Silfurvængur Kenneth Oppel
 
Skuggi er ung leðurblaka, stubburinn í nýlendunni. Hann er ákveðinn í að sanna sig á hinu langa og hættulega ferðalagi suður í Vetrarhíði, milljónir vængjaslátta í burtu. Í óveðri hrekst hann út yfir sjóinn, burt frá fjölskyldu og vinum og því lífi sem hann þekkir. Hræddur og einmana tekst hann á hendur makalausa ferð til að hafa uppi á nýlendunni . . .

Með þessari bók hefur Kenneth Oppel skapað nýstárlega söguhetju sem ferðast á nóttunni og sér bæði með augum og eyrum. En það er freistandi að gægjast aðeins á sólina . . .

Bækurnar um Silfurvængina eru æsispennandi. Þær hafa hlotið ótal verðlaun og verið gefnar út víða um lönd.

Rúnar H. Vignisson þýddi.
   
  Viðurkenning frá IBBY 10.10.08
 

Á þingi sínu í Kaupmannahöfn nú nýverið veittu IBBY-samtökin ( The International Board on Books for Young People) Græna húsinu og Rúnari Helga Vignissyni heiðursviðurkenningu fyrir útgáfu og þýðingu á bókinni Silfurvængur. Í bréfi frá samtökunum, sem eru alþjóðleg samtök um barnabækur, segir að viðurkenningin sé veitt fyrir framúrskarandi gæði.

Annað hvert ár dreifir IBBY heiðurlistaskrá sinni en í henni eru á annað hundrað nýlegar bækur frá löndunum sem eiga aðild að samtökunum.   Horft er til gæða sagnanna, myndskreytinga og þýðinga. Miðað er við að bækurnar sem hljóta viðurkenninguna séu fulltrúar þess besta í barnabókmenntum í hverju landi og að þær standist samanburð við það besta sem gert er annars staðar í heiminum.

Þar með hafa báðar bækurnar um leðurblökurnar Skugga og Marínu hlotið viðurkenningu, en Sólvængur hlaut sem kunnugt er barnabókaverðlun Menntaráðs Reykjavíkur í fyrra.

   
  Kennsluleiðbeiningar fyrir Silfur- og Sólvæng
  Bæði Silfurvængur og Sólvængur henta afar vel til kennslu því margt er að spjalla um í þeim. Auk þess má nota tækifærið og fræðast heilmikið um leðurblökur. Kennurum má benda á að á heimasíðu Kenneths Oppel er að finna ágætar kennsluleiðbeiningar sem hlaða má niður í pdf-formi. Þar er að finna bæði fróðleik og spurningar sem hjálpa lesandanum að átta sig betur á bókunum. Þess má geta að Silfurvængur hefur þegar verið notaður svolítið í íslenska skólakerfinu og almennt hefur bókunum verið vel tekið af kennurum og bókasafnsfræðingum sem fagna því að fá bækur frá Kanada og það með svona óvenjulegum söguhetjum.
   
  Ritdómar
   
 

„Krúsalegur dýrahúmor einkennir hinsvegar alla liðlanga bók Kenneth Oppel um leðurblökuna Skugga sem er af ætt Silfurvængja. Silfurvængur Oppels er fyrsta bókin af þremur og boðar útgefandinn, Græna húsið, næstu bók á heimasíðu sinni og býður lesendum að skoða fyrsta kaflann. Öfugt við Pavel á hinn kanadíski Oppel að baki afar hefðbundinn rithöfundaferil, þó vissulega hafi hann byrjað allungur. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir bækur sínar, sem kemur ekki á óvart því Silfurvængur er í stuttu máli sagt gersamlega dásamleg bók . . .

Rúnar Helgi er vel þekktur þýðandi og sýnir hér glæsilega takta við það að koma þessum heillandi leðurblökuheimi til skila.“

Úlfhildur Dagsdóttir, Bókmenntavefnum

„Þessi bók er mjög skemmtileg og spennandi, einkum fyrir dýravini.“

Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, 12 ára, Morgunblaðinu

„Textinn sem hann tekst á við er stutt dæmisaga Esóps, sem snerist um stríðið milli fugla og skepna. Samkvæmt Esóp fylgdu leðurblökurnar hentistefnu í því stríði og veittu þeim lið sem gekk best hverju sinni. Þegar friður var saminn skeyttu báðir aðilar skapi sínu á leðurblökunni og hún var dæmd til lífs í eilífu myrkri, hálfgerðrar útlegðar úr heimi ljóssins. Svona er sagan ekki í Silfurvæng. Samkvæmt eigin goðsögnum neituðu leðurblökurnar einfaldlega að berjast og vildu hvorugum stríðsaðilanum liðsinna. Þegar friður var saminn voru þær sakaðar um heiguslhátt og sviksemi. Ekki kannast blökurnar þó sjálfar við hentistefnuna sem lýst er í sögu Esóps. Í þeirra gerð fylgir sögunni enn fremur Loforðið mikla sem hin góða Noktúrna veitti leðurblökunum en samkvæmt því mun útlegð leðurblaknanna létta einn dag og þær fá að njóta sólarljóssins.

Hinn forni texti myndar hér ekki aðeins ramma fyrir andstæður verksins (eins og í Eragon) eða verður að stefi sem semja má gamansöm tilbrigði við (eins og í Börnum lampans) heldur teflir Kenneth Oppel fram nýrri goðsögu gegn hinni gömlu, svipað og Svava Jakobsdóttir gerði í Gunnlaðar sögu eða Timothy Findley í umtalaðri bók sinni um Nóaflóðið, Not Wanted on the Voyage. Óneitanlega er hér á ferð ferskur andblær í sögum um unglinga og það verður gaman að sjá hvernig bókaflokkurinn þróast."

Ármann Jakobsson, Börn og menning 2006

„Það er í raun afskaplega vel til fundið að láta leðurblökur leika aðalhlutverkið í svona sögu og búa til ævintýraheim í kringum þær, en leðurblökur eru dýr sem flestum eru tákn óhugnaðar og hryllings. Og leðurblökuveröldin sem lesandi kynnist er í meira lagi áhugaverð . . .

Þýðing Rúnars H. Vignissonar á Silfurvæng virkar með eindæmum vel. Textinn er myndrænn og lýsingar svo iðandi af lífi að oftar en ekki sér lesandinn atburðina ljóslifandi fyrir sér líkt og um teiknimynd væri að ræða. Bókin er líka afskaplega falleg og vel unnin og fer vel í hendi.“

Þórdís Gísladóttir, Morgunblaðinu

Silfurvængur eftir Kenneth Oppel í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar er líklega ein athyglisverðasta bókin sem kom út í fyrra . . . Sagan er skrifuð af þekkingu á leðurblökum, dýrin ekki manngerð á einfaldan hátt með því að gera þau að mannlegum staðalmyndum heldur leggur höfundur sig fram um að skapa trúverðugar leðurblökur. Tengsl Skugga við foreldra sína eru sérstaklega vel uppbyggð. Faðir hans er horfinn en Skuggi er afar hændur að móður sinni þótt hann vilji líka vera henni óháður. Tengsl þeirra eru nánari en gengur og gerist sökum fjarveru föðurins sem hvílir mjög á Skugga og veldur því að hann hefur föðurinn upp á stall til að sætta sig við að hann yfirgaf þau.“

Katrín Jakobsdóttir, Tímariti Máls og menningar 2 2006

„ Í seinni tíð sæki ég mikið í bækur sem segja mér sögur, sögur með hetjum og vondu fólki þar sem allt fer vel að lokum eftir miklar raunir og nornin brennur í ofninum á meðan góða fólkið vermir hendurnar . . . Tvær slíkar hef ég lesið alveg nýverið, góðar og vel skrifaðar sögur sem eru alls ekki léttvægar, Skugga-Baldur eftir Sjón og Silfurvæng eftir Kenneth Oppel í þýðingu Rúnars Helga. “

Agnes Vogler, einarogagnes.blogdrive.com

Erlendir ritdómar:

 

„Snilldarleg ævintýrabók þar sem leðurblökuhetja reynir að komast til nýlendunnar sinnar aftur. Bók sem ekki er hægt að leggja frá sér, hæfir lesendum frá 8 ára aldri og upp í fullorðna.“
Smithsonian Magazine

„Lesendur sem vilja gleyma sér í ímynduðum heimi munu gleðjast mjög yfir Silfurvæng eftir Kenneth Oppel. Hér leikur ímyndunaraflið sannarlega lausum hala og kallar á framhald.“  
The Globe / Mail, besta bókin fyrir unga lesendur

„Hér er kominn Jónatan Livingstone máfur leðurblaknanna . . . ferðalag hans er spennandi og atriði úr lífi leðurblökunnar eru sannfærandi og bera vott um auðugt ímyndunarafl.“
Publisher’s Weekly

„Söguþráður þessarar bókar virðist hæfa göfugri hetju fullkomlega: háskaför þar sem stuðst er við órætt kort og tryggan félaga . . . Helsti styrkur bókarinnar liggur í hraðri og æsispennandi atburðarásinni og sögusviðinu, holum trjám og klukkuturnum að næturlagi. Mælið með þessari, þau verða ekki fyrir vonbrigðum.“
School Library Journal

 

Um leðurblökur

Eru leðurblökur á Íslandi?

Halda mýs að leðurblökur séu englar?

Hversu mörg afkvæmi geta leðurblökur eignast?

Bókarkaflar

Fyrsti kafli úr Silfurvæng

 

 
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538