Ellin sem fjöldamorð 30.5.06

Philip Roth hefur nú skrifað sína 27. bók, orðinn 73 ára. Hann hóf feril sinn með bókinni Vertu sæll, Kólumbus árið 1959 og spannar glæstur ferillinn því um hálfa öld og er þétt varðaður allri þeirri vegsemd sem rithöfund getur dreymt um, ja nema þar vantar Nóbelsverðlaunin, sem hann hefur reyndar lengi verið orðaður við. Eftir öll þessi ár og heilmikil læti er bikarinn þó ekki tæmdur og óneitanlega spyr maður sig hvað drífi þennan mann áfram.

Auðvitað veit ég minnst um það. Einhvern tíma sagðist hann ekki kunna neitt annað og yrði því að halda sig við ritstörfin sem er reyndar algeng viðbára í hans stétt. En maður sem er kominn á áttræðisaldur og hefur notið mikillar velgengni áratugum saman er nú ekki beinlínis nauðbeygður til að skrifa fram í rauðan dauðann. Venjulegt fólk fer jú á eftirlaun í síðasta lagi um sjötugt, leggst í ferðalög og dillar barnabörnum, sest á friðarstól ef vel tekst til. Kannski sýnir Roth okkur með úthaldi sínu að listin er enginn venjulegur vinnuveitandi, að hún er ekki starf í hefðbundnum skilningi, þó að hún útheimti ómælt puð, heldur ástríða sem rekur menn eins og hann áfram uns heilabúið gefur sig.

Listin er reyndar ekki eina ástríða Roths eða sögupersóna hans. Þeir sem hafa fylgst með ferli karlsins vita hvað sögupersónur hans eru uppteknar af samlífi kynjanna. Portnoy's Complaint , bókin sem gerði hann heimsfrægan að endemum, inniheldur ýktar lýsingar á sjálfsfróun, sem kemur manni kannski ekkert á óvart þegar tekið er mið af aldri söguhetjunnar, já og bælingunni í amerísku samfélagi. Það kann hins vegar að koma mörgum á óvart að greddan skuli ekki rætast af körlunum hans þó að þeir séu komnir að fótum fram og afaímyndin fái þar með einn á lúðurinn. En meira um það síðar, farið hvergi!

Sjúkrasaga hvundagshetju

Everyman sækir titil sinn í nokkur hundruð ára gamalt allegórískt leikrit um dauðann. Í viðtali við New York Times segist Roth hafa fengið hugmyndina að bókinni eftir að hafa fylgt hverjum vininum af öðrum til grafar undanfarin misseri. Nefnir hann þar eitt dauðsfall sem hafi haft sérstaklega mikil áhrif á sig, andlát skáldjöfursins Sauls Bellow, en þeim kollegum var víst orðið vel til vina. Í viðtalinu segist Roth hafa byrjað á Everyman daginn eftir jarðarför Bellows en tekur jafnframt fram að bókin tengist honum ekkert að öðru leyti og það liggur reyndar í augum uppi.

Everyman , sem mætti kalla Jón Jónsson á íslensku eða Hver og einn enda söguhetjan nafnlaus, hefst í kirkjugarði. Sögumaður lýsir því þegar aðalpersóna bókarinnar, fyrrverandi auglýsingamaður, er lögð til hinstu hvílu í vanræktum kirkjugarði. Yfir gröfinni standa nánustu ættingjar eins og gengur - bróðirinn, börnin, fyrrverandi eiginkona - og í þessu fólki er sagan fólgin.

Þegar búið er að moka yfir kistuna rís auglýsingamaðurinn upp frá dauðum og sjónarhornið færist yfir til hans og að hluta til inn í hann. Saga hans er rakin í óvenju grófum dráttum þegar Roth er annars vegar, allt frá því hann var ungur maður, gegnum þrenn hjónabönd og fram til hinsta dags. Margt í ævi þessa tiltölulega litlausa og ofurvenjulega manns er í anda fyrri bóka Roths, framhjáhaldið og skefjalausa kynlífið - hana, þar kom það aftur! - en megináherslan er þó á viðfangsefni sem Roth hefur ekki fjallað sérlega mikið um til þessa: sjúkdóma, já og svo auðvitað fylgifiska þeirra: lífsháskann og dauðann. Jón Jónsson er svo mikill lasarus að maður veit ekki hvort gráta skuli eða hlæja yfir óförum hans. Hann fer í hverja aðgerðina á fætur annarri: hann fær kviðslit, botnlanginn springur, kransæðarnar stíflast sem og æðarnar upp í heilann. Undir lokin er hann ýmist að búa sig undir aðgerð eða jafna sig eftir aðgerð.

Jóni tekst að hrista af sér þrjár eiginkonur og ver síðustu tíu æviárunum einn og fremur einmana, fyrirlitinn af börnunum sínum nema dótturinni Nancy. Sorgin yfir glataðri heilsu og tækifærum ræður ríkjum, í samræmi við tilvitnunina úr „Ode to a Nightingale" eftir Keats sem fylgir bókinni þar sem segir m.a. að það að hugsa sé að vera dapur. Þrátt fyrir allar aðgerðirnar hefur hann ekki misst löngun til kvenna þó að geta hafi minnkað og á einum stað er að finna óborganlega senu þar sem hann stöðvar unga konu á götu og reynir að manga til við hana. „Það er eitthvað óvenjulegt við þig," segir þrýstna unga konan. „Já," segir hann, „ég er fæddur 1933."

Það sem Jón Jónsson hefur upp úr krafsinu er á allt öðrum nótum en það sem aðrar söguhetjur Roths hafa í gegnum tíðina haft upp úr krafsinu við sambærilegar aðstæður og líklega segir það allt sem segja þarf um missinn sem fylgir því að eldast. Það virðist þó vera í mótsögn við hugarafl höfundarins aldna.

Hyldýpið milli holds og anda

Everyman er trúlega látlausasta bók Roths. Eðli málsins samkvæmt er Jón Jónsson einhver litlausasta persóna sem hann hefur skapað. Svo virðist þó sem kynngimagn bókarinnar sé í öfugu hlutfalli við látleysið því fljótlega var sjúkdóms- og dauðabeygur farinn að hríslast um þennan lesanda svo bókin var allt að því tekin að skjálfa í höndunum, ekki síst við annan lestur þegar stíl- og formsnilld Roths kom betur í ljós.

Mín kenning er sú að Roth hafi vísvitandi gert bókina svona rislitla og neitað sér um krassandi senur af því tagi sem hann er þekktur fyrir úr verkum á borð við Sabbath's Theater , American Pastoral , The Human Stain og The Dying Animal ( Hinni feigu skepnu , Bjartur 2003), þar sem hann borar sig ofan í undirvitundina og flysjar siðmenninguna utan af persónum sínum með því að láta þær lepja tíðablóð, pissa á leiði, afneita uppruna sínum og stunda ævintýralegar kynlífskúnstir af ýmsu tagi. Ég held að Roth hafi viljað hafa bókina hversdagslega til þess að lesanda fyndist aðalpersónan ósköp venjulegur meðaljón sem þó komist ekki hjá því að fást við stóru spurningarnar sem Hamlet glímir við með hádramatískum tilþrifum. Það átakanlega er að þessi Jón er hvorki tiltakanlega góður né slæmur, hann ögrar ekki almættinu meira en hver annar og fer ekki verr með skrokkinn, hann reynir þvert á móti að standa sig og axla ábyrgð, með misgóðum árangri að vísu, en samt sem áður fær hann illyrmislega sjúkdóma sem gera líf hans að helvíti á köflum og draga hann að lokum til dauða. Þetta er stefið um dauðans óvissa tíma og það verður enn áleitnara þegar Jóni Jónssyni er stillt upp andspænis eldri bróður sem hefur gengið allt að sólu í lífinu, er enn í fullu fjöri og hefur aldrei þurft að leggjast inn á sjúkrahús. „Við getum sagt um hann það sem ástvinir nánast allra þeirra sem hér liggja hafa sagt: Hann hefði átt að lifa lengur," (6) segir heilsuhrausti bróðirinn í kirkjugarðinum. En Nancy, dóttirin, bendir aftur á móti á stóra sannleika: „Það er engin leið að umskapa veruleikann. Taktu bara því sem að höndum ber" (5). Þarna hefur hún reyndar yfir sömu orð og faðir hennar notaði til að hughreysta hana við annan aðskilnað, skilnað hans og móður hennar. Um leið kristallar Nancy ævi föður síns, og hlutskipti okkar allra, en hvað eftir annað þurfti faðir hennar einmitt að taka því sem að höndum bar í stormasamri sambúð sinni við líkamann, vakna t.d. upp með túðu í munninum án þess að geta tjáð sig um nánast óbærilegan amann sem hann hafði af því. Það er því ekki dregin upp sérlega aðlaðandi mynd af efri árum, hér veikist fólk, hrörnar og deyr í hrönnum, sem leiðir til þess að söguhetjunni finnst sem ellin sé ekki stríð heldur fjöldamorð.

Þó girðir ellin fyrir vissa yfirborðsmennsku að mati söguhetjunnar: Hún verður til þess að útlitið hættir að skipta öllu máli og innri maður fær meira vægi.

Stutta skáldsagan

Everyman er með stystu verkum Roths, bókin er einungis 182 síður í litlu broti, álíka löng og Hin feiga skepna og um margt skyld henni að inntaki. Menningarrýnirinn David Kepesh í Hinni feigu skepnu er reyndar mun vitsmunalegri og háfleygari en hann Jón okkar, en báðir eru komnir til ára sinna og eru enn uppteknir af karlmennsku sinni. En það er þó ekki síst hið knappa form sem sameinar bækurnar.

Stuttar sögur, svo ekki sé talað um smásögur, hafa gjarnan verið álitnar ófullkomnar og jafnvel óæðri en stóra systirin skáldsagan sem hefur verið helsta viðmið í bókmenntaheiminum um langa hríð. Sjálfskipaðir spámenn hafa jafnvel gengið svo langt að gera gys að þeim sem skrifa stuttar sögur. Í nýjasta hefti World Literature Today skrifar Kristjana Gunnars grein um stuttar bækur og tilfærir þar andstæðar skoðanir suður-amerísku höfundanna Jorges Luis Borges og Marios Vargas Llosa á lengd sagna. Borges fyrirleit skáldsöguna í sínu hefðbunda formi vegna þess að hún var of nálægt lífinu. Hann vildi breyta lífinu í list og fannst algjör ofrausn að nota til þess fimm hundruð síður þegar koma mátti sama efniskjarna á framfæri á nokkrum tugum blaðsíðna. Vargas Llosa var á öðru máli og benti á doðrantana Moby Dick og Don Kíkóta máli sínu til stuðnings.

Þó að smásaga sé vanalega aðeins svipmynd eru flestir sammála um að hún bjóði upp á þéttni og hnitmiðun sem sé eftirsóknarverð í skáldskap. Þegar best tekst til verður hún eins konar blossi og áhrifarík eftir því. Nóvellan eða stutta skáldsagan er svo einhvers staðar þarna á milli og hirðir stundum það besta úr nágrönnum sínum.

Og þar komum við aftur að Everyman sem er lítið meira en nóvella. Það kemur í ljós að Roth gerir sér grein fyrir ofangreindum atriðum, eins og vænta mátti: Það sem er sérstaklega áhugavert við þessa lengd er að maður nær sömu áhrifum og í skáldsögu, sem nær þeim fyrir það hvað hún er margslungin og nákvæm, en getur líka náð fram áhrifum smásögunnar vegna þess að góður lesandi getur haft alla söguna í kollinum," sagði Roth í viðtali.

Með öðrum orðum: Áhrifamáttur stuttrar skáldsögu á borð við þessa felst m.a. í því að vinnsluminni lesandans nær utan um öll helstu atriði hennar sem gerir túlkun auðveldari og ánægjulegri.

Við hestaheilsu

Roth hefur iðulega verið ruglað saman við persónur sínar og hefur svo sem sjálfur gert í því að rugla lesandann í ríminu að því leyti. Frægt er hliðarsjálfið Zuckerman, sem kemur fyrir í mörgum bókum, og þar að auki hefur hann skrifað skáldsögur á borð við Operation Shylock þar sem aðalsöguhetjan heitir Philip Roth og á sér líka tvífara með sama nafni. Í Everyman eru enn nokkur líkindi með söguhetjunni og Roth sjálfum, báðir eru t.d. fæddir sama árið. En aldrei þessu vant hefur Roth nú gert sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir rugling með því, ja með því að vera á lífi auðvitað, en líka með því að láta birta af sér heilsíðumynd aftan á kápunni þar sem hann stendur einbeittur og hraustlegur fyrir framan vinnustofuna sína. Hann er að sönnu tekinn að reskjast en enn skín einbeiting úr andlitinu. Að vísu fór hann í bakuppskurð í fyrra en ku vera búinn að ná sér, stundi líkamsrækt samviskusamlega og borði trefjaríkan morgunverð.

Það er því von til þess að veislunni sé ekki lokið enn.

Grein Rúnars Helga Vignissonar birtist í Lesbók Morgunblaðsins 27. maí sl.

   
Virkjum Andra Snæ 8.5.06

Ýmsir halda því nú fram að listir skipi ekki sama sess í samfélagi okkar og fyrr, að við notum þær ekki í sama mæli til þess að skoða okkur og skilgreina og tiltökum þær ekki sem mótandi afl í samfélaginu.

Þetta endurspeglast í listaumfjöllun sjónvarpsstöðvanna sem láta sér nægja að sleikja kremið ofan af listakökunni en snerta sjaldnast kökubotninn sjálfan.

Draumaland Andra Snæs, sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð , er kannski undantekningin sem sannar regluna. Bókin virðist ætla að hafa svo mikil áhrif á umræðuna og þankaganginn í þjóðfélaginu að hún gæti kollvarpað viðteknum hugmyndum og skapað alveg nýja sýn á Ísland.

Þar með hefur Andri Snær slegið margar flugur í einu höggi. Hann hefur sýnt okkur fram á mátt orðsins og gagnrýninnar hugsunar, sem hefur jú verið ófrægð á umliðnum árum þegar viss skoðanafasismi hefur legið í loftinu. Andri hefur sýnt okkur að með skapandi hugsun er hægt að leysa upp alls konar kreddur sem ríða húsum og gera okkur stundum að þrælum sjálfra okkar. Með þessu hefur hann jafnframt sýnt okkur hvers vegna við höldum úti listamönnum í þessu landi og höfum byggt upp sjóði til þess að gera þeim kleift að helga sig hugðarefnum sínum. Eins og Draumaland Andra ber með sér nærist hann m.a. á fjölmörgum öðrum listamönnum sem sýnir hversu brýnt er að hafa samfélag utan um listina. Það er upp úr samfélagi sem snilldin sprettur; voldugustu trén vaxa yfirleitt ekki á berangri heldur þrífast þau best í hæfilega þéttum skógi.

Andri Snær er sem stendur í hlutastarfi hjá íslensku þjóðinni með því að hann hlaut sex mánaða úthlutun úr Launasjóði rithöfunda 2006. Það virðast hrapalleg mistök nú þegar Draumalandið liggur á borðinu. Ég legg til að íslenska þjóðin ráði þennan mann í fullt starf við að hugsa og snúa við steinum. Heilabúið í honum er tugmilljarða virði, rétt eins og sköpunarkrafturinn í Björk, auk þess sem það gæti komið í veg fyrir að óþörf og óafturkræf spjöll verði unnin á náttúru okkar og samfélagi. Það má alveg bjóða Andra bankastjóralaun, en þó býst ég síður við að hann sækist sérstaklega eftir ofgnótt, heldur væri honum meira virði að framtíð barna hans yrði tryggð í þessu landi.

Til manna á borð við Andra Snæ á ekki að gera neinar kröfur sem gætu takmarkað hugsun þeirra. Það á að létta af þeim veraldlegum byrðum, ef þeir kæra sig um það, svo að þeir verði ekki háðir neinum og geti farið um samfélagið eins og Sókrates, nú eða lokað sig af ef þeir vilja það heldur, ellegar haldið af landi brott til þess að kanna víðátturnar. Það á ekki að fara fram á að þeir skrifi svo og svo mörg orð á ári, það á ekki að sólunda tíma þeirra í að skrifa framvinduskýrslur" eða umsóknir. Nei, þeim á að veita algjört frelsi, því oft starfar heili þeirra best þegar þeir virðast ekki vera að gera neitt.  

Út úr þessu getur síðan komið nýr þankagangur sem breytir sýn okkar á heiminn og skapar okkur öllum ný tækifæri, gerir líf okkar fyllra og frjórra og skilar jafnvel milljörðum í útflutningstekjur.

Pistill Rúnars Helga Vignissonar í Lesbók Morgunblaðsins 6.5.2006.

   
Veröldin og textinn 4.5.06

Hér á síðunni hefur stundum verið reynt að koma orðum að því sem kalla mætti afstæðan lestur og tengist þeirri tilhneigingu okkar að velja lesefni eftir því hvaða afstöðu aðrir hafa til þess. Það eru þá utanaðkomandi atriði eins og verðlaun og umtal sem ráða því hvort við lesum tiltekna bók og jafnvel því hvað okkur finnst um hana. Þetta á auðvitað við aðrar greinar lista líka. Fréttaritari Græna hússins gerði sér t.d. ferð á leikritið Pétur Gaut um síðustu helgi eftir að hafa séð lofsamlega dóma um uppsetninguna. Skemmst er frá því að segja að hann náði engu sambandi við leikritið og leiddist óheyrilega. Á leiðinni út í lokin heyrði hann hins vegar gamla konu fara fögrum orðum um leikritið en þótti greinilegt að hugur fylgdi ekki máli heldur væri verið að tala inn í ákveðið samhengi.

Í bókinni Tjöldin, sem er nýkomin út í þýðingu Friðriks Rafnssonar, nefnir Milan Kundera snjallt dæmi um það hvernig afstaða okkar til efnisins markar viðbrögð okkar við því:

Gerum okkur í hugarlund nútímatónskáld sem hefði skrifað sónötu þar sem form, hrynjandi og laglínur líktust því sem Beethoven skrifaði. Gerum okkur jafnvel í hugarlund að þessi sónata hafi verið svo meistaralega vel samin að ef hún hefði í raun og veru verið eftir Beethoven hefði hún átt heima með meistaraverkum hans. En það er sama hversu stórkostleg sónatan hefði verið, það að nútímatónskáld skrifaði hana yrði talið hlægilegt. Menn myndu í mesta lagi hrósa höfundi hennar fyrir að vera snjöll eftirherma. (bls. 12)

Það skiptir sem sagt höfuðmáli hver skrifar verkið og hvenær. Kundera rekur þetta til tilfinningar okkar fyrir sögulegri samfellu. En þetta segir okkur óneitanlega líka hversu óstöðug fagurfræðin er, að hún er ekki fasti heldur breytist með tíðarandanum og er þar að auki háð alls kyns duttlungum öðrum, getur jafnvel lent í mótsögn við sjálfa sig.

   
Töfrandi hugsanir um missi  

Þekktur bandarískur rithöfundur, Joan Didion, sendi í fyrra frá sér bók um tvíþættan persónulegan harmleik, alvarleg veikindi dóttur og dauða eiginmanns. Bókinni, sem hún skrifaði í sorgarferlinu miðju, var afar vel tekið, hún hlaut ein virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna og hefur setið á metsölulistum. En erfiðleikum höfundarins er ekki lokið.

Rétt fyrir jólin 2003 veikist einkadóttir bandarísku rithöfundanna Johns Gregorys Dunne og Joan Didion af sjúkdómi sem virðist í fyrstu vera sakleysisleg flensa, elnar í lungnabólgu en endar sem allsherjar sýking svo halda þarf dótturinni sofandi á sjúkrahúsi dögum saman. Kvöldið fyrir gamlársdag, þegar þau hjónin setjast að snæðingi eftir heimsókn á spítalann, verður John Gregory bráðkvaddur. Það gerist svo snögglega að Joan heldur í fyrstu að hann sé að spauga. Samt vissi hún auðvitað að hann var hjartveikur og hafði sjálfur spáð fyrir um það með hvaða hætti hann mundi deyja.

Lygileg atburðarás sem átti þó eftir að verða enn lygilegri.

En eins og rithöfundum er tamt vann Joan Didion úr þessum áföllum með því að skrifa um þau. Hún settist niður tæpu ári síðar og reyndi að greiða úr hugsunum sínum. Úr varð bók með glæstum titli, The Year of Magical Thinking, sem vísar til þeirra töfrahugsana sem áföllin kölluðu fram í höfundinum. Didion lýsir tilganginum með skrifunum fremst í bókinni:

„Þetta er tilraun til þess að átta mig á tímanum sem fór í hönd, vikum og síðan mánuðum sem brutu upp allar fastmótaðar hugmyndir sem ég hafði haft um dauðann, um sjúkdóma, um líkur og heppni, um lán og lánleysi, um hjónaband og börn og minni, um sorg, um það hvernig fólk fæst og fæst ekki við þá staðreynd að lífinu lýkur, um það hvað geðheilsan má við litlu, um lífið sjálft" (7).

Bókin hreppti The National Book Award í nóvember sl. og hefur setið á metsölulistum auk þess sem hún hefur verið seld til margra landa. Þannig gerist það aftur og aftur að eins dauði verður annars brauð, ekki síst þegar rithöfundar eiga hlut að máli, enda eru þeir eins konar endurvinnslustöðvar veruleikans og ná sér oft best á strik þegar mikið liggur við. Sú spurning vaknar gjarnan hvort rithöfundar séu þar með afætur, þeir lifi á óförum annarra, en Didion virðist ekki vera upptekin af því. Hún virðist uppteknari af því að miðla mennsku sinni og gerir þannig lesendum, sem allir verða jú fyrir missi einhvern tíma á lífsleiðinni eins og John Gregory bendir á, kleift að samsama sig annarri syrgjandi manneskju sem e.t.v. gerir sorgina ögn léttbærari fyrir okkur öll.

Frægt par

John Gregory Dunne og Joan Didion höfðu lengi verið þekkt par í bandarísku menningarlífi og um þau lék viss glamúrslikja. Þau kynntust þegar hann var blaðamaður á tímaritinu Time og hún á Vogue og giftu sig árið 1964. Þau voru og eru bæði þekktir rithöfundar, hún sló í gegn með skáldsögunni Play It as It Lays árið 1970, hann sló í gegn með skáldsögunni True Confessions árið 1981 sem síðar var kvikmynduð. Bæði þóttu góðir greinasmiðir, skrifuðu um bókmenntir, stjórnmál og menningarmál almennt, en einna þekktust voru þau fyrir samvinnu sína fram í rauðan dauðann og þá ekki síst að gerð kvikmyndahandrita. Til þess var tekið að þau fóru gjarnan til Honolulu til að ljúka krefjandi verkefni. Meðal kvikmynda sem þau rituðu handrit að má nefna A Star is Born með Barböru Streisand (1976) og Up Close and Personal með Robert Redford og Michelle Pfeiffer (1996).

John og Joan voru því augljóslega hágírað bókmenntapar og sagan segir að þau hafi dregið fram það besta hvort í öðru. Þau unnu undir sama þaki lengstum og Joan segist aldrei hafa sent neitt frá sér án þess að hann læsi það yfir. Það hlýtur þess vegna að hafa verið mikið áfall fyrir hana, bæði sem einstakling og rithöfund, að missa mann sinn og það á sama tíma og dóttirin Quintana lá fárveik á sjúkrahúsi.

Sorgarferlið í stílnum

En Joan Didion tókst að ljúka við nýja bók þrátt fyrir þessi áföll, skrifaði uppkastið á 88 dögum haustið 2004, og út kom bókin í október síðastliðnum. Þetta er heillandi lesning af mörgum ástæðum, en ég er samt ekki viss um að bókin sé endilega vel skrifuð í hefðbundnum skilningi, til þess er hún fulltætingsleg. Didion fer ekki þá leið að skrifa yfirvegaða og útpælda bók um þetta erfiða viðfangsefni. Hún ákveður þess í stað að láta formið hæfa efninu og gerir bókina hráa og endurtekningasama til að endurspegla líðan sína á þessum tíma eða það sjúkdómsástand að syrgja, eins og hún hefur eftir einum sálgreinandanum. Texti Didion ber satt að segja ýmis merki þess að höfundurinn sé í losti, hún tönnlast á sömu hugsunum aftur og aftur, enda ennþá í sorgarferlinu miðju þegar hún skrifar bókina. Og það gerir bókina sérstaka, hún er ekki skrifuð löngu seinna eins og svo margar sorgarsögur, þegar höfundurinn er búinn að vinna úr hinni erfiðu reynslu og getur fjallað um hana á settlegan og vitsmunalegan hátt. Didion vildi beinlínis skrifa hana sem fyrst til að ná „the crazy part" eins og hún segir í viðtali við dagblaðið USA Today.

The Year of Magical Thinking er því bæði að formi og efni rannsókn á sorgarferlinu. En þó að bókin fjalli um grafalvarleg efni er hún ekki niðurdrepandi, leiðinleg eða beinlínis sorgleg, því hún er á sinn hátt spennandi vegna þess hvernig Didion raðar efninu upp. Auk þess sver stíll Didion sig í ætt við ísjakakenningu Hemingways, margt leynist á milli línanna, sem gerir að verkum að bókin verður ekki væmin og skilur mátulega mikið eftir handa lesandanum. Þetta er heldur ekki bara einkafrásögn hennar, því hún gefur hugrenningum sínum um líf og dauða almennari og víðari skírskotun með því að heyja sér efni víða úr heimsbókmenntunum, jafnt skáldskap sem fræðum, fornum og nýjum, en ungri var henni einmitt kennt að lesa sér til þegar vandi steðjaði að. Tilvitnun í Sir Gawain and the Green Knight er eins konar leiðarstef í bókinni, endurtekin hvað eftir annað.

Grafinn lifandi

Slysin gera ekki boð á undan sér, segjum við oft í okkar menningarsamfélagi. Didion lýsir einmitt undrun sinni, og reyndar annarra líka, yfir því að dauðann skyldi bera að garði á venjulegum degi, í hennar tilfelli þar sem John Gregory sat við eldinn inni í stofu og bjóst til að snæða kvöldverð. Maður sest að snæðingi og er svo farinn, segir Didion oftar en einu sinni. Hún hefur líka eftir öðrum að hamfarir og dauða hafi iðulega borið að á fögrum degi þegar sól skein í heiði, kannski á venjulegum sunnudagsmorgni, eins og þegar ráðist var á Pearl Harbor í seinni heimsstyrjöldinni. Þessi undrun Didion segir margt um afstöðu okkar vestrænna manna til dauðans, við virðumst ekki líta á hann sem eðlilegan hluta af lífinu og reynum að láta sem minnst fyrir honum fara í hversdeginum til að vera ekki minnt of óþyrmilega á hann. Við notum alls kyns myndmál um hann eins og til þess að forðast að horfast í augu við hann. En auðvitað er dauðinn jafn hversdagslegur og lífið eins og lesa má úr dagbók húsvarðarins þar sem hann segir frá því í einni færslunni að sjúkrabíll hafi komið eftir hr. Dunne og í þeirri næstu að pera sér farin í lyftunni.

Kannski er þessi bæling drepin úr dróma í öllum ofbeldismyndunum þar sem dauðinn virðist oft ekki hafa neinar tilfinningalegar afleiðingar. En hvað gerist í raunverulegri manneskju þegar ástvinur fellur frá? spyr Joan í þessari bók. Ef marka má lýsingar hennar fer allt á tjá og tundur í tilverunni og veröldin fær nýja merkingu. Hversdagslegir hlutir fara allt í einu að kalla á mann af endurnýjum krafti og gleymdir munir stökkva fram í dagsljósið, jafnvel út úr skúmaskotum. Minningar fá aukna dýpt sökum þess að viðfang þeirra er nú glatað um aldur og ævi. Við köllum þetta sorgarferli nútildags og í því felst það sem Joan Didion kallar „töfrahugsanir".

Ástandið sem Joan vísar hér til er svipað og í bókum töfraraunsæishöfundanna þar sem látið er sem yfirnáttúruleg fyrirbæri séu raunveruleg. Joan veit mætavel að John Gregory er látinn en tilfinningalíf hennar er ekki á því að viðurkenna það. Hún les ekki minningargreinar um mann sinn, gefur ekki fötin af honum og alls ekki skóna því á þeim þarf hann að halda ef hann snýr aftur. Hún heldur líka áfram að segja honum eitt og annað, fær bara engin viðbrögð lengur. Töfrarnir felast sumsé í því að mánuðum saman getur hún ekki hugsað rökrétt og lætur sem John sé ennþá á lífi. Og það sem meira er, henni líður eins og hann hafi verið grafinn lifandi. Heilinn bregst því við erfiðum sannleika með því að afneita honum að vissu marki.

Joan reynir auk þess að lýsa því hvernig sorgin hellist yfir. Hún komi í bylgjum, gjarnan í grátkviðum. Fyrstu dagana komist hún þó ekki að vegna allra praktísku atriðanna sem tengjast andláti. Og ákvarðana sem þurfi að taka: Má kryfja John Gregory? Vill hún gefa líffærin úr honum? - En hvernig á hann að geta snúið aftur ef hann hefur engin líffæri. Og enga skó? Hugsanir og gjörðir eru iðulega í mótsögn: Í sama mund og hún gætir þess að hafa allt til reiðu fyrir endurkomu eiginmannsins lætur hún brenna líkið og setja öskuna í duftker.

Dóttirin

Það er út af fyrir sig nóg að fást við alvarleg veikindi barns eða dauða maka, að fást við hvort tveggja í senn er trúlega fullmikið af því góða á friðartímum. Quintana vaknaði ekki úr dáinu fyrr en rúmum hálfum mánuði eftir að faðir hennar lést og eitt það fyrsta sem hún heyrði þá var að faðir hennar væri látinn. Það var svo ekki fyrr en seinnipartinn í mars sem hún var orðin nógu hress til þess að hægt væri að gera útförina, næstum þremur mánuðum eftir að hann lést. Tveimur dögum síðar flýgur hún til Kaliforníu ásamt eiginmanni sínum og hnígur niður af völdum heilablóðfalls við komuna þangað.

Hvert stóráfallið rekur annað og Didion reynir hvað hún getur að gera þeim skil í frásögn sinni. Hún vísar jöfnum höndum til atburðanna og þess sem fræðingar hafa sagt um sambærileg atvik og reynir þannig að hjálpa sjálfri sér og lesandanum að fást við þá. Þannig eru bæði bókin og sorgin til marks um það hve miklu máli annað fólk, já og menningarsamfélagið sem við hrærumst í, skiptir okkur. „Við höfum misst eina manneskju og veröldin er eitt stórt tóm," hefur Didion eftir Philippe Ariès.

Sjúkrasaga Quintönu hélt áfram eftir að The Year of Magical Thinking fór í prentun og skömmu áður en bókin kom út lést þessi unga kona eftir erfiða baráttu við sýkingar. Læknar sögðu að ónæmiskerfið hefði veikst af völdum þeirra. Við þessar nöturlegu aðstæður kom bók Didion út en hvort sá harmleikur muni hafa frekari bókmenntaafrek í för með sér verður að koma í ljós.

Grein Rúnars Helga Vignissonar í Lesbók Morgunblaðsins 25. mars 2006.

   
Skemmtilegir tímar 15.3.06

Við Íslendingar erum svo heppnir að listafólk er stöðugt að kynna fyrir okkur stórmerkilega viðburði. Það flykkist í viðtöl í blöðum og útvarpi og þeir fallegustu og frægustu sitja líka fyrir í Íslandi í dag, Kastljósi og skyldum þáttum. Þessi viðtöl eru sannkallað skemmtiefni því listamenn eru afar skemmtilegt fólk.

Skemmtileg tónlist

Tónlistarmenn tala um hversu skemmtileg efnisskráin sé á væntanlegum stórtónleikum og hvað það hafi verið gaman að fá tækifæri til að spreyta sig á að túlka verkin, hvað tónskáldið hafi í rauninni verið langt á undan sinni samtíð, já og hvað samstarfið við hina hljóðfæraleikarana hafi verið ánægjulegt, svo ekki sé nú talað um þann heiður að fá að leika undir stjórn hins virta stjórnanda. Til að ekkert fari nú á milli mála varðandi skemmtanagildið hafa hljóðfæraleikarar Sinfóníunnar ákveðið að árétta það með því að leggjast ofan í hljóðfæratöskurnar sínar eða upp á bílhúdd. Enn glaðbeittari eru þó óperusöngvararnir enda syngja þeir í svo skemmtilegum óperum. Og auðvitað má ekki gleyma öllum skemmtilegu tónlistarmönnunum sem koma hingað frá útlöndum með reglulegu millibili. Um íslensku popparana þarf ekki að fjölyrða, þeir eru flestir á barmi heimsfrægðar, svo skemmtilega vinna þeir úr tónlistararfinum.

Skemmtilegar kvikmyndir

Það er líka mjög skemmtilegt að fást við kvikmyndagerð. Maður kynnist svo mörgu skemmtilegu fólki við tökurnar og allir skemmta sér svo vel saman við vinnuna, enda viðfangsefnið verðugt. Reyndar er eftirvinnslan ekki síður skemmtileg því fátt er skemmtilegra en að klippa góða íslenska bíómynd. En skemmtilegast er þó að frumsýna því allir eru sammála um að myndirnar séu skemmtilegar, alltaf mikið hlegið og í útlöndum er meira að segja oft hlegið á óvæntum stöðum. Skal engan undra þótt vart líði sá dagur að ekki berist spurnir af ótrúlegri velgengni íslenskra kvikmynda á erlendum mörkuðum.

Skemmtilegar myndlistarsýningar

Söfn eru líka skemmtileg því sýningarstjórar setja upp afar skemmtilegar sýningar í þeim. Myndlistarmenn eru enda uppáfinningasamir með afbrigðum, þeir bjóða upp á innsetningar og gjörninga sem koma manni skemmtilega á óvart. Í sýningarskrám tíunda þeir hreyknir allar sýningarnar sem þeir hafa haldið, hverjir hafi keypt af þeim og við hvaða virtu listaskóla þeir hafi lært svo að allir sjái hvað þeir eru í góðum félagsskap. Enda er alltaf skemmtilegt á opnuninni, innvígðu vinirnir fá léttvín og geta heilsað upp á listamanninn skemmtilega.

Skemmtileg ritverk

Allir vita hvað við Íslendingar eigum skemmtilega penna. Þeir taka skemmtikraftinn í sér alvarlega enda þykir þeim skemmtilegt að skrifa og tíunda stoltir hvað þeir vinni langan vinnudag og hvað það sé gaman að umskrifa verkin og sjá þau taka á sig mynd, hvað þeir hafi gaman af tungumálinu og skemmtilegum orðaleikjum, já og sumir hafa náð sérlega góðu samstarfi við útgefandann sem hefur klætt verkið í skemmtilegan búning og auglýst þá grimmt. Það er satt að segja orðið svo gaman í bókabransanum að gagnrýnendur eru orðnir skemmtilegir og þá ekki síst þegar svo ólíklega vill til að þeir fá leiðinlega bók í hendurnar.

Skemmtileg leikrit

Langskemmtilegast virðist þó vera hjá leikurunum. Þeim finnst svo ótrúlega gaman að fá að leika skemmtileg hlutverk í öllum þessum bráðskemmtilegu mannlífsstúdíum eftir meinfyndin og margverðlaunuð leikskáld, samstarfið við hina leikarana á æfingatímanum er svo ofboðslega gefandi og lærdómsríkt, já og það er svo gaman að starfa með leikstjóranum, þeir hafa náð svo vel saman og útkoman er stórskemmtileg og snjöll sýning, skemmtun sem enginn má missa af.

Skemmtileg menning

Sjálfur hef ég skemmt mér konunglega við að skrifa þennan pistil og vil þakka ritstjórn DV fyrir að birta hann í þessu skemmtilega blaði. Lesendum óska ég góðrar skemmtunar hvar sem þeir leita fanga í íslenskri menningu, reyndar er ég þess fullviss að þeir muni skemmta sér hið besta, því við lifum á svo skemmtilegum tímum að leiðindi eru orðin nýstárleg og fyrir vikið allt að því skemmtileg.

rhv

   
Stundleg list eða óstundleg 10.3.06

Því er stundum haldið fram að listin búi yfir eiginleikum sem séu hafnir yfir stund og stað. Í henni sé einhver kjarni sem lifi af allar hræringar mannsandans. Svokölluð sígild verk gætu virst vera staðfesting á því, verk eins og grísku harmleikirnir, Íslendingasögurnar og leikrit Shakespeares, þau hafi lifað öldum saman meðal ólíkra þjóða.

Rétt er það, en á móti kemur að hið svokallaða hefðarveldi bókmenntanna, sem er nútímalegra hugtak yfir sígild verk, hefur verið í stöðugri endurskoðun undanfarna áratugi. Gangskör hefur verið gerð í því að koma bókum eftir konur og minnihlutahópa á listann. Á meðan hafa önnur verk þokast út á jaðarinn og jafnvel gleymst í bili.

Hvað verður um meinta óstundlega eiginleika listarinnar frammi fyrir þessari staðreynd? Komast nýju verkin í hóp sígildra verka vegna þess að við höfum allt í einu uppgötvað að þau búa þrátt fyrir gleymskuna yfir sammannlegum kjarna? Eða er skilgreiningin á þessum kjarna líka á floti? Breytast ekki áherslurnar í listinni eftir því hvort það er stríð, hallæri eða góðæri?

Kannski er nær að tala um hlutverk listarinnar. Henni sé á hverjum tíma ætlað visst hlutverk í lífi okkar. Það hlutverk sé að einhverju leyti misjafnt eftir því hvernig tímarnir eru en felist í grundvallaratriðum í því að fást við tilvist okkar, skilgreina hana, beina sjónum okkar að því hver við erum og hvernig við högum lífi okkar.

 
Ein af þremur 23.2.06

Sú flökkusaga hefur nú gengið í bókmenntaheiminum í nokkur ár að gagnrýnandi sem Sjónvarpið réð til að fjalla um fagurbókmenntir fyrir jólin 2000, hafi haft þá vinnureglu að slátra alltaf þriðju hverri bók. Jafnframt hafi hann stært sig af því að hafa gagnrýnt bækur án þess að lesa þær og jafnvel án þess að taka þær úr plastinu.

Eins og ég segi, þetta er flökkusaga sem pistlahöfundi hefur borist nokkrum sinnum til eyrna á undanförnum árum.

Haustið 2000 skilaði ég Jóhanni Páli Valdimarssyni hjá JPV forlagi handriti að smásagnasafni með þeim orðum að tveir gagnrýnendur mundu slátra því ef þeir kæmust í tæri við það og nafngreindi þá. Var annar þeirra Hrafn Jökulsson.

Ég sá að vísu ekki þegar Hrafn fjallaði um bók mína, en mér skilst að þetta hafi gengið eftir og vel það.

Ættingjum mínum var ekki skemmt yfir atgangi Hrafns Jökulssonar í Sjónvarpinu og faðir minn sendi Gísla Marteini, sem hlýddi Hrafni yfir í umræddu tilviki, skeyti þar sem hann bauðst til þess að gefa honum eintak af bókinni því augljóst væri að hvorugur þeirra hefði lesið hana. Þetta var skondið framtak hjá föður mínum, sem vanalega kippir sér lítið upp við vitleysuna úti í heiminum, en svarið sem hann fékk frá Gísla Marteini var þó ekki síður merkilegt . Gísli Marteinn treysti sér ekki til þess að skera úr um það hvort Hrafn hefði lesið bókina eða ekki, hann hefði ekki prófað hann í því.

Nokkru síðar fékk bókin glimrandi dóm hjá gagnrýnanda World Literature Today í Bandaríkjunum sem hafði augsýnilega tekið hana úr plastinu.

rhv

   
Coetzee skrifar um þýðendur 3.2.06

Í síðustu viku birti suður-afríski Nóbelsverðlaunahöfundurinn J.M. Coetzee grein um þýðingar á bókum sínum í The Weekend Australian, „Talað tungum" heitir greinin. Þar veltir Coetzee fyrir sér þýðingum frá sjónarhóli hins þýdda, ef svo má segja, en bækur hans hafa verið þýddar á um 25 tungumál, einkum evrópsk mál en einnig nokkur asísk eins og japönsku og kóreönsku. Af þessum málum segist Coetzee einungis geta lesið tvö eða þrjú sjálfur og verði því að reiða sig á að þýðendurnir kunni til verka. Það sé einungis þegar einhver tvímálga sem hafi borið saman þýðingu og frumtexta gefi honum skýrslu að hann komist að því ef eitthvað hefur farið úrskeiðis. Þannig hafi honum orðið bilt við þegar honum bárust spurnir af því að bók hans The Master of Petersburg hafi fengið heitið Haust í Pétursborg á rússnesku og þá ekki síður þegar hann frétti að í ítalskri þýðingu bókarinnar Dusklands hafi maður opnað trékassa með aðstoð fugls en í frumgerðinni er talað um crow (stytting á crowbar) og þá átt við kúbein!

Coetzee segir þó að flestar skýrslurnar séu á jákvæðum nótum. „Meira að segja í gróðadrifnum heimi nútímaútgáfu virðast lélegar þýðingar vera fátíðar," segir hann. „Sér í lagi við þýðingu á bókmenntaverkum virðist hvötin til að gera sitt besta, jafnvel þótt enginn kunni að taka eftir því, ráða ríkjum."

Coetzee tekur því fagnandi þegar þýðendur leita ráða hjá honum og segist vera í reglulegu sambandi við þýðendur í nokkrum löndum. Hann furðar sig hins vegar á því að þýðendur hans í Tyrklandi og Japan skuli aldrei hafa haft samband í ljósi þess miklar munar sem er á þessum tungumálum. „En kannski hafa þeir ekki samband af kurteisisástæðum."

Höfundurinn spyr sig hvort það sé auðvelt eða erfitt að þýða bækurnar hans. Hann lýsir því svo yfir að texti hans sé vanalega skýr setningu fyrir setningu og hann reyni að hafa eins rökrétt samhengi í honum og hann geti. Aftur á móti segist hann stundum nota orð sem séu hlaðin sögulegum skírskotunum. Samtöl segir hann iðulega skapa vandræði fyrir þýðendur, einkum þegar þau séu óformleg og nýti sér héraðsmállýskur eða tískuslangur. Þessu sé sjaldnast fyrir að fara í bókum hans, samtölin séu vanalega formleg og því eigi ekki að vera torvelt að finna rétta málsniðið, jafnvel þótt þau kunni að vera snubbótt á tíðum.

Coetzee rekur síðan samskipti við nokkra þýðendur og hvað helst vafðist fyrir þeim. Hann segir t.d. frá því að kóreanski þýðandinn þurfi mjög praktíska ráðgjöf, útlistun á merkingu einstakra orða og orðasambanda. Um íslenska þýðandann segir Coetzee að hann bjargi sér prýðilega á evrópskum málum en þurfi aðstoð við suður-afrísk hugtök á borð við muti, snoek og Kaffraria .

Og hver skyldi nú vera íslenski þýðandinn? Sá eða sú sem getur sagt okkur í Græna húsinu það og í hvaða þýðingu hans Kaffraria kemur fyrir, hefur unnið sér inn ókeypis eintak af bókinni Fröken Peabody hlotnast arfur . Sendið okkur tilskrif á netfangið graenahusid@graenahusid.is .

   
Leiksoppar tískustrauma 31.1.06

Fyrir nokkrum árum markaði stjórn Launasjóðs rithöfunda nýja stefnu við úthlutanir. Við lýði hafði verið nokkurs konar öldungaráðsstefna, þ.e. að höfundar sem voru komnir á vissan stall og höfðu fengið ár eða meira úr sjóðnum máttu búast við nokkru afkomuöryggi áfram. Með hinni nýju stefnu var hinu takmarkaða öryggi sem menn höfðu búið við eftir áratuga hark varpað fyrir róða. Menn eins og Einar Már Guðmundsson, Einar Kárason, Pétur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson hafa verið miskunnarlaust gjaldfelldir ef því er að skipta en inn teknir höfundar sem hafa þótt vera á miklu skeiði, stundum kornungir, sem gerir þetta að sumu leyti erfiðara fyrir þá sem hafa barist í þessu áratugum saman.

Rökin fyrir þessari breytingu voru m.a. þau að stöðug uppstokkun sem tæki mið af gengi höfunda hverju sinni væri í þágu bókmenntanna. Sjóðurinn hefði þar með sveigjanleika til að bregðast strax við ef fram kæmu frjóir höfundar. Fólk sem hefur notið góðs af þessari stefnu undanfarin ár eru t.d. Guðrún Eva Mínervudóttir, Auður Jónsdóttir, Bragi Ólafsson, Hrafnhildur Hagalín og nú síðast Steinar Bragi, Sigurbjörg Þrastardóttir, Jón Atli Jónasson og Óskar Árni Óskarsson. Þessir höfundar eru í náðinni núna en mega flestir búast við því að verða gjaldfelldir þegar nefndinni finnst þeir ekki hafa verið í stuði eða þegar tískustraumar breytast. Því verður hins vegar ekki neitað að allt er þetta hæfileikaríkt fólk.

Það eru kostir og gallar við þetta kerfi eins og öll önnur mannanna verk. Það er augljóslega gott fyrir þá sem eldanna njóta í hvert skipti. En það er tilfinningalega og afkomulega mjög erfitt. Þeir sem eru svo djarfir, eða svo vitlausir, að helga líf sitt bókmenntum geta nú ALDREI búist við minnsta afkomuöryggi. Í upphafi árs geta þeir aldrei verið vissir um að eiga til hnífs og skeiðar. Þeir sem þekkja þennan lífsstíl vita hversu slítandi hann er, hve mikil orka fer í þessa óvissu. Mér finnst ekki sanngjarnt að höfundar sem hafa gefið okkur ævi sína og haldið uppi bókmenntalífinu árum saman séu settir í þessa stöðu. Einstaka kemst á heiðurslaun en fyrir því er engin trygging eins og Sigurður A. Magnússon er til marks um; þar eru menn pólitískir leiksoppar. Auk þess er ekkert víst að þetta hringl allt verði endilega gjöfulla fyrir bókmenntirnar þegar til lengri tíma er litið. Það getur í mörgum tilfellum leitt til þess að menn brenni fyrr út. Við þurfum því nauðsynlega á meira fé að halda til þess að koma í veg fyrir að fólk sem hefur unnið á akrinum alla ævi sé ekki sett út á guð og gaddinn á viðkvæmum aldri.

 
Skóflustunga að sköpunarstarfi 28.1.06

Fyrir skömmu sat ég aðalfund Bandalags íslenskra listamanna. Þar tíðkast að formenn aðildarfélaganna geri grein fyrir starfi undangengins árs. Hver talsmaðurinn af öðrum steig á stokk og sagði farir sínar ekki sléttar. Eilíft basl við að verja hagsmuni félagsmanna og eilíft þjark við ráðamenn sem sýna listamönnum lítinn skilning og virðast helst reyna að þreyta þá með því að draga lappirnar, kannski í von um að þeir gefist upp og snúi sér að öðru.

Er eitthvað kunnuglegt við þetta?

Ég velti fyrir mér hvernig standi á því að ráðamenn hafi ekki meiri skilning og áhuga á stöðu listamanna í nútímasamfélagi. Hvers vegna eru þeir tilbúnir til að bora jarðgöng fyrir örfáa bíla, en ekki til að stuðla að enn betra mannlífi í landinu, svo ekki sé talað um að beita sér fyrir varðveislu íslenskrar tungu, sem sumir telja að sé í hættu verði ekki spyrnt við fótum. Tregðan er furðuleg þegar haft er í huga að samkvæmt þessu sama fólki drýpur smjör af hverju strái. Litlu virðist skipta þó að hagfræðiprófessorar á borð við Ágúst Einarsson hafi sýnt fram á að menningin skilar miklu til þjóðarbúsins - líka í peningum talið.

Ráðamenn eru fulltrúar fólksins í landinu og reyna þess vegna að endurspegla áherslur þess. Af stefnu þeirra í listrænum efnum má ráða að þeir telji fólkið í landinu mótfallið því að verja meiri fjármunum í listalífið. Og af hverju ætli fólkið í landinu sé mótfallið því?

Varla af því það telji líf sitt verða litlausara fyrir bragðið. Þegar fram kemur góður listamaður - og hann sprettur sjaldnast úr grýttri jörð - er það fólkið í landinu sem fyrst nýtur góðs af, hvort sem það er í formi góðra bóka, myndverka, leikrita, tónlistar eða kvikmynda. Listmennirnir sjálfir bera iðulega lítið úr býtum og oftar en ekki eru þeir reknir með tapi á þessum örsmáa markaði, ná a.m.k. sjaldnast að reikna sér það endurgjald sem ríkisskattstjóri hefur til viðmiðunar. Oft er það svo að allir þeir sem koma að framleiðslu, dreifingu og sölu á verkum listamanna fá „viðmiðunarlaun" en listamaðurinn fær lítið sem ekkert fyrir að skapa þeim atvinnu. Samt fer varla nokkur Íslendingur í gegnum daginn án þess að verða fyrir áhrifum af störfum listamanna, lifandi eða látinna. Verk þeirra eru órjúfanlegur hluti af gleði okkar og sorgum, þau óma í eyrum og iða fyrir augum alla daga. Já, og svo laða þau ferðamenn að í þúsundatali.

En þegar milljarðar eru til ráðstöfunar, hvers vegna má þá ekki setja nokkra í að rækta það sem gerist inni í hauskúpunni? Hvers vegna þykir gott og gilt að steypa rándýr hús utan um stofnanir, eins og til stendur að gera fyrir Stofnun íslenskra fræða, en ekki að gera myndarlegt átak í innra starfi þeirra?

Það er engu líkara en menn haldi að steinsteypan vinni verkin.

Ég er helst á því að hér ráði hefðin mestu. Það er ekki hefð fyrir því að leggja alvörupening í þennan málaflokk. Það er hefð fyrir því að leggja 10 milljarða í jarðgöng en ekki fyrir því að hækka framlög í Þýðingarsjóð um 100 milljónir þó að þýðingar séu lífsnauðsynlegar þjóðarmenningunni. Getur verið að sá stjórnmálamaður sem reynir að komast upp úr þessu efnishyggjufari mæti, eða búist við að mæta, mikilli mótspyrnu í sínum röðum og óttist upphlaup meðal þjóðarinnar?

Hér hefur opnast gjá á milli raunveruleika og hugarfars. Þessi tittlingaskítshefð varð til við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður. Íslenska þjóðin er nú hámenntuð og rær á seðlabanka og væri örugglega tilbúin að rjúfa þessa úreltu hefð ef látið yrði á það reyna. Hún sér í gegnum alla hégómlegu minnisvarðana og skóflustungurnar.

Nú er lag fyrir brautryðjanda.

Pistill Rúnars Helga Vignissonar í Lesbók Morgunblaðsins 28.1.06

   

 

   
Eldri pistlar  
 

 

       
       
       
   

 

 

   
   
       

 

 
 
 
   
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538