Við Hafnarstræti 33 á Ísafirði stóð lengi tvílyft bárujárnshús, grænt á lit. Neðan við húsið var port girt hlöðnu bólverki til varnar sjógangi. Í vestanátt, ekki síst þegar stórstreymt var, gaf stundum hressilega á bólverkið svo sjór flæddi inn í portið og ósjaldan niður í kjallara þar sem fyrir var alls konar spennandi dót og umfram allt sérstök lykt.  

Á vorin sigldi húseigandinn, Jón B. Jónsson skipstjóri, stundum trillunni sinni upp í fjöruna fyrir neðan til að þrífa botninn á henni. Trillan hét Heppinn og skellirnir í henni þegar hún sigldi eftir Pollinum á sumardögum eru ímynd eilífðarinnar.

Græna húsið við Pollinn var vettvangur ævintýranna. Því fannst rigningin góð og það gerði íbúum sínum kleift að ferðast um höf og lönd, jafnvel alla leið til Balí. Bókaútgáfan Græna húsið vill taka mið af því og verða gróðrarstöð ævintýra og ferðaskrifstofa íslenskrar tungu.

Eigendur Græna hússins eru Guðrún Guðmundsdóttir og Rúnar Helgi Vignisson. Þau hafa bæði umtalsverða reynslu af útgáfu bóka.

Höfuðstöðvar Græna hússins eru í Hrísmóum 11, Garðabæ.

 
       
     
   
   
   
   
 
 
 
 
 
GRÆNA HÚSIÐ · Hrísmóar 11 · 210 Garðabær · Netfang: graenahusid@graenahusid.is · Sími: 895 7538