Stríð í stuttbuxum 6.2.11
 

Ég var mættur á úrslitaleik á Rey-Cup, alþjóðlegu móti sem Þróttarar halda í Laugardal á hverju sumri. Ég hafði óvenju hægt um mig, þó að ég væri hálfstressaður fyrir hönd minna manna enda mótherjarnir flestir árinu eldri og talsvert hærri. Fyrir framan mig stóð faðir sem fylgdi hinu liðinu og hafði sig þó nokkuð í frammi. Um miðjan fyrri hálfleikinn, þegar allt er í járnum, heyri ég hann kalla villimannslega: Já, étt’ann! Drengurinn sem maðurinn vildi láta éta var sonur minn 13 ára og sá sem átti að éta hann var næstum höfðinu hærri.

Mér var nóg boðið og vatt mér að manninum, hvern djöfulinn hann ætti við með þessu tali.

Hann sagðist vera í fullum rétti að kalla það sem honum sýndist inn á völlinn.

Ég sagðist ekki kunna að meta svona orðalag, allra síst þegar það beindist að syni mínum. Þetta væru nú einu sinni bara börn.

Hann sagði mér að hætta þessu væli. Ef ég þyldi ekki svona tal ætti ég að halda mig heima og hlusta á sálma.

Ég spurði hvort hann vildi kannski að sonur minn legði sér son hans til munns.

Verði honum að góðu, sagði hann og glotti við tönn.

Hvers konar faðir ert þú eiginlega? spurði ég.

Hei, hvernig væri að leyfa manni að horfa á leikinn í friði, sagði hann þá.

Ég mundi gjarnan vilja horfa á leikinn án þess að hlusta á fæðingarhálfvita eins og þig segja þessum golíötum að éta yngri strákana.

Farðu þá með þá í sunnudagaskólann, sagði hann.

Blessaður steinhaltu kjafti og komdu þér aftur í frumskóginn, hvæsti ég og strunsaði burt . . .

Nei, ég gaf mig reyndar ekki á tal við manninn, en hver veit nema lesandi hafi trúað mér til þess. Ég hélt aftur af mér, sagði ekki stakt orð, en ég skal játa að mig langaði mikið til þess að lesa yfir kauða og helst hefði ég viljað taka í lurginn á honum. Það gerði ég sem betur fer ekki, en þó tel ég ekki alltaf eftir mér að lesa yfir áhorfendum sem mér finnst fara yfir strikið og þeir eru margir þó að meirihlutinn sé prúðmannlegur. Oft les ég líka yfir sjálfum mér.

Samtalið hér að ofan, sem er í rauninni summan af nokkrum samtölum sem ég hef átt á hliðarlínunni í gegnum tíðina, er að mörgu leyti lýsandi fyrir andrúmsloftið í kringum keppnisíþróttir. Þar streymir adrenalínið óspart, jafnt innan vallar sem utan, og tilfinningarnar sem bærast í brjósti leikmanna og áhorfenda eiga stundum ekkert skylt við það sem á rólegri stundum kallast sannur íþróttaandi eða íþróttamannsleg framkoma. Þar breytast siðprúðustu menn í hreina villimenn enda segir spakmælið að enginn sé annars bróðir í leik. Ýmis dæmi má finna um það, allt frá Egilssögu til dagsins í dag. Íþróttir urðu stundum upphafið að miklum voðaverkum í fornritunum og svo er enn víða um heim. Fleyg eru orð Orwells um að í fótbolta sé ekki rétt við haft, þar séu hatur, öfund, sjálfhælni og lítilsvirðing fyrir reglum með í för.

 

Á þeim tíu árum sem ég hef fylgt sonum mínum eftir í ýmsum íþróttum, en einkum þó boltaíþróttum, hef ég séð mörg dæmi um óíþróttamannslega framkomu á vellinum og allt í kringum hann. Ég hef heyrt foreldra kalla svæsnustu svívirðingar á dómara í leik með 10 ára strákum, heyrt þá hlæja að óförum hins liðsins og fagna hverju marki ákaft þótt staðan hafi verið orðin 10-0 og leikmenn hins liðsins heldur framlágir orðnir, biðja jafnvel um meira: Halda svo áfram strákar, rústa þeim! Ég hef nokkrum sinnum reynt að ræða þetta við feðurna á línunni og þeir sjóuðustu hafa þá gjarnan sagt sisona: Þeir hafa gott af því að tapa. En vilja samt að sínir menn vinni – og það vil ég auðvitað líka. Ég hef séð þjálfara hella sér yfir unga og viðkvæma leikmenn, beita þá jafnvel andlegu ofbeldi, séð þá óskapast út í eitt í dómurunum, beita klækjabrögðum til þess að koma liði á pall, einblína á stóra og sterka leikmenn og sýna hinum fyrirlitningu svo þeir hröktust að lokum burt. Ég hef séð þá sýna foreldrum hins liðsins hreinan dónaskap, og jafnvel foreldrum síns eigin liðs. Ég hef séð dómara taka vafasamar ákvarðanir, sleppa kannski þeim sem sparkar í hausinn á leikmanni en reka þann sem mótmælir ofbeldisverkinu út af og mjög algengt er að þeir dæmi ekki þegar pasturslitlum leikmönnum er rutt úr vegi af líkamlega sterkari piltum svo þeim hefur verið bráð hætta búin. Ég hef séð leikmenn fella, lemja, hrinda og svívirða og heyrt af þjálfurum sem hafa beinlínis hvatt til slíkrar hegðunar. Leikmenn í sigurvímu eru þó stundum óíþróttamannslegastir af öllum. Eitt sinn hafði Morgunblaðið eftir einum leikmanni meistarflokks í körfubolta: „Við vildum slátra þeim strax í fyrri hálfleik“.

Sjálfur hef ég ekki alltaf verið til fyrirmyndar. Ég lifi mig inn í leikinn og ekki alls fyrir löngu lenti ég í orðahnippingum við mann sem kallaði inn á völlinn að sínir menn ættu að gera árás. Hann brást hinn versti við, og þá ekki síður konan hans, þegar ég gerði athugasemd við orðalagið, sennilega ekki í mildum tón, enda hef ég litla þolinmæði fyrir rugl í öðrum og reyndar ekki í sjálfum mér heldur. Var ég kannski að gera árás á hann? Hvað um það, ég get verið lengi að jafna mig eftir íþróttakappleik ef eitthvað hefur komið upp á, enda þekki ég ekki nógu vel þann mann sem þar birtist og vil helst ekki vera hann þegar leik er lokið – og reyndar ekki heldur meðan á honum stendur. Það er engu líkara en flokkaíþróttir virkji í mann ævafornar heilastöðvar hvort sem manni líkar betur eða verr.

 

Áðurnefnd dæmi hljóma kannski ekki eins og verið sé að lýsa kjöraðstæðum fyrir uppeldi barna og unglinga. Harðjaxlarnir mundu segja: Það sem ekki drepur mann herðir mann. Eða: Svona er boltinn.

Sú tvískipting sem verður til í kringum íþróttir, og endurspeglast m.a. í hatri Unitedmannsins Waynes Rooney á Liverpool, sem olli nokkru uppnámi nýverið, er sambærileg við það sem gerist á vígvelli eins og heyra má á orðavali íþróttafréttamanna. Það verður til andstæðingur og ekki endilega víst að borin sé virðing fyrir honum. Íþróttir stuðla með öðrum orðum að því að heift losnar úr læðingi og mörg dæmi eru um blóðug átök í kringum íþróttir. Þetta er sumpart sambærilegt við heita þjóðernisstefnu þar sem menn eru tilbúnir að fremja ýmis óhæfuverk í nafni ættjarðarástar. Á góðum degi má þó halda því fram að íþróttaleikvangurinn sé upplagður rammi utan um nauðsynlega útrás fyrir villimennskuna sem virðist búa í okkur, þó að sá rammi haldi ekki alltaf, en á vondum degi mætti halda því fram að íþróttir æstu upp í fólki villimennsku að óþörfu.

Það sem ég vildi benda á með þessu er að íþróttir eru aldrei saklaust fyrirbæri. Þær eru náskyldar stríðsrekstri og ég ímynda mér að þær hafi upprunalega haft þann tilgang að stæla menn fyrir stríð eða veiðar. Þegar íþróttahreyfingin heldur því fram að íþróttir séu hollar og heppilegar fyrir æsku landsins virðist hún ekki alltaf hafa allan pakkann í huga. Jú, íþróttahreyfingin hefur náð miklum árangri við þjálfun undanfarin ár, en miðað við kynni mín af henni er hún of upptekin af tæknilegum og líkamlegum atriðum og síðast en ekki síst af keppni, sem virðist hafin yfir gagnrýni þegar til kastanna kemur. Þó að ég hafi alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir, og hefði alls ekki viljað missa af þeim, þá hefur mér löngum fundist sem íþróttahreyfingin sjái ekki skóginn fyrir trjánum. Hún er svo upptekin af keppni að hún gleymir stundum að spyrja grundvallarspurninga, t.d. einmitt um keppni og sigur, en einkum þó um hlutverk sitt við að móta hegðunarmynstur og vera fyrirbyggjandi afl í heilbrigðismálum.

Við vitum að öll börn kynnast íþróttum nú til dags og mörg þeirra verja miklum tíma undir handarjaðri íþróttafélaga. Íþróttahreyfingin á verulegan þátt í uppeldi barna og félagsmótun og þar með í mótun samfélags okkar. Margt er þar vel unnið og margir leggja þar gjörva hönd á plóg. En eins einkennilega og það hljómar virðist mér stundum sem hreyfingin hafi ekki gert sér grein fyrir þessari íþróttavæðingu og haldi bara áfram að láta krakkana hlaupa, stökkva og takast á, algjörlega ómeðvituð um hið víðara samhengi, nefnilega að henni er falið langtum veigameira hlutverk í nútímasamfélagi en að framleiða afreksfólk, þó að það hljóti að fljóta með.

Nú er ég ekki að biðja íþróttahreyfinguna að sjá alfarið um uppeldi barnanna okkar, ekki frekar en skólana. En hún getur ekki, ef vel á að vera, skorast undan hinni félagslegu, atferlisfræðilegu og heilsfarslegu ábyrgð sem fylgir umfangsmikilli starfsemi hennar. Til að vera verð þess mikla trausts sem þjóðin setur á hennar herðar í seinni tíð, já og þeirra miklu fjármuna sem renna til hennar í gegnum ríki og Lottó, þarf hreyfingin að móta víðtæka hugmyndafræði – og það ekki bara á pappír – hugmyndafræði sem tekur á árásargirni, sem fæst við sigur og tap, bekkjarsetu og meiðsli, jafnt sem hegðunarmynstur, uppeldi leiðtoga, samvinnu, frumkvæði, öfund, einelti, já og síðast en ekki síst skort á hreyfigetu. Síðan þarf að miðla þessari hugmyndafræði með markvissum hætti til þjóðarinnar. Íþróttahreyfingin þarf að gera sér grein fyrir því hvernig starfsemi hennar speglast úti í samfélaginu, hvaða áhrif hún hefur á samfélagsgerðina, spyrja sig t.d. hvort hún hafi átt einhvern þátt í bankahruninu með áherslum sínum. Hún þarf að skoða fyrirbærið keppni og spyrja sig hvort hún sé alltaf betri en samvinna og hugsa ég þar sérstaklega til yngri flokkanna. Hún þarf að skoða ofuráhersluna á sigur og spyrja sig hvort hún sé rétt og hvaðan sú áhersla er sprottin. Getur hugsast að sigurvegarar forheimskist eins og þýski Nóbelsverðlaunahafinn Günter Grass sagði einu sinni? Hvernig ber annars að skilja öll þau heimskulegu svör sem sigurvegarar gefa iðulega í viðtölum, full af sjálfbirgingshætti og yfirlæti? Ekki eru þau alltaf góð auglýsing fyrir íþróttahreyfinguna eða hugarástand þeirra sjálfra. „Við vildum slátra þeim í fyrrri hálfleik“! Er einhver alvöru heilastarfsemi þarna eða er þetta bara talandi skepna? Nú veit ég að menn tala ekki í eiginlegri merkingu en það þarf ekki að þýða að eiginlega merkingin skíni ekki í gegn. Sigur er nefnilega alltaf á kostnað einhvers annars og sú átakanlega staðreynd blasir við að annað liðið tapar oftast. Að mínu mati gengur of margt í umgjörð íþrótta, einkum flokkaíþrótta, út á að gera lítið úr andstæðingnum, eins og markmiðið sé að niðurlægja hann. Það er púað á leikmenn, fagnað þegar þeir brenna af, og svo er það sigurhringurinn sem ungir leikmenn neyðast stundum til að horfa upp á daprir í bragði og er í senn til að fagna góðum árangri og úa á liðið sem tapaði. Samt er enginn sigur án mótherja. Margt í umgjörðinni er semsé ógeðfellt, mannfjandsamlegt og skrýtið. Af hverju hrósum við yfirleitt bara öðru liðinu fyrir lagleg tilþrif?

Þetta gerist að því er virðist án þess að farið sé í heimspekilegar pælingar um skepnuna í okkur, án þess að spurt sé hvað það þýði að sigra og tapa. Hvers vegna vilja flestir sigra? Er maður verri manneskja þótt maður tapi? Hvað er að því að vera númer tvö eða þrjú, já eða í neðsta sæti? Af hverju er efnt til hugrænna námskeiða um árangur afreksmanna? Af hverju er árangur skilgreindur svona þröngt? Er það ekki jafn mikill árangur eða jafnvel meiri að of þungur einstaklingur drífi sig frá sjónvarpinu og hlaupi þrjá kílómetra þótt það taki hann klukkutíma? Það gæti komið í veg fyrir tapaðar vinnustundir og háan sjúkrakostnað, og aukið lífsgæði almennt.

Það er auðvitað margt gott við íþróttir, og án þeirra vildum við alls ekki vera, þær eru t.d. eins konar esperanto, tungumál sem hægt er að nota hvar sem er í heiminum. Þær geta sameinað fólk, þær veita ómetanlega útrás, stæla líkama og sál og svo eru þær gott umræðuefni, einkum þó meðal karlmanna. En er ekki viss tvískinnungur í gangi líka? Það er látið sem íþróttir séu fyrir alla en þegar til kastanna kemur er sú ekki alltaf raunin. Það er látið sem íþróttir og vímuefni eigi ekki samleið, en samt er boðið upp á áfengi í heiðursstúkum og á ýmsum skemmtunum á vegum hreyfingarinnar auk þess sem strákar í íþróttum hafa iðulega annarlegan munnsvip vegna þess að þeir eru með lummu í vörinni þó að svo eigi að heita að það sé ekki liðið. Það er látið eins og allir séu jafnir en fyrr en varir er farið í hrikalegt manngreinarálit. Það er látið eins og þetta sé ein göfugasta starfsemin í landinu en reyndin er oft sú að hún kallar fram górilluna í okkur.

Yfir allt þetta þarf íþróttahreyfingin að geta hafið sig. Hún getur ekki eftirlátið sigursjúkum þjálfurum og gömlum kempum með „Svona er boltinn“ á vörunum að stjórna orðræðunni. Foreldrar gera kröfu um þroskaða sýn á starfsemi sem börnin þeirra verja svo mörgum stundum í, þótt þeir missi stöku sinnum taumhald á skepnunni í sjálfum sér þegar að kappleikjum kemur. En þeir vilja ekki að mottóið sé „Enginn er annars bróðir í leik“ og að útkoman verði árásargjarnir einstaklingar sem sjá heiminn í svarthvítu. Það krefst í rauninni mikils andlegs og félagslegs þroska að höndla þær stríðu hvatir sem koma upp í keppnisíþróttum og íþróttahreyfingin þarf að hafa þann þroska, ekki síst ef hún ætlar að höfða til beggja kynja, því íþróttir smita út frá sér í samfélagið og skilja eftir sig ákveðinn þankagang hjá einstaklingi löngu eftir að hann er hættur keppni. Einstakir menn geta kannski ekki haft þennan þroska að öllu leyti en maður þarf að hafa á tilfinningunni að íþróttahreyfingin sem heild hafi hann, enda endurspeglar íþróttastarf mannlífið. Þetta er spurning um miklu stærri markmið en að búa til afreksmenn, þetta er spurning um hreyfigetu ofalinnar þjóðar, þetta er spurning um sykursýki, kransæðastíflu og skattbyrði framtíðarinnar. Langstærsta verkefni íþróttahreyfingarinnar er sennilega að koma í veg fyrir að Íslendingar verði upp til hópa sykursjúkir vegna offitu á komandi árum og þess vegna er meginhlutverk hennar nú um stundir að kynna fólk fyrir íþróttum og heilbrigðum lifnaðarháttum, fá það til að hreyfa sig alla ævi, ekki bara til tvítugs eða þrítugs, og ekki bara til þess að keppa. Það gæti krafist meiri sköpunar við þjálfunina og jafnvel listrænnar nálgunar, enda eru margar íþróttagreinar náskyldar listum og þeir íþróttamenn sem mestum árangri ná eru gjarnan listrænir í hugsun.

Mig langar til að ljúka þessari stuttu ádrepu á því að vitna í fermingarkort sem sonur minn fótboltamaðurinn fékk frá ágætri fjölskyldu í Vesturbænum. Þar kemur fram listræn og heimspekileg sýn á íþróttir, í rauninni hugleiðing um íþróttir sem myndhverfingu fyrir lífið. Í kortinu stendur:

„Við óskum þér gæfu í fótboltaleikjum lífsins, í vörn jafnt sem sókn; að þú lærir að taka bæði sigrum og ósigrum en sættir þig við að lífið er oftast bara jafntefli og að bestu stundirnar eru í leikhléinu.“

Birt í Tímariti Máls og menningar, 3 2010.

     
  Þið, teprur Íslands! 30.12.07

Haft er eftir roskinni konu að Grænhýsingur skrifi ekki um neitt annað en uppáferðir. Þetta er ekki ný bóla og segir auðvitað mest um lesendur sjálfa og hverju þeir eru uppteknastir af.

Af því konan í Græna húsinu er orðin leið á þessum fáránlegu yfirlýsingum er kannski rétt að fara aðeins yfir höfundarverk Grænhýsings svo teprur Íslands fái greint hismið frá kjarnanum. Stærstur hluti höfundarverksins er þýðingar sem spanna ólík svið. Jú, sumar bókanna fjalla um samlíf kynjanna, en aðrar fjalla um innflytjendur, enn aðrar um hlutverk skáldskaparins, afdrif sekra sem saklausra í ameríska suðrinu, aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku, samskipti Ástralíu við herraþjóð sína, leðurblökur og síðast en ekki síst um einn af leiðöngrum Vilhjálms Stefánssonar. Ótal greinar í blöðum og tímaritum, sem er næststærsti þátturinn í höfundarverkinu, fjalla um flest milli himins og jarðar en líklega mest um menningarmál og minnst um uppáferðir.

Þá eru það skáldsögurnar. Sú fyrsta fjallar um líf í frystihúsi, næsta fjallar um sjálfsmyndarkreppu sem leiðir til óvirkni, sú þriðja um hvað það er að vera Íslendingur, ekki síst í útlöndum, sú fjórða um fóstur sem ekki er hægt að eyða, sú fimmta, vei, hún fjallar að sönnu mest um samskipti kynjanna og þar er stöku uppáferð en ekki eins margar og margur gæti haldið, og sú sjötta fjallar um sigur og tap í fallvöltum heimi.

Í ljósi þessa ættu teprur Íslands að halda sig á mottunni í framtíðinni þegar kemur að yfirlýsingum um innihald verka þess sem hér skrifar. Ekki þar fyrir, það er ekkert að því að skrifa um ástamál, þar með talið kynlíf, enda er það snar þáttur í lífi allra og vel að merkja undirstaða lífsins.

   
Hvers vegna þýðum við úr ensku? 4.11.07

Um daginn undraðist háskólakennari einn að ég skyldi leggja mig niður við að þýða setningarávarp og bókarkafla eftir J. M. Coetzee fyrir bókmenntahátíðina í Reykjavík. Er þetta eitthvert prinsíp? spurði kennarinn og var helst á honum að skilja að hann teldi þetta mikinn óþarfa, enda sagðist hann vera orðinn vanur því að enskan væri óþýdd.

Öðrum finnst eðlilegast að lesa allar erlendar bækur á ensku, hvort sem íslensk þýðing er til eða ekki. Enn öðrum þykir eðlilegast að allar kvikmyndir beri ensk nöfn, líka þær sem koma af öðrum tungumálasvæðum.

Enskan er greinilega mál málanna hjá mörgum, rétt eins og hún sé eins konar föðurmál heimsins.

Í framhaldi af þessu virðist nauðsynlegt að spyrja sig þeirrar grundvallarspurningar hvers vegna við þýðum úr ensku eða úr nokkru öðru máli fyrst mörg okkar treysta enskunni svona vel.

Það mætti tína til ýmis svör við þessari spurningu en það veigamesta lýtur að móðurmálinu og sérstöðu þess. Að mínu mati er reginmunur á því að lesa á tillærðu máli og á móðurmáli. Við það að flytja texta af tillærðu máli yfir á móðurmál færist hann nær okkur, inn í okkur, og um leið gerist eitthvað sem er svo djúpt í vitundinni, svo heilagt og svo nálægt kvikunni í okkur, að það markar alla upplifun af textanum. Það felur í sér allt í senn: að koma heim, að hvíla í traustum móðurfaðmi, að njóta ástkonu sinnar. Þetta helgast m.a. af þeirri sjálfvirkni tungumálsins og skilningsins sem móðurmálið kemur í kring.

Þessi eðlisbreyting á upplifun lesandans er ein sterkasta röksemdin fyrir ástundun þýðinga. Texti á tillærðu máli getur aldrei keppt við móðurmálstexta, því hann verður alltaf lesinn með hreimi, hvort sem er í huga eða á tungu, enda á tillært tungumál sér önnur heimkynni í mannssálinni en móðurmálið. Aftur á móti getur þýddi textinn verið lykill að upplifun sem er skyldari lestrarreynslu þess sem las frumtextann á móðurmáli sínu. Þótt eitthvað tapist í þýðingu, eins og oft er sagt, er ávinningurinn þess vegna þeim mun meiri, ekki síst þegar þýddir eru textar eftir höfunda á borð við J. M. Coetzee.

Grein Rúnars Helga í Lesbók Morgunblaðsins 27.10. 2007

   
Mugison eða olíuhreinsunarstöð? 27.12.07

Þær eru sterkar myndirnar sem birtust af Mugison í tímaritinu Monitor í október síðastliðnum. Þar stendur hann við verbúðina Ósvör í Bolungarvík klæddur eins og formaður á leið í róður. Skeggjaður og þrekvaxinn birtist hann okkur sem sönn vestfirsk hvunndagshetja, maður sem er tilbúinn að takast á við hráslagaleg náttúruölfin.

Myndirnar birtust í tilefni af nýjum hljómdiski sem kappinn hefur unnið að mestu í Álftafirði, á nútímalegasta hátt, og selur m.a. í gegnum heimasíðu sína. Miðað við hástemmda dómana hefur formanninum hvergi fipast í háskalegum róðrinum og komið að landi með verðmætan feng sem landsmenn allir fá að njóta og jafnvel fleiri.

Blaðamenn hafa flykkst vestur til þess að taka hús á formanninum og í kjölfarið tjá þeir sig gjarnan um hina tignarlegu vestfirsku náttúru sem Mugison virðist vera partur af. Oftar en ekki fá þeir líka rammíslenska kjötsúpu hjá Mugipabba, ásamt fyrirlestri Mugisons sjálfs um dásemdir lífsins vestra.

Á sama tíma og Mugison sækir sér styrk í kraftmikla og ómengaða vestfirska náttúru róa nokkrir sveitarstjórnarmenn í fjórðungnum að því öllum árum að koma upp olíuhreinsunarstöð í vestfirskum firði, bæði til þess að fjölga störfum og eins til þess að fá betri vegi og þjónustu. Iðulega er þessi viðleitni tengd kvótakerfinu og þeirri ósvinnu að Vestfirðingar skuli ekki fá að fiska að vild eins og formaðurinn Mugison.

Meðan þessu fer fram gefast Vestfirðingarnir smátt og smátt upp á fiskvinnslustörfum og Pólverjar koma í staðinn, segja mér þeir sem til þekkja. Ætli Vestfirðingarnir sem finna sig ekki í slorinu lengur séu að búa sig undir að vinna í olíunni í staðinn?

Á dögunum sá ég olíuhreinsunarstöð í Kanada og hún var þvílík skelfing að ég hraðaði mér í burtu eins og flestir aðrir. Slíkt fyrirtæki telja sumir að muni leysa höfuð Vestfirðinga og frelsa þá frá illu. Þeir vilja jafnvel setja hryggðarmynd af þessu tagi niður í einum alfegursta firði landsins, Arnarfirði, og það gegnt fæðingarstað helstu frelsishetju þjóðarinnar. Yrði það minnisvarði við hæfi á 200 ára fæðingarafmæli Jóns forseta eftir rúm þrjú ár?

Nýverið keyrði olíuskip utan í brúarstólpa við San Francisco í þéttri þoku svo gífurleg olíumengun hlaust af. Í vor varð mikil sprenging í olíuhreinsunarstöð í Noregi. Flugslys verða líka þótt flugmenn séu í stöðugri þjálfun og hafi tékklistann fyrir framan sig. Bílar skella saman á beinum og breiðum vegi um hábjartan dag þótt bílstjórar séu ódrukknir.

Og einu sinni sigldi sjálf Guggan beint upp í Óshlíðina undir stjórn þrautþjálfaðra heimamanna. Halda menn að fjörurnar við Hrafnseyri yrðu lengi ómengaðar eins og vestfirsku veðrin geta verið?

Sumir segja að olíuhreinsunarstöð á suðurfjörðunum mundi ekki spilla ímynd allra Vestfjarða. Hornstrandir yrðu enn á sínum stað óspjallaðar. Þó gildir enn að eitt skemmt epli geti skemmt öll hin.

Mugison tengir ímynd sína ósvikinni vestfirskri kynngi og dásamar vestfirskt mannlíf. Hann hefur látið taka af sér myndir í fjöruborðinu íklæddur fortíðinni. Hann geislar af vistvænni orku og skilar frá sér tónlist sem vekur athygli víða. Hann er ekki formaður á olíuskipi heldur stýrir hann dýrum knerri af stakri snilld inn í nútímann. Það er freistandi að kalla hann Björk Vestfjarða en þó á það ekki alveg við vegna þess að hann er fyrst og fremst hann sjálfur, Mugison eða Örn Elías Guðmundsson.

Stöldrum aðeins við það.

Grein Rúnars Helga Vignissonar birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 15. desember 2007.

   
Skóla(f)árið 1.4.07

Ég hef skipt um skoðun. Fyrir nokkrum árum var ég ákafur talsmaður þess að skólaárið yrði lengt til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Ég mátti ekki til þess hugsa að ungir synir mínir forheimskuðust sökum ónógrar skólagöngu. Eftir að skólaárið var lengt þykir mér nóg um slímsetur þeirra á skólabekk og finnst ekki sjálfgefið að það geri þá að nýtari þjóðfélagsþegnum. Sjálfir kvarta þeir sáran undan því að lífi þeirra sé sólundað í ekki neitt, margir af þessum viðbótardögum fari í hangs og ómarkviss verkefni sem komi námi ekkert við. Ég hef reyndar talsverða trú á verkefnum sem virðast ekki koma námi við en veit ekki með hangsið. Aftur á móti finnst mér eitthvað brogað við það þegar 11 ára strákur kemur heim úr skólanum um miðjan dag og á þá eftir að læra heima, já og fara í tónlistarskóla eða á íþróttaæfingu. Og það er bókstaflega eitthvað harmrænt við það þegar kornabarn fer á leikskóla klukkan átta á morgnana og er sótt klukkan hálfsex á daginn. Menning okkar, og þar á skólakerfið sinn þátt, hefur skilað okkur foreldrum sem loka börnin sín inni á stofnunum lungann úr barnæsku þeirra, rétt eins og þau séu munaðarlaus. Hvar er barnaverndarnefnd?

Allt miðast við okkur fullorðnu apakettina sem hugsum ekki um annað en að eignast stóra bíla til að spilla lofti og láði fyrir afkomendum okkar.

. . .

Nei, ég hef ekki eins mikla trú á hefðbundinni skólun og áður þegar kemur að því að búa til nýta þjóðfélagsþegna. Í sumum tilfellum trúi ég því að skólakerfið geti spillt börnunum og jafnvel innrætt þeim slæma siði. Já og það sem verra er: drepið þau úr leiðindum. Það er eitthvað ákaflega ógeðfellt við það að fólk undir fermingu skuli SITJA á skólabekk lon og don þar sem þeim er mest hampað sem geta verið nánast hreyfingarlaus tímunum saman eins og þau sé í látbragðsleik. Það er slæmt fyrir bakið og innyflin og blóðrásina og umfram allt fyrir heilastarfsemina að sitja svona mikið. Halldór Laxness stóð við púltið sitt fræga því honum fannst innyflin krumpast illilega ef hann sat. Það er kannski gott að sitja ef maður er með ilsig en ekki ef maður er ungur og jafnvel með of mikið af kolvetnum í blóðinu. Reyndar er það ekki gott fyrir þá sem eldri eru heldur.

Svo er það mannamunurinn. Skólar eru stofnanir þar sem fólk er stöðugt dregið í dilka, það er sífellt vegið og metið, og þá ekki síst til þess að finna þá sem ekki falla að viðmiðum dagsins. Eða öllu heldur viðmiðum gærdagsins því ekki virðist tekið ýkja mikið mið af nýjum kenningum í skólastarfi, s.s. eins og fjölgreindarkenningum, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Í skólanum er stöðugt verið að segja nemandanum hvað hann veit ekki og margur fær að finna hvað hann er takmarkaður. Oft er gert lítið úr nemendum að ósekju og ósjaldan er þeim kennt eitthvað sem er annaðhvort úrelt eða kemur þeim ekki að neinum notum, enda er enn lögð fullmikil áhersla á öpun í stað sköpunar.

Ungir menn læra ekki í skólanum það sem þeir kunna best; þeir læra það hver af öðrum og af sjálfum sér.

. . .

Skólakerfið geldur þess að ekki vilja allir láta kenna sér þó að flestir vilji læra, svo vísað sé til orða sem Winston Churchill lét einu sinni hafa eftir sér. Og því miður er það svo að fáir eru sem feður, engir sem mæður, eins og langamma sona minna hafði oft á orði. Það er sama hvað kennarinn er fær, hann getur aldrei komið í staðinn fyrir mömmu til lengdar, ekki einu sinni þótt hann sé kvenkyns og hafi fengið toppeinkunn í kennaraháskóla.

Í seinni tíð set ég því spurningarmerki við langvarandi viðveru barna og unglinga á stofnunum eins og skólum. Að sumu leyti eru skólar ígildi munaðarleysingjahæla, ekki síst leikskólar sem ég tel þó standa sig einna best allra skólastiga. Börnin eru höfð afsíðis, búið til eins konar gerviumhverfi fyrir þau með gervimæðrum og feðrum, rétt eins og gamla fólkinu er iðulega kippt út úr hringiðunni og því komið fyrir á dvalarheimilum þar sem það bíður einmana eftir því að einhver undir sjötugu komi í heimsókn. Gamla fólkið má hins vegar fara út ef það hefur heilsu til en börnin fá skróp í Mentor með tilheyrandi afleiðingum.

Fáir sem feður, enginn sem móðir. Ég hef verið heimavinnandi alla tíð en neyðist til að staðfesta þessa niðursoðnu speki langömmunnar.

. . .

Þó að farið sé að taka meira mið af þörfum hvers nemanda fyrir sig virðist meginreglan enn vera sú að nemendur eru steyptir í nokkurn veginn sama mótið í grunnskóla. Allir fara í gegnum svipað námsefni, enda námsmatið samræmt, allir þurfa að hlíta svipuðum reglum í svipuðu umhverfi. Nemandinn hefur lítið sem ekkert vald yfir aðstæðum; ef hann vill rökræða er hann oftar en ekki að steyta görn.

Sjálfur lagði ég mig alltaf í líma við að vera góður strákur" þegar ég var í skóla, fór í kerfi ef það mistókst. Ég kom einu sinni of seint í barnaskóla og man það ennþá. Ég fékk góðar einkunnir og hélt út í lífið með það veganesti að ef ég yrði alltaf stilltur og prúður, gerði alltaf það sem fyrir mig væri lagt, þá mundi mér vegna vel og verða nýtur þjóðfélagsþegn. Það reyndist vera óhollt nesti enda hafa margir af þeim sem fengu lægri einkunnir en ég og voru ekki eins þægir reynst hæfari til þess að takast á við lífið. Þess vegna brosi ég í kampinn þegar kennarar kvarta undan sonum mínum, þeir tali stundum þegar þeir eigi að þegja, viðri skoðanir sínar hvort sem þær falli í kramið eða ekki og hlaupi á göngum. Það skapar auðvitað viss rekstrarleg vandamál fyrir stofnunina, en reynslan kennir mér að affarasælast sé að bera hæfilega virðingu fyrir yfirvaldi, annars vofi vanahugsun og atkvæðaleysi við. Það þarf að gera börnin veraldarvön og þar gæti skólinn staðið betur að vígi. Sennilega væri betra að krakkarnir eyddu meiri tíma við að vinna launaða vinnu, t.d. við að kenna.

Stóri kosturinn við skólakerfið er nefnilega sá að kennarinn lærir heilmikið á því að kenna. Kennsla er besta námið, það þekki ég af eigin raun. Þó að miklu fé sé kastað á glæ með óskilvirkum kennsluháttum eins og fyrirlestrum, einkum á efri skólastigum, þá er það huggun harmi gegn að kennararnir uppskera ríkulega. Stundum geta nemendurnir meira að segja hjálpað þeim umtalsvert, t.d. með því að mæta óundirbúnir í tíma eða með því að móka undir fyrirlestrum sem verður til þess að kennarinn þarf að tala út í eitt og kemst þá stundum að ýmsu um þekkingu sína eða vanþekkingu, ja eða finnur upp nýja kennsluhætti. Með einfaldri spurningu getur nemandi líka leitt kennarann á slóð snjallrar hugmyndar sem aftur leiðir til framþróunar í fræðigrein hans og elur jafnvel af sér nýtt fyrirtæki, ef til vill skóla af öðru tagi en nú tíðkast.

ES Ég fékk eldri son minn til þess að renna yfir greinina. Hann sagði: „Þú hefur þá verið að hlusta á mig." En honum fannst að ég mætti leggja ennþá meiri áherslu á tímaþáttinn, hvað krakkar ættu fáar frístundir.

Grein Rúnars Helga Vignissonar birtist í Skólavörðunni í mars 2007.

   
   

 

 

   
  Eldri pistlar  
 

 

 
 
 
   
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538