nær okkur, inn í okkur, og við það gerist eitthvað sem er svo djúpt í vitundinni, svo heilagt og svo nálægt kvikunni í okkur, að það litar alla upplifun af textanum. Það felur í sér allt í senn: að koma heim, að hvíla í traustum móðurfaðmi, að njóta ástkonu sinnar. Það felur í sér sjálfvirkni tungumálsins og skilningsins, skírskotanir orðanna koma fyrirvaralaust og auðvelda okkur lesturinn og þá ekki síst lestur tákna. Þessi breyting á upplifun lesandans er ein sterkasta röksemdin fyrir ástundun þýðinga. Texti á tillærðu máli getur aldrei keppt við móðurmálstexta, textinn á hinu málinu verður alltaf lesinn með hreimi enda á tillært tungumál sér önnur heimkynni í mannssálinni en móðurmálið. Aftur á móti getur þýddi textinn veitt upplifun sem er skyldari þeirri sem frumtextinn hafði á þann sem las hann á móðurmáli sínu. Þess vegna er það að þótt ævinlega tapist eitthvað í þýðingu, eins og oft er sagt, þá er ávinningurinn þeim mun meiri, a.m.k. þegar menn eins og Coetzee eiga í hlut.

Erindi Rúnars Helga Vignissonar á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, flutt 8.3 2007.

   
Vídalínspostilla 1.1.07

Ágætu kirkjugestir!

Trúarbrögðin hafa áhrif á okkur öll hvort sem við erum trúuð eða ekki. Birtingarmyndir þeirra eru allt í kringum okkur, í tónlist, myndlist og ritlist og sjálfur sé ég turninn á Vídalínskirkju út um gluggann á vinnustofunni minni. Ártalið er eitt lítið dæmi sem hefur þó býsna mikil áhrif á líf okkar, s.s. eins og á uppgjörið við skattheimtumanninn og á skjalasöfn minninganna. Rithöfundur og þýðandi kemst engan veginn undan trúarbrögðum því tungumálið er gegnsýrt tilvísunum til kristindómsins.

Sumir hafa furðað sig á því undanfarin misseri að ég skuli eiga til að staldra við sjónvarpsrásina Ómega og horfa jafnvel drykklanga stund á hana. Ég á það meira að segja til að vera dolfallinn yfir henni, nánast eins og ég hafi verið dáleiddur.

Það er erfitt að segja hvað heillar mig við þessa látlausu sjónvarpsrás. Kannski eru það persónuleikarnir sem þar birtast, menn sem virðast lifa sig algjörlega inn í það sem þeir eru að gera og boða. Kannski er það sú staðreynd að þeir eru ekki staðlaðir eða klæðskerasniðnir sjónvarpsmenn, heldur áhugamenn sem gera sitt besta til að koma hugðarefnum sínum á framfæri. Kannski er það tjáningarmátinn, hvernig fólkið reynir að setja hluti, sem blandnir eru þrautum og stundum óvild, fram með jákvæðum hætti. En líklega er það ekki síst sannfæring fólksins, það hversu laust það virðist við allan efa og visst um að málflutningur þess sé hafinn yfir tvímæli, sem heldur mér föngnum. Reyndar velti ég öðru hverju fyrir mér hvort fólkið sé í aðra röndina að reyna að sannfæra sjálft sig um gildi sinnar eigin sannfæringar, reyna að skapa samfélag jábræðra og systra til þess að losna undan nagandi efa. Því köllun þess gerir miklar kröfur og heimtar að það trúi á yfirnáttúruleg fyrirbæri sem vanalega er bara skrifað um í ævintýrum eða, svo við förum nær samtímanum, bókmenntum sem kenndar eru við töfraraunsæi.

Sú útbreiðsla fagnaðarerindisins sem Ómega stundar er liður í hnattvæðingu sem hófst næstum tvö þúsund árum áður en það hugtak varð þekkt. Þó að dagskrá stöðvarinnar geti eflaust talist ein tegund raunveruleikasjónvarps er það sem fyrir augu og eyru ber á þessari stöð oftar en ekki ofvaxið skilningi mínum. Það verður að segjast eins og er að mér gengur iðulega illa að setja mig inn í hugarheim þessa fólks, hann er svo langt frá minni barnatrú að hann verður framandlegur og allt að því yfirnáttúrulegur; óskiljanlegur.

Það óskiljanlega heillar og hræðir mann eins og mig sem hefur þann starfa að vinna úr hugmyndum og vill gjarnan sigla framhjá vanahugsun. En hið óskiljanlega er alls staðar í kringum okkur. Það varð t.d. á vegi okkar hjónanna þegar tengdamóðir mín var burtkölluð sl. vetur, langt um aldur fram að okkur fannst. Kona sem hafði alla tíð verið full af lífsþrótti, lifað heilbrigðu lífi, aldrei talið neitt eftir sér. Við héldum að hún yrði að minnsta kosti níræð og mundi kenna barnabörnunum okkar að fara með bænirnar sínar; nei, öllum að óvörum greindist hún með ólæknanlegan sjúkdóm og varð að játa sig sigraða að morgni 1. mars síðastliðins. Við stóðum skilningsvana yfir henni þar sem hún var nýskilin við: Hún var þarna en þó ekki. Ósjálfrátt leitar maður í sagnaarfinn til þess að fást við þetta: Lífið er undirbúningur undir það að vera dáinn mjög lengi, segir í frægri skáldsögu og í annarri að lífið sé hlé á dauðanum; við fæðumst klofvega yfir gröfinni, segir í einu Shakespearleikrinu, líf mannlegt endar skjótt, sagði Hallgrímur Pétursson, lífið er eitt andartak söng Rabbi heitinn. Öld eftir öld reynum við af öllu afli að skilja samhengið í þessu, en tekst það sjaldnast nema að litlu leyti hvað sem skólagöngu og fræðum líður.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Í sumarbyrjun fékk ég að fara með Guðrúnu konu minni í mikla ævintýraferð eftir hinum svokallaða Jakobsvegi eða Camino de Santiago, aldagömlum pílagrímavegi að leiði lærisveinsins Jakobs í borginni sem kennd er við hann, Santiago de Compostella á norðvesturhorni Spánar. Vegurinn liggur um undursamleg fjöll og firnindi og niður í gróðursæla dali með ládauðum vötnum sem virðast spegla guðdóminn sjálfan. Þegar minnst varir skjóta svo lítil þorp upp kollinum, hlaðin utan um hæð eins og í gömlu ævintýri; þar birtist streð mannanna í máðum hellum og mosagrónum veggjum, hlöðnum brúm frá tímum Rómverja og ekki síst í mannvirkjum með krossi og klukkuturni. Og þar býr fólk sem er afkomendur Rómverja, Mára og Baska og framreiðir dýrindismat sem rennur eins og sakramentið sjálft ofan í svanga maga. Og ekki vantar samferðamenn, þarna er fólk sem við hittum aftur og aftur, roskin hjón frá Hollandi, hópur af miðaldra Fransmönnum og einn daginn birtist svo ég sjálfur, rúmlega tuttugu árum yngri, í líki tvítugs Skota sem hefur ákveðið að veita sér þá manndómsvígslu sem Jakobsvegurinn er meðan unnusta hans dvelur í annarri heimsálfu. Hann er að vandræðast með gistingu um nóttina, það er komið kvöld og pílagrímarnir flestir búnir að finna sér náttstað. Yfirreddarinn í hópnum tekur hann upp á arma sína, fiskar upp farsímann og finnur að lokum gistingu á pílagrímaheimili (refugio) í nokkurra kílómetra fjarlægð. Við getum fengið kojurnar ef við verðum komin innan hálftíma. Það er ekkert sem heitir: Ungi Skotinn verður að sýna hvað í honum býr. Hann lætur ekki segja sér það tvisvar, vippar sér á hjólið og brunar af stað, nær strax nokkru forskoti.

Hvað átti miðaldra maður að gera þegar hann sá þessa ungu útgáfu af sjálfum sér bruna af stað upp næstu hæð? Átti hann að sætta sig við að vera hálfdauður úr öllum æðum og láta piltinn stinga sig af? Nei, hann var ekki tilbúinn að setjast í þann helga stein og mikil var undrun Skotans unga þegar hann leit um öxl og sá móðan karl rétt á eftir sér. Karlinn hafði nánast unnið upp forskotið og hélt að nú gæti hann fylgt unga manninum eftir án verulegrar áreynslu. En það var öðru nær, stráksi gefur undireins í, greinilega ekki ánægður með stöðuna, og það sem meira er, hann beygir af malbikinu og út á malarstíg sem vindur sig um holt og hæðir í gegnum skóg. Og alltaf þegar karlinn er við það að ná stráksa lítur hann um öxl og gefur í. Þeir puða og juða upp hverja hæðina á fætur annarri, eins og þeir séu í lífsbaráttunni sjálfri, svitinn bogar og í erfiðustu brekkunum er karlinn kominn að því að kasta upp. En þegar hann er helst á því að biðja sér griða hendist piltur skransandi niður bugðóttan stíginn og er von bráðar horfinn fyrir næsta runna. Og þar sem karlinn hefur ekki stúderað leiðina fyrirfram á hann einskis annars úrkosta en fylgja stráksa eins og leiðtoga lífs síns svo hann verði nú ekki strandaglópur einhvers staðar úti í buskanum og það ómælandi á spænska tungu. Þeir fara í gegnum pínulítið þorp og svo mikil er fartin á þeim að tveir gamlir menn sem eru að flytja eitthvað fyrirferðarmikið á gömlum hjólbörum stansa á miðjum veginum af ótta við að verða fyrir þeim.

Svona gengur þetta í hálftíma og sá eldri farinn að óttast að stráksi muni ganga af sér dauðum. En birtist þá ekki fyrirheitna þorpið í dalverpi, umgirt skógi vöxnum hlíðum á alla vegu, rétt eins og þeir séu komnir í Paradís. Og þarna er farfuglaheimilið á sínum stað utan í einni hæðinni og kojurnar ennþá fráteknar handa þeim í óloftkældum sal í hitanum. Þeir sættast á að þetta hafi verið góð keppni í anda Lance Armstrongs og unga útgáfan segist ekki hafa farið jafn hratt yfir alla ferðina.   Sú eldri er ánægð með það og iðar öll af nýfundnum lífselexír.

Í þessu þorpi voru ekki nema nokkur hundruð íbúar en þegar við hjóluðum út úr því morguninn eftir taldi ég þar fimm kirkjur, sumar allstórar.   Og satt að segja var leiðin öll vörðuð stórkostlegum kirkjum, í hverju þorpi, hverjum bæ og hverri borg var kirkja sem var þess virði að skoða. Þær mikilfenglegustu höfðu mörg ölturu og altaristöflurnar voru svo margbrotnar og íburðarmiklar að maður stóð dolfallinn, ógnarsmár andspænis slíkri sögu, slíkri tign. Og auðvitað gat maður ekki annað en hugsað um tilganginn með öllum þessum kirkjum. Hvers vegna sveittust kynslóðirnar við að koma upp eins glæsilegum mannvirkjum og kostur var til dýrðar þeim sem öllu ku ráða? Var þeirri orku vel varið? Ég get auðvitað ekki svarað því, en eftir því sem á ferðina leið og dýrðin varð sífellt meiri, þótti mér ýmist sem allar þessar íburðarmiklu kirkjur vitnuðu um fögnuð yfir lífinu eða örvæntingu andspænis hverfulleikanum; alltént vitnuðu þær um að fólk var tilbúið að leggja gríðarlega mikið á sig í von um að brúa hið ægilega bil milli hverfulleika og eilífðar, í von um að bægja frá ótta, í von um að öðlast sálarfrið sem gerði því kleift að njóta lífsins. Því það er jú óneitanlega ólíkt betri tilhugsun að líf okkar sé ekki jafn endanlegt og það virðist vera, að það sé ekki bara þetta andartak á jörðu og eina eilífðin sem við getum vænst sé fólgin í æxluninni.

Það sem ég veit um trúarbrögð segir mér að þau miði einatt að því að finna leiðir til að sannfæra okkur um að við lifum ekki bara hér og nú, að líf okkar hafi ekki þann eina tilgang að viðhalda stofninum. Þess vegna höldum við upp á sögur af mönnum eins og Jesú sem voru milliliðir milli hins jarðneska og hins yfirskilvitlega, milli hins skammæja og hins eilífa. Ég ímynda mér að það hvetji fólkið á Ómega til þess að halda úti sínu kynningarstarfi, það sé þetta sem hvatti fólkið á Spáni til þess að reisa ólýsanlega glæstar kirkjur, og hver veit, kannski hvatti þetta karlinn á reiðhjólinu til þess að láta ekki unga Skotann stinga sig af og segja sér með því móti að hann væri dauðanum vígður og mundi þá og þegar safnast til feðranna. Endanlegur dauði, nakinn og samhengislaus, er óbærileg tilhugsun fyrir lífsglatt fólk og hvetur það til dáða og leitar að tilgangi. En þegar halla fer undan fæti og einstaklingshyggjan verður að einangrunarklefa í ríkmannlegu fangelsi, þá er engin ósk heitari en að við, sem þó erum sérkennilegt sambland af miskunnsömum samverjum og miskunnarlausum rándýrum, getum treyst á vinveitt æðra vald, að við sem samfélag eigum okkur eitthvert hugmyndakerfi sem hjálpar okkur að fást við hinstu rök.

Þannig höldum við áfram eftir Jakobsvegi lífsins ár eftir ár, knúin af vitneskjunni um endalokin óumflýjanlegu sem þrátt fyrir allt eru skárri en eilíf jarðvist. Gleðilegt nýtt ár og góða ferð!

Pistilinn flutti Rúnar Helgi Vignisson í Vídalínskirkju 1. janúar 2007.

 

Missir á missi ofan 3.9.06

Ég var eiginlega á leið út úr hinni dásamlegu bókabúð Mcnally Robinson í Saskatoon þegar ég rak augun í bók með gylltum límmiða. Á honum stóð meðal annars: Winner - The GG's". Þetta er reyndar fangamark konunnar minnar og vissulega hefði ég tekið mark á meðmælum frá henni. En þar sem ég hafði þýtt bók eftir höfund sem fékk þessi verðlaun í fyrra vissi ég að þetta voru virtustu bókmenntaverðlaun Kanada, Governor General-verðlaunin eða landstjóraverðlaunin. Ég ákvað því að taka bókina með mér yfir á kaffihús bókabúðarinnar og kíkja betur á hana enda titillinn flottur: A Perfect Night to Go to China. Um höfundinn, David Gilmour, hafði ég aldrei heyrt en á bókarkápu var hann sagður þekktur sjónvarpsmaður í Kanada.

Ég keypti bókina.

Útúrdúr um sjálfstæði lesandans

Í framhaldi af þessu fór ég einu sinni sem oftar að velta fyrir mér sjálfstæði lesandans eða kannski öllu heldur meintu ósjálfstæði hans. Þarna hafði ég enn og aftur látið verðlaun freista mín. Ég næ reyndar ekki alltaf sambandi við þessar verðlaunabækur en það gerist þó æði oft sem er auðvitað ástæðan fyrir því að ég gef bókum sem hafa unnið til verðlauna sérstakan gaum. Samt veit ég að dómnefndir eru börn síns tíma og spegla oftar en ekki tískustrauma (og tískustraumar fara stundum í taugarnar á mér), fyrir nú utan að vera hluti af bókmenntastofnuninni svokölluðu sem er mörgum þyrnir í augum. Þar sem ég hef sjálfur setið í dómnefndum veit ég líka að óvæntir atburðir geta gerst í slíku starfi eins og öðru félagsstarfi. Ég veit jafnframt að þessar verðlaunabækur, eins og bækur Nóbelsverðlaunahöfunda, veðrast misvel. En er eitthvað að því? Er ekki eðlilegt að sumar bækur séu bundnari tíma sínum en aðrar? Og hvað vitum við svo sem hvað framtíðin ber í skauti sér?

?Þessi er voða vinsæll," sagði ísskápssölumaður við mig um daginn. Sams konar hjarðsölutrix eru notuð í bóksölu og margir taka mið af metsölulistum þegar þeir velja sér bækur. Ef marka má bókabúðir á Íslandi eru þessir listar mjög öflugt sölutæki því sumar þeirra skarta metsöluhillum á áberandi stöðum.

En hvort sem við tökum mið af verðlaunum eða metsölulistum við val á bókum, ráðleggingum vina eða bóksala, mennskra eða rafrænna, nú eða auglýsingum, þá erum við háð áliti annarra, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hversu oft kaupir maður bók sem maður hefur ekki heyrt neinn tala um? Hitt er svo annað að það er ekki endilega talað mest um bækurnar sem höfða mest til manns.

Það er sjálfsagt að reyna að brjótast úr þessum viðjum annað slagið. Fyrir þá sem lesa á ensku má t.d. benda á vefinn www.whichbook.net þar sem leita má að áhugaverðum bókum með því að gefa til kynna hvers konar bók maður vill, fyndna eða alvarlega, fyrirsjáanlega eða ófyrirsjáanlega, fallega eða ógeðslega, hefðbundna eða óhefðbundna, stutta eða langa og þar fram eftir götunum. Upp koma óvæntir titlar sem maður hefði kannski seint ratað á að öðrum kosti.

Kínaferð Gilmours

Ég hef ekki lesið bækurnar sem bók Davids Gilmour keppti við en í þetta sinn var ég nokkuð ánægður með hafa keypt verðlaunabók og seinna gerði ég mér aftur ferð í bókabúð og keypti þá aðra bók eftir Gilmour, Sparrow Nights , sem mér fannst ekki síðri þótt engin hlyti hún verðlaunin.

Efnisval Gilmours í A Perfect Night to Go to China kom mér á óvart og ekki af því það væri nýstárlegt, heldur vegna þess að bókin tekur fyrir svipað viðfangsefni og þekkt bók eftir Ian McEwan sem nýlega kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar undir heitinu Barnið og tíminn ( The Child in Time ). Bækurnar fjalla báðar um barn sem týnist. Þetta þótti mér satt að segja talsverð dirfska af David Gilmour, því þó að hér sé um martröð allra foreldra að ræða vilja menn ekki endilega bjóða upp á samanburð við höfund á borð við Ian McEwan.

Hjá Gilmour er atburðarásin á þann veg að Roman, faðir sex ára drengs, verður ber að dómgreindarbresti. Hann hafði sofið lítið og illa nóttina áður, verið rotinpúrulegur allan daginn og þegar hann er búinn að koma stráknum í háttinn um kvöldið heyrir hann tónlist frá nálægum bar. Roman er mikið fyrir lifandi tónlist og stenst ekki mátið að kíkja aðeins á barinn. Þar stendur hann einungis við í korter eða svo, en þó nógu lengi til þess að sloka í sig tvo bjóra. Þegar hann kemur heim aftur er sonurinn horfinn.

Ætli við gætum ekki flest verið sammála um að manninum hafi orðið á í messunni. Þó hafa flestir foreldrar eitthvað svipað á samviskunni, því enginn er fullkominn og rétt ákvörðun er afstætt hugtak, háð ótal breytum. Með smáheppni hefði Roman sloppið með skrekkinn eins og við höfum mörg hver komist upp með að syndga aðeins upp á náðina og sum miklu hressilegar en þetta. Og það gerir þessa atburðarás enn áhrifameiri; við fáum þarna tækifæri til þess að upplifa sammannlega martröð.

Gilmour dvelur í sjálfu sér ekki sérstaklega við hin veraldlegu eftirmál hvarfsins, leitina og samskiptin við lögregluna, heldur fjallar bókin að mestu leyti um þær sálrænu afleiðingar sem barnshvarfið hefur og þær eru umtalsverðar eins og vænta mátti. Um leið vakna spurningar um það hvers virði börnin eru okkur og hvaða hlutverki þau gegna í lífi okkar.

Sonartorrek

A Perfect Night to Go to China er lítil bók, einungis 179 síður í litlu broti, og hún virðist við fyrstu sýn vera fremur blátt áfram enda skrifar höfundurinn sérlega tæran og læsilegan stíl sem minnir einna helst á J. M. Coetzee. En þegar betur er að gáð má sjá að Gilmour notar óbeinar og allt að því lævíslegar aðferðir til þess að koma margslungnu sambandi föður og sonar til skila í þessari stuttu frásögn.

Í stað þess að freista þess að lýsa tilfinningum Romans á raunsæjan hátt, segja okkur hvernig honum líður, sýnir Gilmour okkur söknuð hans með því að notast við hliðstæður, vísanir og umfram allt drauma. Sagan er sögð frá sjónarhóli Romans og fjallar öðru fremur um barnsmissinn sem slíkan, ekki um þetta tiltekna barn, sem er í rauninni afar óljós persóna, heldur um það að verða á og missa son sinn fyrir vikið.

Við sjáum Roman berjast við að ná tökum á sínu daglega lífi í kjölfar missisins. Hann snýr aftur til vinnu sinnar sem þáttastjórnandi í sjónvarpi í þeirri von að vinnan beini huganum frá sonarmissinum. Sú ósk rætist ekki, hann breytist í eins konar spurningavél sem spyr tíu fyrirframsaminna spurninga og kveður gesti sína að því búnu. Barnsmóðir hans, sem er aðeins kölluð M. eins og hún sé ein af persónum Franz Kafka, getur ekki hugsað sér að finna lyktina af honum framar, hvað þá meira, og rekur hann á dyr, segist aldrei vilja heyra frá honum aftur og aldrei munu sýna honum neina hluttekningu. Frá hennar bæjardyrum séð er þessi yfirsjón ófyrirgefanleg. Stuttu síðar er Roman svo sagt upp störfum hjá sjónvarpsstöðinni. Nokkrum vikum eftir hvarf sonarins er hin borgaralega umgjörð því öll komin á usl og busl og Roman tekur sér bólfestu á átjándu hæð á hóteli, rétt eins og hann sé ferðalangur í eigin lífi. Ekki nóg með það, hann gefur viðmiðum samfélagsins langt nef, kýlir mann á kjaftinn og rænir banka.

Maðurinn sem var ein af táknmyndum hins borgaralega samfélags, maðurinn sem spurði spurninganna sem brunnu á vörum sjónvarpsáhorfenda, er því farinn að hrærast í óræðri vídd. Þar hjálpa reyndar til morfíntöflur sem hann nælir sér í.

Stóra ástin

Í öðrum kafla bókarinnar, þegar gerð hefur verið grein fyrir hvarfi drengsins, uppgötvar Roman að gömul hjásvæfa hans, Claire English, er látin. Af einhverjum ástæðum, sem honum eru huldar, ákveður hann að fara í jarðarför hennar. Þessi atburðarás vekur óneitanlega spurningar og þegar rýnt er í textann koma úr kafinu lúmskar tengingar milli Claire og Simons, sonar Romans. Claire er m.a. sögð barnsleg í útliti og einhvern veginn læðist að manni sá grunur að útför Claire sé í einhverjum skilningi útför Simons. Umhugsunarverðasta atriðið í þessum kafla er þó upprifjun Romans á þeim ummælum Claire að hún hafi notið ásta með honum án þess að elska hann. Aftar í bókinni kemst Roman að þeirri niðurstöðu að sonurinn hafi verið stóra ástin í lífi hans. Það er athyglisverð niðurstaða, ekki síst ef tekið er mið af áðurnefndum ummælum Claire um ástina.

Eftir jarðarförina er eins og von Romans um að finna Simon dofni. Við tekur sorgarferli þar sem hann dreymir móður sína og Simon hvað eftir annað. Draumarnir eru Freudískir að því leyti að þeir uppfylla vonir Romans um að hitta son sinn á ný. Hann veltir því fyrir sér hvort hann eigi að stytta sér aldur til þess að geta verið samvistum við Simon en drengurinn telur hann af því í fyrstu, hann muni hvort eð er koma þangað. Í draumunum er Simon ævinlega staddur í Karíbahafinu og þess vegna lýkur bókinni á því að draumar og veruleiki renna saman með því að Roman gerir sér ferð þangað, þá orðinn hálförvinglaður og vart með réttu ráði, já það má segja að hann sé horfinn sjálfum sér.

Af þessari bók mætti ráða að börnin séu foreldrum hjartfólgnari en sjálfur makinn. Þar eð barnið í þessari sögu hefur engin sérkenni geta menn velt því fyrir sér hvort hér sé átt við barnið almennt og jafnvel barnið í okkur sjálfum; við séum glötuð ef við glötum því.

Ástarsorg

Missir er David Gilmour afar hugleikinn því bókin Sparrow Nights , sem kom næst á undan verðlaunabókinni, fjallar líka um missi. Þar tekur hann fyrir viðfangsefni sem margir höfundar hafa gert góð skil og er líklega miðlægara í menningunni en barnsmissirinn: samband miðaldra karls og ungrar konu. Fimmtíu og eins árs prófessor í frönskum bókmenntum fellur fyrir stúdínu sem fer svo frá honum eftir tveggja ára sambúð. Bókinni fylgir tilvitnun í Marcel Proust þar sem hann segist ekki geta vanist því sem tekur enda. Þau orð eiga sannarlega vel við söguhetju þessarar bókar sem kemst aldrei yfir þessa ástarsorg sína. Lunginn úr bókinni fer í að lýsa því hvernig þessi fágaði maður brotnar smátt og smátt niður. Eins og Roman í A Perfect Night to Go to China tekur hann að virða borgaraleg viðmið að vettugi og dregst inn í veröld kláms og glæpa.

Sparrow Nights er afar vel stíluð og í henni eru fjölmargar vísanir í heimsbókmenntir sem hægt er að gera sér mat úr. Titillinn er m.a. sóttur í eina af smásögum Tsjekhovs og á við um stormasamar nætur. Ástkonan unga heitir líka Emma sem minnir á hina frægu skáldsögu Gustaves Flaubert um Emmu Bovary. Í bókinni er svartur húmor og viss leikur sem gerir hana skemmtilega aflestrar.

Þessar tvær bækur Gilmours eru þó helsti líkar. Aðalpersónurnar eru ótrúlega áþekkar og báðar rakna þær upp á svipaðan hátt þegar þær verða fyrir missi. Það er engu líkara en bækurnar séu eins konar rannsókn á viðbrögðum miðaldra karla við missi og ef marka má sjónvarpsmanninn og prófessorinn er það lífshættuleg reynsla. Jafnframt beinist athyglin að því sem skiptir okkur mestu máli í lífinu, samskiptum okkar við ástvini.

Grein Rúnars Helga Vignissonar birtist í Lesbók Morgunblaðsins 2.9 2006

   
Amma's kaffihaus 10.8.06

Á Íslandi trúum við því statt og stöðugt að Íslands ellefu hundruð ár skipti máli. Þess vegna höldum við úti fræðasamfélagi til þess að grufla í sögu, máli og menningu frá ýmsum hliðum. Það er liður í að sýna fram á að við séum og höfum lengi verið merkilegt fyrirbæri, jafnvel einstakt fyrirbæri.

Og þá vitneskju flytjum við út í stórum stíl.

Eigi að síður gerðist það fyrir einni öld eða svo að hér um bil fjórðungur þjóðarinnar yfirgaf fósturjörðina ástkæru og hélt til Vesturheims í leit að betra lífi. Já, betra lífi. Víst hafði þetta fólk meðferðis Íslands þúsund ár og hélt þeim til haga meðan það gat milli þess sem það barðist við frost og flugur. Guðjón Arngrímsson segir frá því í bók sinni Annað Ísland að Vestur-Íslendingar hafi haldið tungu sinni vel í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir enda predikuðu prestar eins og séra Jón Bjarnason á sínum tíma að það að gleyma ættjörð sinni gengi næst því að gleyma Guði, hvorki meira né minna.

Á ferð um Nýja-Ísland í Manitoba sumarið 2006 minnir jú eitt og annað á Gamla-Ísland. Þar eru ýmis staðaheiti úr íslensku, Gimli, Árborg, Árnes og Hecla Island þar á meðal. Í Gimli má finna dæmigerðar ferðamannaverslanir þar sem íslenskir fánar, víkingahattar og bolir með íslenskum skírskotunum eru á boðstólum. Þarna var t.d. bolur með áletruninni ?When the going gets tough ... I go to Amma's" og á öðrum stóð ?Kiss me, I'm Icelandic". Við hliðina á íslenska sögusafninu er Amma's Tearoom & Gift Shop (einhvers staðar var líka kaffi haus ) þar sem kaupa má íslenskar pönnukökur með sultu og rjóma. Víða stendur líka ?velkomin" og þegar farið er frá Hecla Island getur meira að segja að líta áletrunina ?komdu aftur".

Allt gleður þetta útrásarsinnaðan Íslending. Fljótlega kemur þó í ljós að það er ekki endilega mikið á bak við þessi íslensku tákn. Gengilbeinan í Amma's Tearoom var einmitt að velta fyrir sér hvaða mál við töluðum og var ekki viss hvað amma þýddi. Fyrir henni var íslensk pönnukaka síst merkilegri en frönsk baka og þegar við kvöddum vissi staðareigandinn ekki hvað bless þýddi. Samt sagði hann konuna sína vera af íslenskum ættum. Aðrir könnuðust reyndar við hryn þess ástkæra ylhýra og einstaka talaði jafnvel íslensku, en hafði þá lært hana sem annað mál. Lögberg-Heimskringla, blað Íslendinga í Vesturheimi, er nú gefið út á ensku og hefur svo verið í allmörg ár.

Það þurfti sumsé ekki nema hundrað ár til þess að íslenskan hyrfi nánast sporlaust og skildi ekki eftir sig annað en örnefni sem eru álíka óskiljanleg almenningi og Winnipeg og Saskatchewan, já og orð eins og amma og pönnukaka. Og það í héraði þar sem Íslendingar voru afar fyrirferðarmiklir og lögðu sérstaka áherslu á að varðveita menningararf sinn. Krökkum var hins vegar kennt á ensku í skólum þó að þau töluðu íslensku heima og því varð Nýja-Ísland fljótlega að New-Iceland. Og það sem er kannski umhugsunarverðast af öllu: Fólkið lifir þarna ágætu lífi að því er virðist.

Það er margt líkt með stöðu íslenskunnar á Íslandi nú og í Vesturheimi fyrir einni öld. Við erum umkringd enskunni rétt eins og vesturfararnir þá og slettum núorðið ekkert ósvipað og Vestur-Íslendingarnir gerðu fyrst eftir komuna þangað. Í ljósi reynslunnar vestra gæti mörgum þótt lítil goðgá að renna saman við stærra tungumál og öðlast þannig hlutdeild í heimsveldi enskunnar. Það er hvort eð er búið að þýða Íslendingasögurnar.

Við erum þó ekki hluti af enskumælandi þjóð, a.m.k. ekki formlega, og því ætti framtíð tungumálsins að vera í okkar höndum.

Framtíð eða future, þar er efinn.

Grein Rúnars Helga birtist í Lesbók Morgunblaðsins 5.8.2006

 

 
   
  Eldri pistlar  
 

 

 
 
 
   
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538